25. maí 2008 | Minningargreinar | 588 orð | 2 myndir

Jóhanna Elín Árnadóttir – Einar Jónsson

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhanna Elín Aðalbjörg Árnadóttir fæddist á Akureyri 24. júlí 1922. Hún lést á líknardeild Landspítala, Landakoti, 4. febrúar síðastliðinn.

Útför Jóhönnu fór fram frá Digraneskirkju 13. febrúar.

Einar Jónsson fæddist á Reyni í Mýrdal 29. júlí 1913. Hann lést 26. mars sl.

Jarðarför Einars fór fram frá Fossvogskirkju 8. apríl sl.

Þau gengu í hjónaband 13. mars 1987, þá nýflutt í Furugrundina þar sem þau bjuggu til æviloka og áttu þau mjög svo fallegt heimili.

Elsku mamma og Einar, þá eruð þið bæði búin að kveðja þennan heim, ekki tveir mánuðir á milli ykkar. Mikið verður skrítið að geta ekki labbað yfir til ykkar í kaffi og spjall, það var svo notalegt, – Einar jafnvel að leggja kapal sem hann gerði svo oft. Dugleg voruð þið að taka í spil með vinum ykkar og Úndu frænku var þá gjarnan boðið upp á mat enda mamma afbragðskokkur. Einnig spiluðuð þið í félagsmiðstöðvum eldri borgara út um allan bæ.

Mamma tók bílpróf 66 ára þegar Einar veiktist og mátti ekki keyra eftir það. Þú keyrðir eins og herforingi, örugg í umferðinni og ekkert mál að keyra út á land. Það var gaman hvað þið voruð dugleg að ferðast til útlanda, nokkrum sinnum fóruð þið til Róslindar í Noregi og einu sinni þaðan til Jóhönnu í Svíþjóð. Svo voru það Kanarí, Kanada, Þýskaland, Spánn og fleiri lönd.

Ekki má gleyma að minnast á fínu böllin hjá Oddfellowum; mamma að útbúa fínu dressin, ég að greiða þér og farða – þú varst svo glæsileg. Einar var svo ánægður með konuna sína, hann svo flottur í kjólfötunum sem hann var búinn að eiga frá því hann gekk í stúkuna. Þau pössuðu alltaf jafn vel á hann.

Bæði voruð þið miklir dansarar. Þið áttuð svo vel saman, sömu áhugamálin og Einar alltaf til í það sem mömmu datt í hug. Ykkar verður sárt saknað af öllum börnunum, tengdabörnum og barnabörnum þínum mamma.

Megi guð vera með ykkur.

Úndína Bergmann.

Ég man þegar ég sá Einar fyrst, hann kom keyrandi niður Rjúpufellið á gulri Vauxhall Vivu, lagði bílnum, steig út og ég kallaði til mömmu: „Hann er með hatt!“ Einar kom inn og bauð góðan daginn. Ekki leið á löngu þar til ég hafði sannfærst um að mamma væri í góðum málum. Sameiginlegur áhugi þeirra á dansi, leiklist, spilamennsku og ferðalögum var kjörið nesti í sameiginlegt ferðalag þeirra um ævikvöld.

Þegar þau kynntust var Einar um sjötugt en mamma um sextugt. Einar stundaði þá badminton af miklum móð, sem mér fannst ótrúlegt fyrir „mann á þessum aldri“, en í tæp 20 ár til viðbótar spilaði hann vikulega. Ótrúlegur! Einar lenti í slysi úti á Spáni, sem varð til þess að hann missti getuna til aksturs. Mamma, þá orðin 66 ára, lét það ekki stoppa sig, enda ótrúlega jákvæð og bjartsýn, pantaði ökutíma, tók prófið sem hana hafði alltaf langað til og var bílstjórinn eftir það. Ekta hún.

Einar var einstaklega ljúfur maður og akkúrat og með okkur tókst vinátta sem entist alla tíð. Hann hafði gaman af fíflaskapnum í mér, – hló þó alltaf mest ef grínið var pínu klúrið. Mamma og Einar báru mikla virðingu hvort fyrir öðru, studdu hvort annað og þreyttust seint á að lofa hvort annað við hvern sem heyra vildi. Ævikvöld þeirra var hamingjuríkt, umvafin fjölskyldu og vinum, – Furugrundin oft eins og félagsheimili. Ég vil þakka þér, Einar minn, fyrir öll góðu árin sem þú gafst mömmu og þér, mamma mín, fyrir allt og allt. Þið lifið áfram í hjörtum okkur um alla ævi.

Guð blessi ykkur.

Jón Þór.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.