Spil „[V]erkin spila vel saman hvort heldur sem er sjónrænt eða huglægt.“
Spil „[V]erkin spila vel saman hvort heldur sem er sjónrænt eða huglægt.“
Sýningin stendur til 18. ágúst.Opið alla daga frá kl.11–17. Aðgangur ókeypis. Sýningin er liður í Listahátíð í Reykjavík.
ÞRÍVIÐUR , sýning þremenninganna Hannesar Lárussonar, Helga Hjaltalín Eyjólfssonar og Guðjóns Ketilssonar í Listasafni Reykjaness stendur nú yfir sem partur af Listahátíð Reykjavíkur. Titillinn er orðaleikur sem vísar til þrívíðs form skúlptúrsins, efniviðarins í bókstaflegum skilningi og þess að hér sýna þrír listamenn. Orðið efniviður sýnir hve sterka hefð tré hefur sem smíðisefni og efniviðurinn sjálfur er gerður að útgangspunkti í sýningunni.

Í fallegri sýningarskrá snýst viðtal Aðalsteins Ingólfssonar sýningarstjóra við listamennina að langmestu leyti um aðkomu þeirra að efniviðnum en minnst um inntak verkanna. Þetta virðist skrítið fyrst í stað þar sem áhugi og áherslur samtímamyndlistarinnar er sjaldan einskorðað við efnivið listaverka.

Í viðtalinu kemur fram, þrátt fyrir ólíkar forsendur listamannanna, að þeir eru sammála um að viður henti þeim sérstaklega vel vegna þess tíma sem smíðin tekur, tíma sem sé mátulega langur til að hugleiða verkin sem verða til. Þessi skýring er áhugaverð og ekki laust við að þessi þáttur búi í verkunum sem virðast á einhvern hátt háleit í einföldum hlutveruleika sínum og fela í sér hugleiðingu.

Orðið þing sem er samheiti yfir hlutur, sbr. þarfaþing, er af sama stofni og orðið þanki sem merkir hugsun. Náskyldar eru sagnirnar að þakka og þekkja eins og má einnig sjá í ensku máli; thing, think og thank. Þessir þættir renna saman í verkum þremenninganna, sérstaklega í innsetningu Guðjóns og stólum Helga.

Innsetning Guðjóns Skel sem samanstendur af hillum með ídealíseruðum hlutum myndar eins konar inngang að sýningunni. Útskornir skúlptúrar í endurteknum formum skópars og samanbrotinna klæða hafa verið málaðir hvítir og pússaðir svo þeir líkjast helst gifsafsteypum. Ásamt formuðum og fínpússuðum beinum úr tré, fagurlega uppdregnum kortum af miðjum gamalla borga, pússuðum einingum gamalla stóla og byggingamódela úr sindrandi hvítum sykurmolum öðlast verkið eitthvað í ætt við blæti tengt trúarlegri vídd. Stílfært módel af bát og af höfði og jafnvel staflaðir hlutar úr grindverki með flagnaðri málningu kallar á fornan en sígildan táknrænan lestur, ekki ólíkt og tréð sjálft í sínu upphaflega formi sem er ein þekktasta táknmynd heimsins þar sem hið jarðneska og hið guðdómlega mætist.

Trjáhugmyndin sem ídealísk fyrirmynd hins guðlega og veraldlega skipulags hefur látið undan í nútímanum. Upplausn gamalla hugmynda um undirstöður þekkingar, siðferðis og lista hafa leitt til ákveðinnar tómhyggju eða nýrra hugmynda þar sem rísómið eða hin villta og frjálsa rótarflækjuhugmynd tekur við af stigveldisbundinni rótarhugmynd trésins. Helgi Hjaltalín fer aðra leið í verkum sínum Kjöraðstæður þar sem hann endurformar með ótrúlegri nákvæmni og þolinmæði trjástofn úr ótal bútum af afgangsviði. Á meðan trjástofninn vísar í hugmyndina um rætur er hann hvorki lifandi né rótfastur sem slíkur heldur tekur á sig form manngerðrar undirstöðu sem þó vísar í trúarleg form tótemsúlna og turna. Límið sem bútarnir eru límdir með er blóðrautt og trjástofninn er settur fram í líkingu stóls eða stöpuls þar sem gert er ráð fyrir og mótað fyrir líkama mannsins. Rassafarið býður upp á að maðurinn geti samlagast listaverkinu enda maðurinn sjálfur orðinn aftur að monumental skúlptúr. Þá breytir engu hvort einhver situr á listaverkinu eða ekki því eins og annað verk Helga á sýningunni sem fjallar um fornan turn sem átti að hafa horfið og fréttir af meintu hvarfi hans hurfu líka, þá sýnir það að allar bendingar um hvernig hlutirnir eru taka þátt í að skapa veruleikann. Turninn er ekki til lengur í huga þess sem las fréttina en yrði aftur að veruleika ef önnur frétt myndi lýsa þá fyrri ósanna.

Guðjón og Helgi Hjaltalín vinna með fjölfeldi upp að ákveðnu marki í verkum sínum. Verk Hannesar á sýningunni samanstendur af fjölfeldi af hlutum sem sjónrænt minna ekki síður á ljósker eða hluti tengda sirkus heldur en stóla. Ólíkt sundurhlutuðum stólum Guðjóns og massífum stólum Helga eru stólar Hannesar holir og opnir svo að mismunandi litir innra borðs þeirra smita út í rýmið. Titill verkanna Hvaða litur finnst þér fallegastur? vísar til smekks og kannski þess valfrelsis sem felur ekkert í sér annað en valkvíða. Varpað myndband af fólki á öllum aldri sem situr á stólunum alvarlegt og nánast grafkyrrt dregur fram ónotatilfinningu þar sem það vantar setu á alla þessa stóla öfugt við hina notalegu líkamsaðlöguðu setu sem skilgreinir verk Helga sem stóls.

Verkin vísa öll langt út fyrir efniviðinn og eru opin fyrir margs konar hugmyndafræðilegum lestri um veruskilning mannsins, samfélagið og listina. Ekki er ólíklegt að í henni leynist kaldhæðin gagnrýni og ádeila fyrir þá sem eftir því skima. Hins vegar stendur upp úr að mínu mati hve grípandi falleg sýningin er og opin fyrir margræðum túlkunum. Í stað þess að bera fram afstæðar eða tómar táknmyndir sem áhorfandinn á að fylla merkingu er hér gengist við því að hlutir og hugtök og athafnir eru merkingarhlaðin á margan hátt og áhorfandinn nær að upplifa sig í samræðu við verkin frekar en að vera sjálfur ábyrgur fyrir mögulegu inntaki þeirra.

Sýningin er einstaklega vel sett upp, verkin spila vel saman hvort heldur sem er sjónrænt eða huglægt. Sýningarskráin er ókeypis og inniheldur frábærar ljósmyndir Helga Hjaltalín af sýningunni ásamt upplýsandi texta, og má segja að framlag Listasafns Reykjanesbæjar sé með því besta sem Listahátíð Reykjavíkur 2008 býður upp á.

Þóra Þórisdóttir