Neytandinn Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra (t.h.) afhenti Dr. Gunna Íslensku neytendaverðlaunin.
Neytandinn Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra (t.h.) afhenti Dr. Gunna Íslensku neytendaverðlaunin. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is VIÐSKIPTARÁÐUNEYTIÐ á að verða öflugt neytendaráðuneyti að norrænni fyrirmynd, að sögn Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

VIÐSKIPTARÁÐUNEYTIÐ á að verða öflugt neytendaráðuneyti að norrænni fyrirmynd, að sögn Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Hann setti í gær ráðstefnu um neytendamál á Grand Hótel Reykjavík sem viðskiptaráðuneytið stóð fyrir. Þar voru m.a. kynntar þrjár nýjar skýrslur þriggja stofnana við Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar, Hagfræðistofnunar og Lagastofnunar, um neytendamál hér á landi. Einnig afhenti Björgvin í fyrsta sinn Íslensku neytendaverðlaunin.

Björgvin sagði í samtali við Morgunblaðið að skýrslurnar þrjár, sem gefnar hafa verið út í bókinni „Ný sókn í neytendamálum – staða neytenda á Íslandi“, séu fyrsta skrefið í nýrri sókn í neytendamálum. Í skýrslunum sé greinargott yfirlit um stöðu mála og þær verði lagðar til grundvallar áframhaldandi vinnu á þessu sviði. Hann sagði ljóst að margt mætti betur fara í neytendamálum hér á landi.

„Sérstaklega þarf að efla neytendavitund og neytendavakningu almennings. Neytendastofa þarf að vera öflugri stofnun og standa fólki miklu nær en hún gerir. Við þurfum að veita neytendamálum miklu verðugri sess en nú. Til dæmis um það mun ég hér eftir flytja Alþingi árlega skýrslu um stöðu neytendamála á Íslandi og gera margt annað sem þarf til að blása til nýrrar sóknar í neytendamálum. Það er jarðvegur fyrir því. Það er mikill áhugi á neytendamálum á Íslandi og verðlagsþróun síðustu mánaða ýtir við mörgum og skapar frjóan jarðveg til að efla neytendamál.“

Björgvin sagði að neytendamál verðskuldi miklu meiri athygli stjórnmálanna en þau hafa notið hér á landi. Hann nefndi að þegar viðskiptaráðuneytið var skilið frá iðnaðarráðuneytinu eftir langa sambúð fyrir einu ári hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um að byggja viðskiptaráðuneytið upp sem öflugt neytendaráðuneyti að norrænni fyrirmynd. Björgvin sagði aðspurður að neytendavernd mætti efla með aðgerðum á sviði löggjafar og eflingu neytendastofnana. Það skipti ekki minna máli að efla neytendavitundina.

„Það gerum við kannski best með því að stórefla umræðuna um neytendamál. Gera hana skemmtilega og hressilega þannig að fólk hlusti, taki eftir henni og taki mark á henni. Við sjáum hvað Norðurlöndin hafa náð góðum árangri við að byggja upp öfluga neytendavitund hjá fólki. Það þarf einnig að efla fjármálalæsi, neytendafræðslu og mýmargt fleira eins og kemur fram í þessum skýrslum. Þar liggja fyrir ýtarlegar tillögur í mörgum liðum. Þá veitir rannsókn Félagsvísindastofnunar á viðhorfum neytenda athyglisverðar upplýsingar. Næstu mánuði munum við vinna úr þessum upplýsingum.“

Björgvin sagði að hið opinbera hafi lengi stutt við bakið á Neytendasamtökunum og var stuðningur viðskiptaráðuneytisins við þau aukinn í fyrra. „Eitt af yfirlýstum markmiðum okkar er að efla starfsemi Neytendasamtakanna. Við munum stefna að því að auka áfram framlög til þeirra. Þau hafa gert margt mjög gott og eru nauðsynlegur hlekkur í keðjunni.“

– En stendur til að endurvekja Verðlagsstofnun?

„Nei,“ sagði Björgvin og hló. | 24

Okurmolar

NOKKUR dæmi um tilkynningar sem sendar hafa verið til Okursíðu Dr. Gunna (http://www.this.is/drgunni/okur.html):

#571 Verðmunur á DVD-diskum er gífurlegur milli verslana. Bónus, Elko og stærri verslanir sem maður hefði haldið að væru ódýrastar eru hins vegar langdýrastar. Lægsta verð síðustu mánuði á 25 stk. DVD+R 16x er í Start, Kópavogi, á 1.290 en dýrast nokkrum metrum frá í Elko á 3.995!!

#569 Ég fór í Nóatún í Furugrund og keypti þar hálft hvítt samlokubrauð frá Myllunni sem kostaði 235 krónur. Ég fór í Fjarðakaup daginn eftir og fór að skoða verðið þar og kostaði það 167 krónur og er verðmunurinn 41%. Þetta finnst mér okur.

#563 Háskólinn í Reykjavík / Te og kaffi – Kaffibolli í gamla Moggahúsinu. Síðasta vika 190 kr. með áfyllingu. Þessi vika 260 kall. Te og kaffi hengja upp miða þar sem segir að hækkun hjá þeim sé tilkomin vegna hækkana frá birgjum. Nú var afgreiðsludaman varla að fá mikla launahækkun og ekki hækkaði gengið svona rosalega eða hvað? Skömm á Te og kaffi og enn meiri skömm á HR fyrir að láta þetta viðgangast.

#551 Eitt svakalegasta verð á gosi sem ég veit um er hjá Trocadero á Akranesi. Ef þú borðar inni í sal , þá kostar 2 lítra gosflaska á OKURVERÐI 650 KR.!!! Reyndar er gott verð á pizzum þar, með 4 áleggsteg. á 1150, þarna er lítið samræmi á milli.

„Það er okrað á öllum sviðum“

Dr. Gunni er fyrsti handhafi Íslensku neytendaverðlaunanna

DR. GUNNI, fullu nafni Gunnar Lárus Hjálmarsson, er fyrsti handhafi Íslensku neytendaverðlaunanna. Þau voru veitt í fyrsta sinn í gær. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin og sagði m.a. að verðlaunahafinn hafi vakið mikla athygli fyrir stórmerkilegt framtak sitt í neytendamálum og beitt bloggtækninni í þeirra þágu. Þar átti hann við okursíðu Dr. Gunna (http://www.this.is/drgunni/okur.html).

Eftir að Dr. Gunni hafði veitt verðlaununum viðtöku ávarpaði hann ráðstefnuna og talaði fyrir hönd hins virka neytanda. Hann rifjaði upp opnun Okur-síðunnar 21. september s.l. og las úr fyrstu færslunni. Nú hafa borist nærri 600 færslur á síðuna, um tvær og hálf á dag að jafnaði, og flestar frá fólki úti í bæ. Þá sagði Dr. Gunni:

„Mörgum finnst að það sé eins konar merki um aumingjaskap að kvarta yfir okrinu. Að maður sé geðveikt smámunasamur ef maður minnist á mismun merkingar í búð og verðs á kassa. Að það sé einhvers konar merki um það hve vel maður stendur í lífinu að kaupa oststykki á 1.400, kjúklingabringur á 3.000 og gallabuxur á 27.500 án þess að blikna. „Ég er flottur! Mér er alveg sama þótt það sé okrað á mér,“ er mottó allt of margra.“ Dr. Gunni lauk ávarpi sínu á orðunum: „Okur á Íslandi er ekki náttúrulögmál. Ef þú lætur ekki okra á þér verður ekki okrað á þér.“

Morgunblaðið spurði hinn virka neytanda Dr. Gunna hvort íslenskir neytendur séu almennt óvirkir?

„Þeir eru sofandi neytendur sem athuga aldrei hvar þeir geta fengið hlutinn ódýrastan. Fljóta bara í gegnum búðina og vakna ekki fyrr en byrjað er að pakka í pokana og þá eru þeir búnir að borga með kortinu. Þeir eru of þægir held ég – ekki nógu mikið pönk í þeim,“ sagði Dr. Gunni.

En er fólgin kjarabót í því að vera sér meðvitaður um verðlag?

„Já, ef þér finnst 2–3 þúsund kall skipta máli,“ sagði Dr. Gunni. Hann sagði það útheimta svolítið átak að hætta að láta okra á sér. En á hvaða sviðum telur hann helst vera okrað á Íslendingum?

„Það er okrað á öllum sviðum. Í apótekum, bönkum, matvörubúðum, í þjónustu og yfirleitt á öllum sviðum.“