ólk sem ættað er úr Vöðlavík og eldra fólk á Eskifirði og í Neskaupstað segist nota þessa nafnmynd en ekki Vaðlavík um víkina stóru fyrir norðan mynni Reyðarfjarðar sem undanfarna daga og vikur hefur verið mikið í fréttunum.

ólk sem ættað er úr Vöðlavík og eldra fólk á Eskifirði og í Neskaupstað segist nota þessa nafnmynd en ekki Vaðlavík um víkina stóru fyrir norðan mynni Reyðarfjarðar sem undanfarna daga og vikur hefur verið mikið í fréttunum. Þá heiti aðalbýlið í víkinni Vöðlar en ekki Vaðlar. Báðar myndirnar eru málfræðilega réttar en forstöðumaður Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns segir eðlilegt að nota eldri myndina, það er Vöðlavík, fyrst hún lifi fyrir austan.

Þegar Bergvíkin strandaði fyrir jól var nafnið Vaðlavík notað í fjölmiðlum enda það heiti yfirleitt notað í prentuðum heimildum. Á flestum landa- og sjókortum er nafnið í þessu formi en á herforingjaráðskortum í mælikvarða 1:100.000, Atlaskort, er að finna orðmyndina Vöðlavík í sviga, undir og á veikara letri en orðmyndina Vaðlavík. Hins vegar hefur Vöðlavíkurheitið yfirleitt verið notað af heimafólki og því varð það ofaná hjá blaðamönnum Morgunblaðsins.

Þórhallur Vilmundarson prófessor sagði í samtali við Morgunblaðið að elzta varðveitta mynd bæjarnafnsins væri Vöðlar í Vilkinsmáldaga 1397 (í handriti frá því um 1640). Víkin væri nefnd Vöðlavík í handriti um 1750 og í sóknarlýsingu 1843. Í örnefnaskrá segir, að víkin sé oftast nefnd Vöðlavík í daglegu máli. Í fornsögum koma einnig fyrir myndirnar Vöðlaheiði og Vöðlaþing á Norðurlandi, en þar hafa Vaðla-myndirnar orðið ofan á. Vaðla- er af vaðill, sem kemur fyrir í fornritum, en Vöðla- af vöðull, sem kemur ekki fyrir í eintölu í fornum heimildum.

öðlavík mun vera stærst á Austurlandi þeirra svæða er víkurheiti bera og liggur hún opin og óvarin gegnt austri. Víkin er landkostum búin og gróðursæl, að því er fram kemur í Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Hún hét að fornu Krossavík og hélst það nafn fram á 17. öld.

Árið 1703 voru þar þrír bæir og kallaðist aðalbýlið Vöðlar en ekki Vaðlar. Talið er að bær og vík dragi nafn sitt af lóni því sem er innan við sandrifið sem liggur þvert fyrir víkurbotni og kallast Vaðlar eða Vöðlur. Lónið er nú dýpra en svo að vaðlar geti kallast, þó vætt víðast hvar, og gat verið grynnra fyrr á tímum, segir í Múlaþingi. Í Vöðlavík voru 76 íbúar árið 1930 en nú eru allir bæirnir komnir í eyði fyrir mörgum árum.

ólk úr Vöðlavík sem skrifari ræddi við á Eskifirði og Neskaupstað vill halda í Vöðlavíkurheitið og notar það sjálft. Hins vegar virðist yngra fólkið á þessum stöðum ekki eins visst í sinni sök og notar alveg eins Vaðlavíkurheitið. Kona úr Vöðlavík sagðist ekki með nokkru móti geta fellt sig við þá breytingu á nafni Vöðla og Vöðlavíkur sem farið hafi að bera á upp úr 1930. Taldi hún að Vaðlavíkurheitið hafi upphaflega verið notað í niðrandi merkingu, sem hálfgert skammaryrði um fólkið í Vöðlavík, og síðan náð að breiðast út.