Leikur Í Sundlaug Kópavogs hefur meðal annars verið bætt við vaðlaugum, rennibrautum og leiktækjum og fer ekki á milli mála að unga fólkið kann vel að meta þá möguleika sem þessi nýju tæki bjóða upp á.
Leikur Í Sundlaug Kópavogs hefur meðal annars verið bætt við vaðlaugum, rennibrautum og leiktækjum og fer ekki á milli mála að unga fólkið kann vel að meta þá möguleika sem þessi nýju tæki bjóða upp á. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is FRÁ 2002 hefur átt sér stað mikil uppbygging íþróttamannvirkja í Kópavogi auk uppbyggingar annarrar aðstöðu fyrir menningu og tómstundir í bænum.
Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

FRÁ 2002 hefur átt sér stað mikil uppbygging íþróttamannvirkja í Kópavogi auk uppbyggingar annarrar aðstöðu fyrir menningu og tómstundir í bænum. Ennfremur er ýmislegt á döfinni í þessum, en í Kópavogi hafa um10 milljarðar króna verið eyrnamerktir í uppbyggingu íþróttamannvirkja frá 2002 til 2010.

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að bærinn vilji hafa eins góða íþróttaaðstöðu og hægt sé með bætta heilsu og forvarnir í huga.

Byrjunin í Versölum

Bæjarstjóri segir að þessi mikla uppbygging hafi hafist með byggingu sundlaugar og íþróttahúss í Versölum 2002 til 2005, en það hafi verið framkvæmd upp á um tvo milljarða króna á núvirði.

Í kjölfarið var ráðist í byggingu íþrótta- og tónleikahallarinnar Kórsins og var mannvirkið vígt í haust sem leið. Það kostaði um 1,6 milljarða.

Verið er að byggja tvöfalt íþróttahús við hliðina á Kórnum og segir Gunnar að gert sé ráð fyrir að það verði tilbúið um áramót, en kostnaður er áætlaður um 700 milljónir króna.

Við Kórinn verða auk þess þrír útifótboltavellir og þar af tveir upphitaðir. Þeir eiga að vera tilbúnir í sumar og kosta að minnsta kosti 200 milljónir króna.

Fyrstu helgina í maí var ungmennahúsið Molinn vígt og kostaði það um 200 milljónir króna, að sögn Gunnars.

Þá hafa sparkvellir verið settir upp við alla átta grunnskólana fyrir um 250 til 300 milljónir.

Annasöm helgi

Um helgina voru opnuð við hátíðlega athöfn ný sundlaugarmannvirki í Sundlaug Kópavogs við Borgarholtsbraut. Bætt var við tveimur innilaugum, 25 metra keppnislaug og 10 m kennslulaug, en sú síðarnefnda verður meðal annars notuð fyrir ungbarnasund. Ennfremur var bætt við heitum pottum, vaðlaugum og leiksvæði fyrir börn auk þess sem byggt var nýtt eimbað. Kostnaðurinn nam um einum milljarði.

Ný stúka við Kópavogsvöll var einnig vígð um helgina en auk stúkunnar voru gerðar ýmsar endurbætur við völlinn eins og bílastæði, stoðveggir og endurbætur á hlaupabrautum. Stúkan kostaði um 600 milljónir og annar kostnaður var um 300 milljónir. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á um 300 til 400 milljónir en Gunnar segir að breytingar hafi verið samþykktar á framkvæmdatímanum með tilheyrandi auknum kostnaði.

Fyrsta skóflustunga að íþróttahúsi fyrir HK í Fagralundi í Fossvogsdal var tekin á laugardag en framkvæmdum á að ljúka á næsta ári. Auk byggingu nýs íþróttahúss verður félagsaðstaða HK stækkuð og er gert ráð fyrir að heildarkostnaður verði um 600 milljónir.

Gunnar segir að auk þess liggi fyrir að byggja íþróttahús við Vatnsendaskóla. Byrjað verði á því í haust og ráðgert að ljúka framkvæmdum 2009 en kostnaður er áætlaður um 500 til 600 milljónir.

Til stendur að hefja framkvæmdir við reiðhöll á Kjóavöllum í ár og er stefnt að því að ljúka verkinu 2010 en áætlaður kostnaður er um 1,5 til 2 milljarðar.

Í hnotskurn
» Ný sundlaugarmannvirki voru tekin í notkun í Sundlaug Kópavogs við Borgarholtsbraut við hátíðlega athöfn í fyrradag.
» Ný áhorfendastúka við Kópavogsvöll var formlega opnuð sl. föstudag.
» Nýtt ungmennahús í Kópavogi, Molinn, var opnað á setningardegi Kópavogsdaga, menningarhátíðar í Kópavogi, laugardaginn 3. maí.
» Kórinn, nýja íþrótta- og tónleikahöllin við Vallakór í Vatnsendahverfi, var tekin í notkun í september sl.