Vesturbæingar Þeir Grétar S. Sigurðarson, Gunnar Örn Jónsson, Guðjón Baldvinsson og Viktor Bjarki Arnarsson eru allir komnir til liðs við KR, og einnig Jónas Guðni Sævarsson.
Vesturbæingar Þeir Grétar S. Sigurðarson, Gunnar Örn Jónsson, Guðjón Baldvinsson og Viktor Bjarki Arnarsson eru allir komnir til liðs við KR, og einnig Jónas Guðni Sævarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KR átti í miklum vandræðum í fyrra í Landsbankadeildinni og liðið bjargaði sér frá falli í lokaumferðinni undir stjórn Loga Ólafssonar sem tók við liðinu um mitt sumar af Teiti Þórðarsyni.

KR átti í miklum vandræðum í fyrra í Landsbankadeildinni og liðið bjargaði sér frá falli í lokaumferðinni undir stjórn Loga Ólafssonar sem tók við liðinu um mitt sumar af Teiti Þórðarsyni. Logi segir að væntingarnar séu alltaf miklar í Vesturbænum en þjálfarinn ætlar sér að vera í baráttunni með sitt lið um efstu sætin í deildinni. „Það eru töluverðar breytingar á okkar liði frá því í fyrra og við gerum okkur grein fyrir því að þetta lið þarf tíma til þess að ná betur saman. En á sama tíma tel ég að við séum það góðir að við getum blandað okkur í baráttuna um efstu sætin í deildinni,“ segir Logi.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

Í fyrra var mikið rætt um hve hægir og þungir leikmenn KR voru í leikjum liðsins og segir Logi að mikil áhersla hafi verið lögð á einstaklingsþjálfun á undirbúningstímabilinu. Logi „fann“ þýska styrktarþjálfarann Markus Kislich í Kaplakrikanum í Hafnarfirði eftir ábendingu.

„Eitt af markmiðunum sem við settum okkur sl. haust var að efla styrk og snerpu leikmanna. Við höfum lagt mikla áherslu á einstaklingsþjálfun og styrktaræfingar. Kislich hefur aðstoðað okkur við þá vinnu og miðað við niðurstöður úr síðustu mælingu eru menn að bæta sig um 8-15 cm í stökkkrafti eftir þessar æfingar. Við stefndum á það að verða snarpari og fljótari í okkar aðgerðum og mér finnst það hafa skilað sér. Það var veikleiki okkar í fyrra að menn virtust svifaseinir og ég lagði mikla áherslu á að breyta því í vetur.“ Að venju er stutt í spaugið hjá Loga og hann bendir á að þrátt fyrir aukin stökkkraft hafi KR ekki lagt upp með að gefa hærri sendingar fyrir markið en áður.

Logi hefur ekki látið leikmenn stunda útihlaup af miklum krafti en þess í stað leggur hann áherslu á að æfa þol leikmanna inni á knattspyrnuvellinum sjálfum. Leikaðferð liðsins verður 4:4:2, en KR lék 4:3:3 í fyrra. „Það mega allir vita að KR verður með 4:4:2 í sumar. Það er ekkert leyndarmál. Ég tel að sú leikaðferð henti okkur vel.“

KR fór í vel heppnaða æfingaferð til Tyrklands í vor og telur Logi að leikmenn liðsins séu staðráðnir í því að sýna hvað í þeim býr eftir slakan árangur í fyrra. „Það er margt sem við þurfum að laga í leik okkar í sumar. Á undirbúningstímabilinu hefur okkur gengið upp og ofan. Við höfum ekki látið það trufla okkur mikið og haldið okkar striki á æfingum. Það er mikil samkeppni um stöður í liðinu og fyrir þjálfara er það mjög góð staða. Í KR eru margir ungir og efnilegir leikmenn sem vilja fá tækifæri. Uppbyggingarstarfið er gott hjá félaginu og það er þegar farið að skila af sér leikmönnum í meistaraflokk.

Við erum með góða blöndu af ungum leikmönnum og eldri og reyndari. Liðið er yngra en í fyrra, snarpara og líkamlega sterkara.“

Framherjinn Grétar Ólafur Hjartarson er að ná sér eftir viðbeinsbrot sem hann varð fyrir í deildabikarkeppninni og er talið að hann verði klár í slaginn eftir 3-4 vikur. Varnarmaðurinn Pétur Hafliði Marteinsson hefur einnig glímt við meiðsli og er óvíst hvenær hann getur farið að æfa af krafti. Logi segir að stuðningsmenn KR vilji að sjálfsögðu að liðið skipi sér í fremstu röð. „Að mínu mati eru Valur, FH og ÍA með sterkustu liðin en við erum ekki langt þar á eftir. Ef við höldum áfram að bæta veikleika okkar og nýta styrkleika okkar sem liðs hef ég fulla trú á því að KR verði í baráttunni um efstu sætin í Landsbankadeildinni,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR.

Knattspyrnufélag Reykjavíkur

Stofnað: 1899.

Heimavöllur: KR-völlur, tekur 2.781 áhorfanda, þar af 1.541 í sæti.

Aðsetur félags: KR-heimilið, Frostaskjóli 2, 107 Reykjavík.

Sími: 510-5310.

Fax: 510-5308.

Netfang: knattspyrna@kr.is.

Heimasíða: www.kr.is.

Stuðningsmannasíða:

krreykjavik.is.

Yfirmaður knattspyrnumála: Rúnar Kristinsson.

Þjálfari: Logi Ólafsson.

Aðstoðarþjálfari: Sigursteinn Gíslason.

Liðsstjóri: Lúðvík Júlíus Jónsson.

Sjúkraþjálfari: Róbert Magnússon.

Formaður knattspyrnudeildar: Magnús Ingimundarson.

Formaður KR-Sport: Jónas Kristinsson.

Íslandsmeistari (24): 1912, 1919, 1926, 1927, 1928, 1929, 1931, 1932, 1934, 1941, 1948, 1949, 1950, 1952, 1955, 1959, 1961, 1963, 1965, 1968, 1999, 2000, 2002, 2003.

Bikarmeistari (10): 1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966, 1967, 1994, 1995, 1999.

Deildabikarmeistari (3): 1998, 2001, 2005.

Nýir leikmenn

Grétar S. Sigurðarson frá

Víkingi R.

Guðjón Baldvinsson frá Stjörnunni

Gunnar Örn Jónsson frá Breiðabliki

Jónas Guðni Sævarsson frá Keflavík

Skúli Jónsson frá Þrótti R.

*Var í láni hjá Þrótti R. 2007.

Viktor Bjarki Arnarsson frá Lilleström

Farnir leikmenn

Ágúst Þór Gylfason í Fjölni

Bjarnólfur Lárusson, hættur

Brynjar Orri Bjarnason í Víking R.

*Lánaður úr tímabilið.

Jóhann Þórhallsson í Fylki

Rúnar Kristinsson, hættur

Sigmundur Kristjánsson í Þrótt R.

Sigþór Júlíusson, hættur

Tryggvi S. Bjarnason í Stjörnuna

*Atli Jónasson er í láni hjá Haukum, Tómas Agnarsson hjá ÍR og Björn Ívar Björnsson hjá KV.

Hvað segir Helgi?

„KR-liðið er á allt öðrum hraða í ár ef miðað er við tímabilið í fyrra. Ég verð reyndar að koma því að að þeir náðu jafntefli gegn okkur, 1:1, í æfingaleik á dögunum þar sem mitt lið lék gríðarlega vel en ég held að stuðningsmenn KR geti búist við miklu af þeirra liði í sumar,“ segir Helgi Arnarson, þjálfari 1. deildar liðs Njarðvíkur.

„Ef ég miða leikmannahóp KR við þann hóp sem FH hefur yfir að ráða er það mitt mat að KR sé með breiðari leikmannahóp. Það á eftir að nýtast þeim vel en það sem vakti mesta athygli mína í leik okkar gegn KR var sá kraftur og leikgleði sem einkenndi liðið. Þeir virðast staðráðnir í því að sýna hvað í þeim býr eftir ömurlegt gengi á síðasta ári þar sem liðið bjargaði sér frá falli í lokaumferðinni. Þeir sem sáu KR í fyrra voru flestir á þeirri skoðun að liðið virkaði þungt og þreytt. “

Töluverðar breytingar hafa orðið á KR-liðinu í vetur. Ágúst Gylfason, Bjarnólfur Lárusson, Tryggvi Bjarnason, Sigþór Júlíusson, Rúnar Kristinsson og Jóhann Þórhallsson verða ekki með liðinu í sumar. Bjarnólfur, Rúnar og Sigþór eru allir hættir en Jóhann leikur með Fylki, Ágúst með Fjölni og Tryggvi með Stjörnunni í Garðabæ.

Helgi segir að sóknarleikur KR verði þeirra helsti styrkur. „Það er gríðarlegur fjöldi af skemmtilegum sóknarmönnum í þessu liði. Þar má nefna Viktor Bjarka Arnarsson, Björgólf Takefusa og Guðjón Baldvinsson og þeir eiga síðan Grétar Ólaf Hjartarson inni sem er enn að jafna sig eftir meiðsli. Miðjan er einnig mjög þétt. Jónas Guðni Sævarsson , sem kom til KR frá Keflavík, á eftir að nýtast liðinu vel. Jónas hefur í gegnum tíðina verið kallaður „Makelele“ Íslands og hann stendur alveg undir því nafni. Bindur miðjuna vel saman og er ótrúlega duglegur að loka svæðum og vinna boltann af andstæðingunum. Ég vona að „okkar“ maður Óskar Örn Hauksson fái mörg tækifæri með KR en hann er uppalinn hjá Njarðvík.“

KR er á réttri leið

Að mati Helga virðist KR-liðið á réttri leið miðað við síðasta tímabil en hann telur að helsti veikleiki KR-liðsins sé skortur á hraða í hjarta varnarinnar. „ Gunnlaugur Jónsson og Grétar Sigfinnur Sigurðarson eru báðir traustir varnarmenn en ég tel að þegar þeir eru saman í vörninni þá sé það helsti veikleiki þeirra að þá skortir hraða gegn eldfljótum sóknarmönnum. Í raun hefur KR glímt við þetta vandamál allt frá því að Kristján Örn Sigurðsson fór frá KR til Brann. Sóknarleikur KR verður ekki vandmálið hjá liðinu í sumar. Ég er á þeirri skoðun að þeir gætu lent í vandræðum í varnarleiknum.“

Helgi var ekki lengi að hugsa sig um þegar hann var spurður að því hvaða lið verður Íslandsmeistari í lok september. „Valur mun verja titilinn. Þeir eru með langheilsteyptasta liðið að mínu mati og verða meistarar aftur í ár,“ sagði Helgi Arnarson, þjálfari Njarðvíkinga.