7. maí 2008 | Íþróttir | 448 orð | 1 mynd

Olga Færseth hætt í fótboltanum?

*Hefur ekkert æft með liðinu og þjálfarinn reiknar ekki með henni *Engin hefur skorað fleiri mörk í efstu deild og langt er í þær sem næstar koma

Marksækin Olga Færseth, markahrókurinn mikli hjá KR, er sá leikmaður sem hefur hrellt flesta varnarmenn og markverði. Hér er hún í leik gegn Breiðabliki. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir horfir á eftir henni.
Marksækin Olga Færseth, markahrókurinn mikli hjá KR, er sá leikmaður sem hefur hrellt flesta varnarmenn og markverði. Hér er hún í leik gegn Breiðabliki. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir horfir á eftir henni. — Morgunblaðið/Árni Torfason
SVO virðist sem markadrottningin Olga Færseth, leikmaður KR, sé hætt í knattspyrnu. Hún hefur ekkert æft með KR og á þjálfari liðsins ekki von á að hún verði með í sumar.
SVO virðist sem markadrottningin Olga Færseth, leikmaður KR, sé hætt í knattspyrnu. Hún hefur ekkert æft með KR og á þjálfari liðsins ekki von á að hún verði með í sumar. Olga var fyrirliði KR í fyrrasumar og gerði þá 16 mörk í deildinni og er langmarkahæst þeirra sem leikið hafa í efstu deild, hefur skorað 265 mörk í 202 deildarleikjum.

„Olga hefur ekki sagt mikið um hvort hún verði áfram, auðvitað heldur maður í vonina um að hún komi inn en ég get ekki byggt liðið á því núna. Hún hefur ekkert æft með okkur og ég reikna ekki með henni í sumar, en vona auðvitað að hún mæti til leiks. Það tók tíma að láta liðið ná saman eftir að hún hætti – því hún er leiðtogi og lék frábærlega í fyrra,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þjálfari KR, í samtali við Morgunblaðið.

265 mörk í 202 leikjum

Olga er langamarkahæst kvenna í efstu deild hér á landi og eitthvað er í að einhver slái met hennar. Hún hefur skorað 265 mörk í þeim 202 leikjum sem hún hefur spilað í efstu deild. Næstu tvær á listanum eru báðar hættar að spila en þær Ásta B. Gunnlaugsdóttir og Helena Ólafsdóttir, núverandi þjálfari KR, gerðu 154 mörk hvor um sig í efstu deild. Í fjórða sæti kemur síðan Íþróttamaður ársins 2007, Margrét Lára Viðarsdóttir, með 143 mörk. Hún er enn á fullri ferð en vantar 122 mörk til að jafna við Olgu.

Hún hóf ferilinn í Keflavík, en hún er þaðan, fór síðan til Breiðabliks, eitt ár lék hún með ÍBV og síðustu árin var hún í herbúðum KR.

Skoraði í sínum fyrsta A-landsleik

Olga, sem verður 33 ára í haust, lék sinn fyrsta A-landsleik í knattspyrnu árið 1994 og þann síðasta árið 2006. Fyrsti A-landsleikur hennar var gegn Hollendingum í forkeppni Evrópukeppninnar 1995 og hún gerði eina mark þess leiks sem vannst 1:0. Síðasti landsleikur hennar var árið 2006 og einnig á móti Hollendingum. Holland vann 2:1 og náði Olga ekki að skora í þeim leik.

Hún gerði sín síðustu landsliðsmörk í landsleik við Ungverja í Ungverjalandi í lok maí 2004. Sá leikur var í undankeppni Evrópumótsins 2005 og gerði Olga þrjú mörk í 5:0 sigri Íslands.

Hún lék alls 54 A-landsleiki og skoraði í þeim 14 mörk. Landsleikirnir í knattspyrnu eru orðnir 72 talsins með leikjum með U17 ára landsliðinu og U21 árs landsliðinu. Landsliðsmörkin eru orðin 23, 14 fyrir A-landsliðið, 3 í 9 leikjum með U17 ára og 6 í níu leikjum með U17 ára landsliðinu.

Olga á einnig landsleiki í körfuknattleik því á árunum 1991 til 1993 lék hún 16 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Olgu síðustu daga.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.