Elsa Guðbjörg Vilmundardóttir fæddist 27. nóvember 1932 í Vestmannaeyjum. Hún lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 23. apríl sl. Útför Elsu fór fram frá Áskirkju 7. maí sl.

Það vill oft gleymast að ávinningar okkar Íslendinga í orkuvinnslu ur fallvötnum og jörð hefur ekki komið af sjálfu sér heldur byggjast á öflugum grunnrannsóknum á jarðfræði landsins og náttúrufari. Þessar rannsóknir hafa orðið til annars vegar vegna framsýni þeirra sem hafa farið með stjórn orkumála og ekki síst hefur þar vegið þungt brautryðjendastarf og frumkvæði einstaklinga, sem hafa sjálfir skilgreint viðfangsefnin, mótað aðferðir og síðan lagt lífsstarf sitt, og vel það, í að kortleggja og greina náttúruna. Elsa G. Vilmundardótttir jarðfræðingur, sem við kveðjum nú, er verðugur fulltrúi þessarar kynslóðar íslenskra vísindamanna. Hún lagði stund á nám við Stokkhólmsháskóla á árunum 1958–1963 og var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka háskólanámi í jarðfræði. Ferill hennar eftir nám er samofinn starfsemi Orkustofnunar og forvera hennar, Raforkumálaskrifstofunnar, þar sem hún hóf störf þegar á námsárunum. Mikilvægustu verkefni hennar tengdust undirbúningi Búrfellsvirkjunar og rannsóknum á vatnasviði Þjórsár. Hún skilaði merkri skýrslu um jarðfræði Tungnárhraunanna 1977 og í framhaldi af því hófst viðamesta verkefni hennar, sem var umsjón með samstarfsverkefni Orkustofnunar og Landsvirkjunar um gerð jarðfræðikorta af vatnasviði Þjórsár ofan Búrfells sem hófst 1980. Elsa gekk að því verki með sönnum eldmóði og að sögn samstarfsmanna runnu saman starf hennar og frítími við þetta starf. Sumarfrí með fjölskyldunni voru oft skipulögð á þssum slóðum til þess að afla nýrra gagna og að fylla í eyðurnar. Þótt Elsa væri komin á eftirlaunaaldur hélt hún áfram að sinna þessu verkefni og þegar kallið kom var hún mætt ásamt félögum sínum til þess að kynna nýjum orkumálastjóra niðurstöður verkefnis um kortlagningu móbergs á svæðinu. Stolt hennar og gleði yfir að þessum áfanga, sem greinilega var henni mjög hjartfólginn, væri náð leyndi sér ekki. Í frásögn hennar af starfinu kom glöggt í ljós hvernig þættust saman þrotlaust starf í mörkinni, nákvæmur undirbúningur við landmælingar á svæðinu og framfarir síðustu áratuga í kortagerð og tölvuvinnslu. Hér hafði mikið stórvirki verið unnið, sem auk þess að vera undirstaða að byggingu og rekstri orkuvera hefur aukið þekkingu og dýpkað skilning okkar á allri jarðsögu þessa svæðis.

Elsa sinnti töluvert félagsmálum og lagði mörgum góðum málum lið. Hún var óþreytandi í því að ráðleggja starfsfélögum sínum um heilbrigt líferni og margir þeirra leituðu líka til hennar og áttu við hana trúnaðarsamtöl um vandamál sín í lífi og starfi. Við á Orkustofnun sjáum nú á bak Elsu G. Vilmundardóttur, samferðakonu til margra ára en hún skilur eftir hjá okkur óbrotgjarnan bautastein, sem er framlag hennar til íslenskra jarðvísinda. Eiginmanni hennar og fjölskyldu vottum við okkar fyllstu samúð.

Guðni A. Jóhannesson.

Kveðja frá Íslenskum orkurannsóknum

Í dag kveðjum við Elsu Vilmundardóttur jarðfræðing, sem fyrst íslenskra kvenna lauk háskólaprófi í jarðfræði. Að loknu námi í Háskólanum í Stokkhólmi árið 1963 hóf hún störf hjá Raforkumálaskrifstofunni sem síðar varð Orkustofnun. Þar vann hún á vatnsorkudeild og síðar á rannsóknasviði við jarðfræðirannsóknir í tengslum við áform um vatnsaflsvirkjanir. Síðustu árin vann hún sem verktaki hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), sem yfirtóku starfsemi rannsóknasviðs Orkustofnunar árið 2003, skömmu eftir að Elsa fór á eftirlaun.

Í starfi sínu vann Elsa mest að jarðfræðikortlagningu, einkum kortlagningu hrauna og móbergsmyndana á sunnanverðu miðhálendinu og víðar. Var hún umsjónarmaður með samræmdri jarðfræðikortlagningu á öllu vatnasviði Þjórsár ofan Búrfells í mælikvarða 1:50 þúsund, en það var samvinnuverkefni milli Orkustofnunar og Landsvirkjunar. Liggja eftir hana og samstarfsmenn hennar fjölmörg jarðfræðikort af þessum slóðum. Þá vann hún m.a. tímamótarannsókn á útbreiðslu og gerð Tungnaárhrauna, tók þátt í gerð öskulagatímatals fyrir suðurhálendið og rannsóknum á fornu lónseti að Fjallabaki.

Elsa var virk í félagsmálum og sat í stjórnum fjölmargra félaga og samtaka. Hér skal aðeins nefnt að hún var meðal stofnenda Jarðfræðafélags Íslands og formaður þess í fjögur ár. Þá var hún formaður starfsmannafélags Orkustofnunar í tvö ár.

Elsa var góður starfsmaður og vinnufélagi og jarðfræðin var henni í senn áhugamál og lífsviðurværi. Undanfarin ár hafði hún unnið að útgáfu skýrslu um rannsóknir sínar á móbergsmyndunum í eystra gosbeltinu og var einmitt að kynna verkefnið á fundi með samstarfsfólki frá Orkustofnun og ÍSOR þegar hún veiktist skyndilega og lést fáum klukkustundum síðar.

Fyrir hönd Íslenskra orkurannsókna og samstarfsfólks hennar þar þakka ég ánægjulegt samstarf og árangursríkt starf Elsu í áratugi í þágu íslenskra jarðfræði- og orkurannsókna. Eiginmanni hennar, Pálma Lárussyni, börnum þeirra og öðrum aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR.

„Við erum lagðar af stað einu sinni enn,“ var Elsa vön að segja þegar farangurinn var kominn í jeppann og stefnan tekin til fjalla. Kjörlendi Elsu var einkum svæðið suðvestan Vatnajökuls, vegalaust að mestu, hraunbreiður, vikrar, gígar og móbergsfjöll. Á þessu torfæra svæði vann Elsa stærstan hluta rannsókna sinna, þetta var hennar svæði.

Ferill Elsu í jarðvísindum var langur og farsæll. Jarðfræðikortin sem unnin voru undir hennar stjórn voru þau nákvæmustu sem gerð höfðu verið í þeim kvarða. Rannsóknir hennar og samstarfsmanna á móbergsmynduninni á Eystra gosbeltinu eru brautryðjendaverk sem verða grundvöllur annarra rannsókna þar um langa framtíð. Annað brautryðjendaverk var kortlagning Tungnaárhrauna, ásamt mati á útbreiðslu og stærðum samkvæmt tiltækum gögnum, þar á meðal aragrúa borhola. Elsa lagði gjörva hönd á fleiri rannsóknir en aðrir munu gera störfum hennar betri skil en ég get gert.

Kynni okkar hófust þegar ég var að rannsaka yngstu eldgosin á upptakasvæði Tungnaárhraunanna haustið 1976. Þekking Elsu og leiðsögn á þessum slóðum var ómetanlegur stuðningur í öllum skilningi. Þegar jarðfræðikortlagningin komst á skrið hófst samvinna sem stóð í allmörg sumur við að gera tímatal fyrir eldgosin á þessu svæði. Snorri Páll Snorrason og Ingibjörg Kaldal kortlögðu með henni móbergið og lausu jarðlögin og fleiri lögðu hönd á plóg. Þetta voru góð sumur.

Slóðirnar eru löngu horfnar í vikurinn en ferðirnar með Elsu, starfsglaðri og kátri, eru ljóslifandi í huganum. Hver dagur var ævintýri út af fyrir sig. Leiðirnar lágu stundum um tröllalandslag eins og Heljargjá norðan Gjáfjalla, stundum um furðusléttur þar sem flóð höfðu skilið eftir stórgrýti, þeirra aðfaraleiðir líka löngu horfnar. Við grófum niður á hraunin til að tímasetja þau, mældum, skráðum og færðum inn á kort og loftmyndir. Löngum degi lauk svo með náttverði. Svefnstaðirnir voru skálar, vinnubúðir og jafnvel smáhýsi yfir borholumælum eða bara bíllinn. Einhvern tímann höfðum við hreiðrað um okkur í smáhýsi við borholu JV-3 við Tröllahraun og ætluðum að sjóða okkur hangikjöt í kvöldmat. Upp úr miðnætti gáfumst við upp á að bíða þess að kjötið syði, grófum pottinn í vikur og höfðum hangikjöt í morgunmat næsta dag. Við gjörnýttum dagana því okkur var skammtaður tíminn úti í mörkinni og skoluðum gjarnan af okkur rykið í læk eða vatnsbóli áður en við drifum okkur í bæinn. Einhverju sinni lagði Elsa óvenju mikið í þvottinn fyrir heimferðina, dró svo upp ljósa buxnadragt, hvíta blússu með blúndum og viðeigandi skó og klæddist en ég átti þá enga hreina flík. Og þannig ókum við í bæinn í það sinn, ég eins og flækingur og hún eins og drottning. Við hlógum víst alla leiðina heim.

Öllum er skammtaður tími úti í mörkinni og tími Elsu var styttri en nokkur átti von á. Pálmi, Guðrún Lára, Vilmundur og fjölskyldur, við Aðalsteinn samhryggjumst ykkur innilega. Ingrid Olsson sendir ykkur samúðarkveðjur sínar. Að leiðarlokum þakka ég Elsu samfylgdina um byggðir og óbyggðir og leiðsögnina yfir torfærurnar.

Guðrún Þorgerður.

Elsa G. Vilmundardóttir-14

Elsa Vilmundardóttir er fallin frá, langt um aldur fram. Það kann að virðast undarlegt að segja um 75 ára einstakling, en Elsa var alla tíð, fram á síðustu stundu, einstaklega lifandi. Áhuginn, eljan og jákvæðnin geisluðu frá henni.

Kynni okkar Elsu hófust þegar ég réðst til sumarstarfs á Orkustofnun árið 1970. Fyrst í stað voru þau kynni mest af afspurn, og hvílík afspurn. Við nokkrir jarðfræðinemar unnum á Tungnaársvæðinu m.a. við að greina kjarna úr borholum. Elsa, sem þá var að vinna að jarðfræðikortlagningu á Austurlandi, hafði greint í sundur og rakið Tungnaárhraunin, sem eru hvert öðru lík, en þó með greinanlegum mun. Flestir sem þarna voru höfðu haft meiri kynni af Elsu en ég og töluðu allir sem einn af mikilli virðingu um hana. Seinna fór Elsa út í það að greina móbergsmyndanir í sundur í einstök gos og beitti við það einstökum hæfileikum sínum sem fólust m.a. í því að muna einkenni ótal eininga og geta borið þau saman þótt það sem saman var borið væri langt í burtu bæði í tíma og rúmi.

Seinna kynntumst við betur og þá ekki sízt vegna þess að hún og Inga konan mín unnu mikið saman. Ég vann nokkrum sinnum með henni á fjöllum og kynntist þá í návígi atorku hennar og frjóum hug. Við þurftum að vaða jökuláraura þar sem var mikil sandbleyta. Bæði höfðum við vaðskó og Elsa benti mér á að vera í síðum ullarbrókum, vaðbrókum. Sandbleytan veldur því að erfitt er að halda jafnvægi og getur reynzt hættuleg. Við fundum út og göntuðumst með að bezt var að hafa vaðnaut, þ.e. að haldast í hendur.

Oft var eins og Elsa væri að æfa sig undir ömmuhlutverkið á börnunum okkar Ingu. Hún var einstaklega barngóð og sýndi börnum endalausa þolinmæði. Eitt sinn fór ég í frí með þeim Elsu og Ingu inn á hálendið og tók börnin okkar með. Það var auðvelt fyrir þau að vefja henni um fingur sér og fá hana með í leiki í „stóra sandkassanum“. Ég sé hana fyrir mér hlaupandi með þau öll niður bratta sandbrekku, aftur og aftur, – og „einu sinni enn“ eins og barna er siður.

Rætur Elsu lágu í sveitum Suðurlands og hún var alltaf sveitakona í sér. Þegar hún fór á eftirlaun fluttu þau Pálmi fljótlega að Kaldrananesi í Mýrdal og gerðu að glæsilegu sveitasetri sínu. Íbúðarhúsið hafði staðið rafmagnslaust og óhitað í sjö ár þegar þau skoðuðu það við lýsingu frá vasaljósi einu saman. Það var enginn vafi í þeirra huga, þarna vildu þau búa, enda útsýnið og umhverfið allt stórbrotið. Samrýndari hjón eru vandfundin og það var ánægjulegt að fylgjast með hvernig hugmyndir þeirra og draumar þróuðust og urðu að veruleika. Við Inga komum oft í Kaldrananes bæði tvö ein og í hópi góðra vina og nutum gestrisni þeirra. Minnumst við margra góðra stunda, eins og eitt sinn er við áttum leið og fengum ekki að halda áfram í bæinn fyrr en við værum búin að snæða með þeim dýrindis máltíð úti á hlaði í rjómalogni, við kertaljós og kvöldroða.

Ég sendi Pálma og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Skúli Víkingsson.

Elsa Vilmundardóttir var kona sem hafði gaman að lifa og lét dagana ekki líða ónotaða hjá. Hvar sem hún kom að varð hún mikil driffjöður í að láta hlutina ganga og draumana verða að veruleika. Glaðsinna og róleg gekk hún að viðfangsefnum sínum. Mannamót og skemmtan voru henni að skapi. Ég kynntist Elsu á mínum fyrsta vinnudegi á Orkustofnun fyrir 38 árum þegar ég hafði lokið fyrsta ári í jarðfræði. Mér var tjáð að ég skyldi aðstoða hana ásamt tveimur öðrum við jarðfræðikortlagningu á virkjunarsvæði Jökulsár í Fljótsdal. Elsa var þá 37 ára og átti tvö börn tveggja og fimm ára. Hún leysti gæslumálin með því að taka þau með sér austur ásamt ungri barnapíu sem hún réð. Þegar austur kom var þegar hafist handa og 600 m háar hlíðar dalsins gengnar upp og niður vikum saman. Síðan var farið inn á Eyjabakka. Engar bílaslóðir voru þar á þeim tíma. Elsa varð sér úti um hesta og lagði á fjöll með trússhestalest. Smávandamál urðu ekki til fyrirstöðu þegar hún átti í hlut og það var oft ævintýrablær á andrúmsloftinu þegar hún réð ferð. Minningin um þetta fyrsta sumar mitt í vinnu með Elsu er ánægjuleg þótt úthaldið væri tveir og hálfur mánuður í einni lotu.

Segja má að kortlagning berglagastaflans í Fljótsdal hafi verið jarðfræðilegt hliðarspor hjá Elsu. Móbergsmyndanir voru hennar sérgrein og liggur mest vinna eftir hana á því sviði. Hún stundaði enn rannsóknir þegar hún lést og átti ýmsu ólokið þannig að þar hvarf öflugur liðsmaður í miðjum leik.

Snorri Zóphóníasson.

Kveðja frá Kópavogsdeild Rauða krossins

Elsa sat í stjórn Kópavogsdeildar Rauða krossins á umbrotatímum. Hún átti þátt í þeirri ákvörðun stjórnar 2002 að gerbreyta áherslum í starfinu og efla verulega sjálfboðið starf í þágu samfélagsins í Kópavogi. Fáir glöddust meira en hún þegar árangurinn fór að koma í ljós, hún beinlínis geislaði og smitaði okkur hin í einlægri gleði sinni.

Auk stjórnarsetunnar tók Elsa virkan þátt í fataflokkunarverkefni deildanna á höfuðborgarsvæðinu, var fjöldahjálparstjóri, sat í neyðarnefnd deildarinnar og var mikill áhugamaður um neyðarvarnir. Við í Kópavogi nutum krafta hennar í þessum verkefnum til 2004 en þá fluttu þau Pálmi búferlum austur í Mýrdal.

Þar misstum við góðan liðsmann en hugguðum okkur við að félagar okkar í Víkurdeild myndu njóta góðs af því ekki hvarflaði að Elsu að láta staðar numið í Rauða kross-starfinu. Sú varð enda raunin að hún einhenti sér í starfið fyrir austan og lét þar að sér kveða síðan. Jarðfræðingurinn og fjöldahjálparstjórinn naut sín vel á Kötluslóðum en Elsa tók einnig drjúgan þátt í uppbyggingu heimsóknaþjónustu Víkurdeildar.

Við minnumst Elsu með virðingu, aðdáun og þakklæti fyrir vel unnin störf og ánægjuleg kynni. Pálma og öðrum aðstandendum vottum við innilega samúð okkar.

F.h. Kópavogsdeildar Rauða krossins,

Garðar H. Guðjónsson,

formaður.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Það var í júní árið 1975 að nokkrar hressar og kátar konur stofnuðu Soroptimistaklúbbs Kópavogs. Ein af þessum kjarnakonum var Elsa Vilmundardóttir, sem við kveðjum hér í dag.

Elsa hefur verið fjarri starfi klúbbsins um nokkurt skeið en tengslin héldust og hún var mikil og kær vinkona margra klúbbsystra okkar. Undanfarið var hún í miklum samskiptum vegna vorferðar okkar þann 17. maí næstkomandi, þar sem hún ætlaði að vera gestgjafi okkar í Mýrdalnum, sælureit þeirra hjóna hennar og Pálma.

Mikil tilhlökkun var hjá okkur öllum að fara í þessa heimsókn en eins og oft áður áætla mennirnir en Guð ræður. Elsa kvaddi okkur á síðasta vetrardag og við fengum fregnir af andláti hennar um leið og sumarið heilsaði.

Minningar um þessar mætu konu eru margar og ljúfar og við í Soroptimistklúbbi Kópavogs munum allar geyma þær í hjörtum okkar um leið og við vottum Pálma og fjölskyldunni okkar innilegustu samúð.

Fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Kópavogs,

Þóra Guðnadóttir formaður.

Kveðja frá vinum í Heilsuhringnum

Vinkona okkar Elsa Vilmundardóttir jarðfræðingur er látin langt um aldur fram. Fráfall hennar bar skjótt að og er hún mörgum harmdauði. Elsa var einkar vel gerð kona, hún hafði fágaða og glæsilega framkomu svo af bar og var oft kölluð til þegar Heilsuhringurinn þurfti talsmann út á við, hvort sem var í sjónvarpi eða útvarpi. Elsa skrifaði margar greinar í dagblöð málstað okkar til framdráttar. Hún var ein af stofnendum Heilsuhringsins og varaformaður félagsins í sextán ár frá 1982 til 1998. Alltaf var hún fús að leggja sitt af mörkum og stjórnaði iðulega fundum félagsins. Hin góða íslenskukunnátta hennar kom sér vel við prófarkalestur blaðsins, sem hún leysti af hendi með miklum sóma eins og allt sem hún tók að sér.

Hún var mjög áhugasöm um flest sem til heilla gat horft og þó að hún væri vísindamaður í fremstu röð hafði hún einnig lifandi áhuga á andlegum málum.

Nú er þessi mæta kona horfin og við minnumst góðs félaga með virðingu og þökk fyrir þau fjölmörgu störf sem hún tók að sér í þágu Heilsuhringsins.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Fyrir hönd vina í Heilsuhringnum,

Sigrún, Ingibjörg og Ævar.

Ein þeirra manneskja sem hafa auðgað og bætt líf mitt hefur nú kvatt. Ég kynntist Elsu er við unnum saman á Orkustofnun fyrir rúmlega 25 árum. Ég þá rétt um tvítugt og komin til að vinna á skrifstofu stofnunarinnar og hún þá orðin ráðsettur jarðfræðingur. Þannig hagaði til að við vorum báðar kosnar í stjórn starfsmannafélagsins og markaði það samstarf upphaf að vináttu okkar. Hún hafði mikla trú á því sem ég hafði að segja og gera og hafa orð hennar fylgt mér.

Eftir að ég yfirgaf vinnustaðinn bauð Elsa mér að gerast meðlimur í Söfnuði heilagrar Barböru sem þá var aðeins fárra ára gamall. Það safnaðarstarf hefur einungis gefið mér gleði í gegnum árin og er það svo sannarlega Elsu minni að þakka. Einhverju sinni var Barbörublót haldið í sumarbústað sem þau hjón höfðu útvegað. Þau höfðu boðið mér gistingu og eftir að allir höfðu haldið heim á leið sátum við langt fram á nótt og spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar. Í þeim samræðum hafði Elsa mikið til málanna að leggja og allt sagt af svo mikilli yfirvegun og hógværð.

Eftir að hún hætti sinni „formlegu vinnu“ og flutti með Pálma sínum í sveitina mátti svo sannarlega sjá á þeim breytingum sem þau höfðu gert á íbúðarhúsinu að mikil starfsorka var eftir hjá þeim. Síðustu ár hef ég farið árlega að heimsækja þau hjón ásamt Helgu og Áslaugu dóttur hennar. Þá hefur verið farið með mann um nágrennið og okkur sýndar náttúruperlur Mýrdalsins. Ekki var síður gert vel við mann í mat og drykk og alltaf var setið fram á rauða nótt og spjallað og oft farið á „trúnó“. Hjá þeim hjónum í Kaldrananesi ríkti aðeins ást og hlýja.

Að hafa átt svona stundir og samleið með svo yndislegri konu sem Elsu veitir birtu og þakklæti í hjarta mitt núna þegar hennar nýtur ekki lengur við.

Elsku Pálmi, Guðrún, Villi og fjölskyldur, við Ágúst sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Ykkar vinkona,

Ólöf Þorsteinsdóttir.

Þegar Pálmi mágur minn hringdi til að segja mér sorgarfréttina af andláti kærrar eiginkonu sinnar, Elsu, þá dró skugga fyrir í hjarta mínu. Elsa var kletturinn í tilveru minni í nokkur ár, hún stóð við hlið mér, samgladdist og studdi á góðum og erfiðum tíma lífsins. Við töluðum saman í síma, helst í hverri viku, þegar við náðum ekki að hittast eftir að þau Pálmi fluttu í Kaldrananes. Hún var sú trygglynda, skilningsríka og trausta kona sem gott var að vera nærri og þekkja. Við Erlendur mágur hennar áttum saman fallegan og gefandi tíma áður en hann veiktist og lést og alltaf var Elsa sú trausta og góða kona sem ég þráði að leita til og átti að vinkonu. Hún var alltaf til staðar og þegar hún og Pálmi tóku á móti mér í fjölskylduna, þau umvöfðu þau mig kærleik og hlýju þegar við Erlendur rugluðum saman reitum okkar og síðar þegar hann veiktist og lést þá voru hún og Pálmi mér við hlið við allar aðstæður, ég vil þakka fyrir allan þann kærleik. Elsa var ljúf, umburðarlynd og heillandi kona sem alltaf var hægt að treysta sama hvert tilefnið var. Elsa og Pálmi áttu fallegt hjónaband sem einkenndist af virðingu, vináttu og væntumþykju sem allir gátu fundið og upplifað sem kynntust þeim, þau voru Elsa og Pálmi, „eitt“ í mínum huga. Elsku Pálmi mágur, missir þinn er mikill, minningin falleg og hlý um elskulega eiginkonu, samúð mín er hjá þér.

Með þökk og virðingu kveð ég mína elskulegu svilkonu sem var svo mikils virði að „eiga að“.

Mín kæra, farðu í friði og þakka þér fyrir allt og allt.

Guð geymi minningu Elsu Guðbjargar Vilmundardóttur.

Anna Sigurðardóttir.