Fangelsismál á Íslandi þarfnast skoðunar. Í samtali við Margréti Frímannsdóttur, forstöðumann fangelsisins á Litla-Hrauni, í Sjónvarpi mbl.is á föstudag kveðst hún vona að hafist verði handa við nýbyggingar við fangelsið á næsta ári.
Fangelsismál á Íslandi þarfnast skoðunar. Í samtali við Margréti Frímannsdóttur, forstöðumann fangelsisins á Litla-Hrauni, í Sjónvarpi mbl.is á föstudag kveðst hún vona að hafist verði handa við nýbyggingar við fangelsið á næsta ári. Hún segir að knýjandi þörf sé á úrbótum í fangelsismálum. Á annað hundrað manns, sem hlotið hafa refsidóma hér á landi, bíða eftir að hefja afplánun í fangelsum og segir Margrét að engum sé greiði gerður með því að þurfa að bíða afplánunar í langan tíma eftir að dómur er fallinn.

Í frétt sem birtist um málið í Morgunblaðinu í gær kemur fram að fyrir mánuði hafi 170 brotamenn beðið fangavistar vegna plássleysis, en nú séu þeir 142. Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að leitað sé leiða til að fækka enn frekar á listanum. Hann svarar því ekki hversu lengi menn séu á biðlista áður en afplánun hefjist, en lögð sé áhersla á að þeir einstaklingar, sem taldir séu hættulegir umhverfi sínu, séu boðaðir strax til afplánunar. Jafnframt kemur fram hjá honum að hugsanlega geti helmingur þeirra, sem nú bíður afplánunar í fangelsi, sinnt samfélagsþjónustu í stað þess að sitja dóminn af sér í fangelsi. Í fyrra hafi 73 brotamenn hafið samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.

Það er vitaskuld gott að reynt sé að tryggja það að einstaklingar, sem taldir eru hættulegir samfélaginu, skuli ekki ganga lausir, en það má ekki gleyma því að menn glata ekki tilkalli sínu til mannréttinda þótt þeir hafi verið dæmdir í fangelsi. Það er önnur hlið á biðlistum í fangelsum. Einstaklingar, sem ekki geta hafið afplánun dóms vegna þess að þeir eru á biðlista, þurfa í raun og veru að búa við það að refsing þeirra hafi verið lengd án dóms og laga. Líf einstaklings, sem er dæmdur í fangelsi, er í raun sett í bið þangað til refsingin hefur verið afplánuð. Ef bið verður á því að refsingin hefjist líður lengri tími en ella þar til viðkomandi einstaklingur getur farið út í þjóðfélagið aftur og hafist handa við það að byggja upp líf sitt að nýju. Þetta veldur aukinni óvissu í lífi þessa fólks og fjölskyldna þeirra. Biðlistar í fangelsi jafngilda í raun þyngingu refsingar og slíkt er ekki hægt að sætta sig við í réttarsamfélagi. Í máli Páls Winkels kemur fram að nú sé leitað leiða til að fækka á biðlistanum og skoða önnur afplánunarúrræði. Þetta mál þolir ekki bið.

Margrét Frímannsdóttir lýsir í viðtalinu einnig yfir áhyggjum af því að geðsjúkir, sakhæfir afbrotamenn séu vistaðir í fangelsum. Þar eigi þeir að mati hennar, fangavarða og heilbrigðisstarfsmanna á Litla-Hrauni alls ekki heima. Hér er komið annað vandamál, sem taka verður á. Markmiðið er að afbrotamenn, sem dæmdir eru til refsingar, verði betri menn og fái aðstoð til að fóta sig í samfélaginu þegar afplánun er lokið. Einstaklingur, sem settur er í umhverfi þar sem hann á ekki heima og er honum jafnvel skaðlegt, mun ekki ná neinum framförum.

Margrét Frímannsdóttir hefur kynnt sér fangelsismál á Íslandi rækilega og talar af mikilli þekkingu um þennan málaflokk. Hennar orð verður að taka alvarlega.

Nú stendur yfir uppbygging í fangelsum landsins og þar er verið að skoða ýmsa kosti. Í þessari uppbyggingu verður að tryggja að fangar verði vistaðir með þeim hætti, sem hæfir, og sérstaklega er mikilvægt að hagsmunir veikra einstaklinga verði hafðir í huga. Sömuleiðis verður kerfið að vera með þeim hætti að það geti tekið við þeim, sem dæmdir eru í fangelsi án skilorðs. Biðlistar í fangelsi eru í raun ekkert annað réttarfarsbrot.