— 24stundir/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hambjalla fannst í fyrsta skipti á Íslandi árið 1974 í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar. Ástæðan fyrir því að hambjallan lifir í híbýlum okkar er einfaldlega að þar er hún við kjöraðstæður með nægan mat, hita og gott skjól. Tjón af völdum hambjöllunnar er sáralítið.

Hambjalla er af ættbálki (Coeoptera) bjallna sem telur vel yfir 300.000 tegundir í heiminum. Hún er svartbrún með gulleitan blett á hvorum skjaldvæng og er 3-4 mm að lengd. Meðan hambjallan er á lirfustigi skiptir hún 5-7 sinnum um ham. Hamurinn er gulleitur og líkist hrúðri og skilur lirfan hann eftir þar sem hún er. Hún verpir tiltölulega fáum eggjum sem úr skríða litlar, hárugar, gulbrúnar lirfur sem nærast á dýra- og skordýraleifum.

Það tekur lirfurnar um 5-6 mánuði að ná þroska til að púpa sig. Lirfurnar nærast nær eingöngu á dýraleifum og oftast skordýraleifum. Þær geta verið án fæðu langtímum saman. Mörgum finnst hambjallan hvimleiður gestur og er þá eina ráðið að fá meindýraeyði til að úða. Mjög gott er að úða aftur eftir þrjá mánuði til að vera alveg viss um að bjallan drepist.

Gífurlega fjölgun og útbreiðslu hambjöllu má án efa rekja til þess að hún fjölgar sér með meyfæðingu. Karldýr hafa aldrei fundist. Talið er að um 230 tegundir í þessum ættbálki séu hér á landi. Nokkrar undirtegundir eins og Flexbjalla greinast oftar og oftar.

Heitið hambjalla er tilkomið af því að tegundin fannst fyrst í fuglshömum en hamskipti eru þó nokkuð sérstök fyrir tegundina. Stundum má sjá í t.d. gluggakistum gulleita hami af bjöllunni á lirfustiginu.

Það þarf að úða fyrir henni og er eina efnið sem dugar á hana efni sem meindýraeyðar einir hafa yfir að ráða. Það er langvirkt efni sem er vatnsþynnanlegt. Efnismagn ræðst af rúmmetrastærð herbergisins.

Hambjalla er útbreidd um allan heim. Hún veldur yfirleitt litlum skaða nema þá í náttúrugripasöfnum og einstaka uppstoppuðum dýrum í einkaeign.

Hvaða undirbúning þarf ef fólk þarf að láta úða hjá sér:

Þrífa þarf meðfram öllum gólflistum. Setja barnaleikföng í svartan plastpoka og binda fyrir.

Taka allt úr neðstu skápum í innréttingum.

Breiða yfir fiska- og fuglabúr.

Ekki þarf að færa húsgögn frá veggjum.

Hvað á að gera eftir að búið er að úða:

Ef allir eru frískir, þ.e. ekki með asma eða öndunarerfiðleika, er í lagi að fara inn í rými eftir 4 klst.

Ófrískar konur, lítil börn og gæludýr geta farið inn í rými eftir 8 klst.

Best er að þrífa eftir úðun með þurrmoppu eða ryksuga. Ef þrifið er með blautu skal skilja eftir u.þ.b 10 sm frá vegg í 3-4 vikur.

Það er mjög líklegt að fólk sjái eina og eina bjöllu næstu vikurnar en svo hverfur þessi ófögnuður alveg, sé rétt að úðun staðið.

Varnaðarorð:

Þegar fólk þarf að fá til sín meindýraeyði eða garðúðara þá skal alltaf óska eftir að fá að sjá starfskírteini útgefið af Umhverfisstofnun og eiturefnaleyfi gefið út af lögreglustjóra/sýslumanni og það mikilvægasta er að viðkomandi hafi starfsleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi. Athugaðu hvort öll skírteini séu í gildi. Félagar í Félagi Meindýraeyða eru með félagsskírteini á sér. Fáðu alltaf nótu vegna viðskiptanna.

Réttindi meindýraeyða og garðúðara frá erlendum ríkjum og félagasamtökum gilda ekki á Íslandi.

Lesendum 24 stunda er velkomið að senda fyrirspurn á netfangið: gudmunduroli@simnet.is

Heimildir: Upplýsingar og fróðleikur um meindýr og varnir 2004