Dauðasyndir Bráðfyndin og skemmtileg sýning með háalvarlegum tóni
Dauðasyndir Bráðfyndin og skemmtileg sýning með háalvarlegum tóni — Morgunblaðið/Valdís Thor
Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir og Harpa Arnardóttir. Leikstjóri: Rafael Bianciotto. Aðstoðarleikstjóri: Sólveig Guðmundsdóttir. Leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir og Rafael Bianciotto.

Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir og Harpa Arnardóttir. Leikstjóri: Rafael Bianciotto. Aðstoðarleikstjóri: Sólveig Guðmundsdóttir. Leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir og Rafael Bianciotto. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Tónlistarstjóri: Kristjana Stefánsdóttir. Hljóðmynd: Ólafur Örn Thoroddsen. Ljós: Halldór Örn Óskarsson. Sviðshreyfingar: Ariane Anthony og hópurinn. Fimmtudagskvöldið 8. maí 2008.

BORGARLEIKHÚSIÐ frumsýndi á fimmtudagskvöld Dauðasyndirnar sem byggir á verki Dantes, Divina Commedia . Hinn guðdómlegi gleðileikur er eitt af stórvirkjum heimsbókmenntanna. Þar er tekist á við stórar tilvistarspurningar og er verkið æði-flókið. Verk Dantes telst til svokallaðra leiðslubókmennta þar sem höfundur sjálfur ferðast um handanheima. Divina Commedia er eitt þekktasta verk heimsbókmenntanna af þessu tagi og er eins konar allegóría um líf mannsins. Í verkinu ferðast Dante í fylgd skáldsins Virgils frá helvíti til himna í gegnum hreinsunareldinn. Hér er brugðið upp hinni dæmigerðu heimsmynd kaþólskra miðalda sem var í senn ægileg og fögur. Dante er tilfinningalega „alveg í klessu“, eins og komist er að orði í sýningunni, í tilvistarkreppu og uppgefinn á lífinu. Látin ástvina hans, Beatrice, fær skáldið Virgil til að leiða Dante til „Paradiso“ í gegnum helvíti og hreinsunareldinn. Á þessari leið í gegnum níu heima mæta þeir félagar mörgum kunnuglegum andlitum og lenda í ýmsum háska enda leiðin torsótt. Dante þarf að horfast í augu við sjálfan sig og syndir sínar en með dyggri aðstoð Virgils nær hann á leiðarenda.

Textinn er unninn af leikhópnum og er allfrjálsleg túlkun á þessu verki Dantes án þess að það komi niður á meginhugmyndum verksins. Hér er hugvitsamlega staðið að verki. Sýningin er undirbúinn spuni og eru því engar tvær leiksýningar eins. Spunaleikhús lýtur sérstökum lögmálum en ætla má að leikarar fái fullkomið frelsi í vinnu sinni en það er ekki svo. Hlutverk leikstjórans, Rafaels Bianciottos, er að leggja leikurunum/trúðunum til reglur í spunanum sem áhorfendur verða lítið varir við, þó eru sumar útlistaðar í upphafi verksins. Til dæmis má gera mistök og þá skal taka þeim með brosi á vör. Það á að ekki að „hugsa“ heldur „vera“ sem er eins konar þema verksins og skilaboð til áhorfenda. Þessar reglur eru brotnar í gríð og erg enda eðli trúðsins að vera í nú–inu. Leikstjórinn er eins konar leiðsögumaður í gegnum spunann líkt og Virgill er leiðsögumaður Dantes og ferst honum það vel úr hendi.

Sagan er einfölduð og útskýrð af trúðunum Barböru, Úlfari, Zöru og Gjólu sem leiknir eru (í sömu röð) af Halldóru Geirharðsdóttur, Bergi Þór Ingólfssyni, Höllu Margréti Jóhannesdóttur og Hörpu Arnardóttur. Þau bregða sér í allra kvikinda líki og er leikur þeirra á þremur plönum, þ.e. leikari sem leikur trúð sem leikur persónu. Þetta virðist mjög flókið en þarna er greinilega fagfólk á ferð svo unun er á að horfa. Þótt verk Dantes sé skrifað á miðöldum (um aldamótin 1300) er sagan klassískt ferðalag manns í leit að sjálfum sér. Leikhópurinn blandar skemmtilega saman miðaldabókmenntum, endurreisn og nútíma svo áhorfendur geta auðveldlega tengt efni verksins við daginn í dag. Trúðahlutverkið liggur misvel fyrir leikurunum. Halldóra og Bergur Þór hafa lært sérstaklega og tileinkað sér trúðinn hjá meistara sínum í trúðafræðum, Mario Gonzales. Það er óhætt að segja að Halldóra Geirharðsdóttir sé fremst meðal jafninga í þessari sýningu. Halldóra hefur gífurlegt vald á persónusköpun og tilfinningu fyrir kómík. Bergur Þór er mjög skemmtilegur sem Dante og spilar á allan tilfinningaskalann, bregður sér í og úr hlutverkum án vandkvæða. Harpa Arnardóttir er reyndur spunaleikari og er sviðsframkoma hennar sjarmerandi og hún á auðvelt með að hrífa salinn með sér með litlum innskotum til áhorfenda og brosi sem fyllir út í rýmið. Halla Margrét skilaði sínu hlutverki með miklum sóma, með fallegum sviðshreyfingum, en átti ekki eins auðvelt með skiptingar milli persóna verksins. Öll hafa þau mikið vald á raddbeitingu og var söngur þeirra og tónlist skemmtilegur hluti sýningarinnar. Leikur þeirra við áhorfendur er mikilvægur þáttur án þess að vera uppáþrengjandi.

Umgerð sýningarinnar er einföld, engu ofaukið, ekkert vannýtt. Svartir og hvítir búningarnir voru tímalausir og virtust ekki hamla leikurum á neinn hátt. Ljós og hljóð áttu gott samspil við leikara enda er rétt tímasetning gríðarlega mikilvæg í kómík sem þessari.

Sýningin er bráðfyndin og skemmtileg en með háalvarlegum tóni. Ég er ekki frá því að eftir sýningu hugsi maður meira um nú–ið. Svo er það hverjum í sjálfsvald sett hvort þeir séu þar eða ekki.

Ingibjörg Þórisdóttir