Einviður Hluti af innsetningunni Skel, 2008, eftir Guðjón Ketilsson.
Einviður Hluti af innsetningunni Skel, 2008, eftir Guðjón Ketilsson.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

„Mig hefur lengi langað að tefla saman þeim fáu sem eru að vinna með tré í íslenskri nútímalist, en það er tiltölulega sjaldgæft,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, en hann er sýningarstjóri sýningar Listasafns Reykjanesbæjar á Listahátíð. Hann kallar sýninguna Þrívið; orðaleikurinn bendir á þrjá listamenn, og þeir eru Guðjón Ketilsson, Hannes Lárusson og Helgi Hjaltalín. „Þessir þrír standa einna fremst í þessum flokki. Þeir fengu frítt spil og unnu verkin sérstaklega fyrir salinn í Reykjanesbæ. Út úr því komu þrjár innsetningar, að mestu leyti úr tré eins og til stóð, en fleiri efni koma við sögu, eins og gifs, og Hannes er með vídeó tengt sínu verki.“

Veldi minninganna sameinar

Listamennirnir þrír eru afar ólíkir, og virðast í fyrstu eiga fátt annað sameiginlegt en það að nýta við í verk sín. Aðalsteinn segir að verk þeirra kallist þó á gegnum minni og minningar. „Þar var alveg óvart, að veldi minninganna varð einhvers konar sameiginlegt inntak í verkunum þremur.“

Aðalsteinn kveðst hafa brugðið á það ráð í upphafi að efna til samtals við listamennina þrjá um afstöðu þeirra til trjáviðarins, hvernig þeir tengja hann við hefðina og þær margháttuðu ástæður sem eru fyrir því að þeir nota hann. „Þeir eru skemmtilega ólíkir, en verkin kallast engu að síður á.“

Spurður hvers vegna fleiri listamenn nýti sér ekki við en raun ber vitni segir Aðalsteinn ástæðurnar geta verið ýmsar. „Að hluta til er fortíðin óárennileg fyrir listamenn. Tengslin við gamlan tréskurð, þjóðlegheit og handverk eru ennþá of sterk þegar tréð er annars vegar, og það fælir ýmsa frá því. En það þarf líka töluverða handverkskunnáttu og í dag er leitun að slíkri menntun. Fyrir þrívíddarlistamenn er þetta þó eitt ódýrasta efni sem hægt er að ná í.“

En hvaða tengsl hefur þessi kynslóð listamanna við eldri kynslóðir? Sigurjón Ólafsson er eflaust þekktastur þeirra gengnu listamanna sem unnu verk í tré. „Sigurjón er sennilega sá seinasti af útlærðum listamönnum sem notar tré á skapandi hátt. En sjónvinkill hans er ólíkur. Hann nálgast viðinn frá frumþjóðalist og blætishugmyndum. Þessir strákar eru í allt öðru, eru börn síns tíma, börn konsept-listarinnar.“

Listasafnið í Duus-húsum

Aðalsteinn segist gjarnan myndu vilja setja upp aðra sýningu út frá svipaðri hugmynd, með verkum þeirra listamanna sem vinna í þráð, en hún bíður síns tíma.

Listasafn Reykjanessbæjar er til húsa í hinum sögufrægu Duus húsum við höfnina í Keflavík, en á árunum 1877 til 1954 var fiskvinnsla í húsunum. Sýningin Þríviður verður opnuð sunnudaginn 18. maí kl. 20.