Kjartan Ólafsson
Kjartan Ólafsson — dddddddddddd
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kjartan Ólafsson: "Þessar pólitísku símahleranir á árunum 1949-1968 eru svartur blettur í sögu íslenska lýðveldisins. Þær eru víti til varnaðar fyrir alla þá sem fara með æðstu völd..."
HINN 21. maí árið 2006 flutti Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fyrirlestur á „Söguþingi“. Hann kynnti þar niðurstöður rannsókna sinna á símahlerunum sem íslenska dómsmálaráðuneytið gekkst fyrir á árunum 1949-1968. Í þessum fyrirlestri sagnfræðingsins voru í fyrsta sinn dregnar fram í dagsljósið ótvíræðar sannanir fyrir því að á nefndu tímaskeiði voru símar hleraðir af stjórnmálaástæðum hjá allmörgum fyrirtækjum og félagasamtökum og á fjölda heimila. Hleranaloturnar voru sex, sú fyrsta í mars/apríl 1949, önnur í janúar 1951, sú þriðja í apríl/maí 1951, hin fjórða í febrúar 1961, sú fimmta í september 1963 og hin sjötta í júní 1968.

Þegar fréttir af fyrirlestri Guðna birtust í fjölmiðlum blasti við að vinnusímar mínir höfðu verið hleraðir í þremur af þessum sex lotum, svo og að símar á heimilum margra samstarfsmanna minna og vina, sem nú eru flestir látnir, höfðu verið hleraðir og stjórnarskrárvarinn réttur þeirra til friðhelgi einkalífs þannig brotinn á hinn grófasta hátt.

Ég bar þá þegar fram kröfu um að öll gögn frá opinberum aðilum sem varðveitt kynnu að vera um þessar pólitísku hleranir yrðu gerð aðgengileg þeim sem skoða vildu – og boðaði málsókn fyrir dómstólum ef ekki yrði á það fallist. Við þessari kröfu minni hefur nú verið orðið og ég fengið öll gögnin í hendur. Heimilin sem urðu sannanlega fyrir því að einkasímar þeirra væru hleraðir af stjórnmálaástæðum á árunum 1949-1968 reyndust vera 32. Skrá yfir fólkið sem mannréttindi voru brotin á með þessum hætti, að undirlagi Bjarna Benediktssonar og tveggja annarra ráðherra Sjálfstæðisflokksins, fylgir nú þessari grein minni.

Það tók langan tíma að fá umrædd gögn í hendur og heimildir til að birta nöfn fólksins. Sú saga verður ekki rakin hér, aðeins nefndir helstu áfangarnir sem voru þessir:

1. Samþykkt Alþingis 3. júní 2006 um skipan nefndar til að gera tillögu um „tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna“ að þessum gögnum.

2. Úrskurður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra 16.10. 2006 en með honum var mér tryggður aðgangur að nokkrum hluta gagnanna. Var það dýrmætur áfangasigur því fram að þeim tíma hafði öllum beiðnum mínum um aðgang verið synjað.

3. Lagafrumvarp nefndarinnar sem skipuð var í júní 2006 í samræmi við nýnefnda samþykkt Alþingis frá 3. júní það ár. Nefnd þessi starfaði undir forystu Páls Hreinssonar, þá lagaprófessors en nú hæstaréttardómara, og skilaði fullbúnu frumvarpi um breytingu á lögum um Þjóðskjalasafnið til menntamálaráðherra 9. febrúar 2007.

4. Samþykkt Alþingis 16. mars 2007 á frumvarpi nefndarinnar með þeim breytingum sem á því voru gerðar í meðförum þingsins.

Með hinum nýju lögum var Þjóðskjalasafni Íslands gert að veita fræðimönnum greiðan aðgang að öllum gögnum í vörslu þess um hleranamálin með þeirri einu undantekningu að safnið mætti þó ekki gefa upp nöfn þeirra sem hlerað var hjá nema viðkomandi hefði veitt samþykki sitt eða samþykki verið fengið hjá nánum vandamönnum væri maðurinn látinn. Með umræddum lögum frá 16.3. 2007 var Þjóðskjalasafninu falið að snúa sér bréflega til allra þeirra sem hlerað var hjá eða vandamanna þeirra og kanna með þeim hætti hvort heimildir fengjust til að birta nöfnin.

Nokkra fyrirhöfn hlaut þetta að kosta fyrir safnið og tók allt sinn tíma því fólkið sem bréfin átti að fá er dreift um víða veröld. Alls munu 74 einstaklingar hafa fengið kynningarbréf með slíkri fyrirspurn frá safninu og svörin smátt og smátt verið að tínast inn.

Nú er þess að geta að undir lok ársins 2006 kom út bókin Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Þar nefnir hann rúman helming þeirra heimila sem sannanlega var ráðist á með leyndum hlustunartækjum á árunum 1949–1968. Til að birta aftur þau nöfn sem Guðni gaf upp þurfti ég enga aðra heimild en flest hin nöfnin sem hér eru birt hefur Þjóðskjalasafnið látið mér í té. Fáein eru þó fengin með öðrum hætti og hef ég gert safninu grein fyrir hvaða heimildir þar er um að ræða.

Ekki er ólíklegt að einhverjir lesendur þessara orða vilji vita hvað er að sjá í þeim gögnum um hlerunarmálin sem fyrir liggja. Því er í rauninni fljótsvarað. Um er að ræða bréf dómsmálaráðherra, oftast Bjarna Benediktssonar, til sakadómara eða yfirsakadómara þar sem farið er fram á heimild til að hlera ákveðin símanúmer. Hvergi er í þessum bréfum að finna nokkurn rökstuðning fyrir beiðnunum nema óljóst tal um að hætta geti verið á óspektum. Sömu sögu er að segja um úrskurði dómaranna. Þeir láta jafnan það eitt nægja að vísa í bréf ráðherrans en forðast eins og heitan eldinn að leggja sjálfir nokkuð til mála eða gera tilraun til að rökstyðja niðurstöður sínar.

Það sem gögnin um hleranirnar leiða í ljós er í stuttu máli þetta:

1. Ráðist var hvað eftir annað með símahlerunum inn á heimili fólks sem ekkert hafði til saka unnið annað en að vera á öndverðum meið við ráðamenn landsins í stjórnmálum.

2. Í bréfum dómsmálaráðherra til sakadómara er í fjórum tilvikum af sex ekki vísað í eina einustu lagagrein til stuðnings hlerunarbeiðnunum og aðeins í einu hinna sex tilvika haft á orði að það sé lögreglan sem óttist óspektir.

3. Aldrei er leitast við að rökstyðja, þó að ekki hafi verið nema með einni setningu, hvers vegna er látið hlera hjá þessum en ekki hinum úr hópi pólitískra andstæðinga ráðherrans. Þar virðist kylfa hafa ráðið kasti.

4. Úrskurðir dómaranna sem hér um ræðir eiga ekkert skylt við niðurstöður almennra dómstóla. Þarna átti enginn kost á að verja sig og greinilega talið óþarft að rökstyðja úrskurðina. Dómararnir sem þarna koma við sögu virðast því hafa litið á sig sem einhvers konar undirtyllur ráðherra.

5. Í bréfum ráðherrans er jafnan farið fram á „heimild til hlerunar“ en dómararnir virðast hafa verið kaþólskari en páfinn því að í orðsendingum þeirra til forstjóra Landssímans segir jafnan „skal hlera“ nema í síðustu lotunni, árið 1968. Þessir ágætu dómarar hafa sem sagt skilið til hvers var ætlast fyrr en skall í tönnum.

6. Skráð efni úr símtölunum sem hleruð voru fyrirfinnst hvergi. Vera má að því hafi verið eytt árið 1976. Þór Whitehead prófessor hefur greint svo frá að öllum gögnum persónunjósnadeildar þeirra Bjarna Benediktssonar ráðherra og Sigurjóns Sigurðssonar lögreglustjóra hafi þá verið brennt af því að lögreglustjórinn mátti ekki til þess hugsa að eftirmaður hans fengi aðgang að plöggunum (sjá tímaritið Þjóðmál 2. árg., 3ja hefti, bls. 83).

7. Í hópi þeirra sem urðu fyrir hlerunum á heimasímum sínum eru 12 alþingismenn og áttu 9 þeirra sæti á þingi þegar símar þeirra voru hleraðir. Ýmsir aðrir sem brotið var á með sama hætti í þessum ofsóknum dómsmálaráðherrans höfðu hins vegar aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi og í einni lotunni var jafnvel ráðist inn á heimili fólks sem ætíð hafði verið dyggir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins!

Með hinum víðtæku pólitísku símahlerunum var ráðist að heiðvirðu og vammlausu fólki með aðferðum sem almennt þykir aðeins við hæfi að beita gegn stórhættulegum glæpamönnum svo sem eiturlyfjasölum, meintum morðingjum eða landráðamönnum. Þessar pólitísku símahleranir á árunum 1949-1968 eru svartur blettur í sögu íslenska lýðveldisins. Þær eru víti til varnaðar fyrir alla þá sem fara með æðstu völd, nú og á komandi árum.

Vel færi á því að núverandi dómsmálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, bæði allt það fólk sem brotið var á með þessum hætti afsökunar á ósómanum – þá sem enn lifa og hina sem látnir eru. Niðjar þeirra eiga líka rétt á slíkri afsökunarbeiðni.

Skrá yfir heimilin 32 sem stjórnvöld létu hlera 1949-1968

1. Arnar Jónsson leikari, fæddur 1943, og Þórhildur Þorleifsdóttir, síðar leikari, leikstjóri og leikhússtjóri, fædd 1945. Hlerað 1968. Bjuggu þá á Kleppsvegi 132 í Reykjavík.

2. Áki H. J. Jakobsson, alþingismaður og áður ráðherra, fæddur 1911, og Helga Guðmundsdóttir húsfreyja, fædd 1910. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá í Drápuhlíð 36 í Reykjavík.

3. Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Þjóðviljans og síðar framkvæmdastjóri vinnuheimilis SÍBS á Reykjalundi, fæddur 1907, og Hlín Ingólfsdóttir húsfreyja, fædd 1909. Hlerað 1949. Bjuggu þá í Miðtúni 16 í Reykjavík.

4. Björn Kristmundsson skrifstofumaður, fæddur 1909. Hlerað 1949. Bjó þá á Bollagötu 10 í Reykjavík.

5. Brynjólfur Bjarnason, alþingismaður og áður ráðherra, fæddur 1898, og Hallfríður Jónasdóttir húsfreyja, fædd 1903. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Brekkustíg 14 B í Reykjavík.

6. Eðvarð Sigurðsson, alþingismaður og lengi formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fæddur 1910, og Ingibjörg S. Jónsdóttir húsfreyja (móðir Eðvarðs), fædd 1885. Hlerað 1961. Bjuggu þá í Litlu-Brekku við Þormóðsstaðaveg í Reykjavík.

7. Eggert Þorbjarnarson framkvæmdastjóri, fæddur 1911, og Guðrún Rafnsdóttir húsfreyja, fædd 1910. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Langholtsvegi 33 í Reykjavík.

8. Einar Angantýsson innheimtumaður, fæddur 1895, og Guðríður Einarsdóttir gjaldkeri (faðir og dóttir hans), fædd 1926. Hlerað 1949. Bjuggu þá á Hofsvallagötu 23 í Reykjavík.

9. Einar Olgeirsson alþingismaður, fæddur 1902, og Sigríður Þorvarðardóttir húsfreyja, fædd 1903. Hlerað 1949, 1951, 1961 og 1963. Bjuggu þá á Hrefnugötu 2 í Reykjavík.

10. Finnbogi Rútur Valdimarsson, alþingismaður og síðar bankastjóri, fæddur 1906, og Hulda Jakobsdóttir, húsfreyja og síðar bæjarstjóri, fædd 1911. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Marbakka í Kópavogi.

11. Guðlaugur Jónsson verkamaður, fæddur 1900, og Margrét Ólafsdóttir húsfreyja, fædd 1895. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Hverfisgötu 104B í Reykjavík.

12. Guðmundur Hjartarson, erindreki og síðar bankastjóri Seðlabankans, fæddur 1914, og Þórdís Þorbjörnsdóttir húsfreyja, fædd 1916. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Hraunteigi 23 í Reykjavík.

13. Guðmundur Vigfússon bæjarfulltrúi, fæddur 1915, og Marta Kristmundsdóttir húsfreyja, fædd 1917. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Bollagötu 10 í Reykjavík.

14. Hannibal Valdimarsson, alþingismaður og forseti Alþýðusambands Íslands, áður ráðherra og líka síðar, fæddur 1903, og Sólveig Ólafsdóttir húsfreyja, fædd 1904. Hlerað 1961. Bjuggu þá á Laugarnesvegi 100 í Reykjavík.

15. Haraldur S. Norðdahl tollvörður, fæddur 1897, og Valgerður Jónsdóttir Norðdahl húsfreyja, fædd 1895. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Bergstaðastræti 66 í Reykjavík.

16. Hjalti Árnason verkamaður, fæddur 1903, og Sigríður Friðriksdóttir húsfreyja, fædd 1914. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Snorrabraut 32 í Reykjavík.

17. Jens Hallgrímsson verkamaður, fæddur 1896, og Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, fædd 1895. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Baugsvegi 35 í Reykjavík.

18. Jón Bjarnason, blaðamaður og fréttastjóri, fæddur 1909, og Jóhanna Bjarnadóttir húsfreyja, fædd 1891. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Skólavörðustíg 19 í Reykjavík.

19. Kristinn E. Andrésson magister, forstjóri bókmenntafélagsins Máls og menningar, áður alþingismaður, fæddur 1901, og Þóra Vigfúsdóttir húsfreyja, fædd 1897. Hlerað 1951 og 1961. Bjuggu 1951 í Þingholtsstræti 27 í Reykjavík en 1961 á Kleppsvegi 34 í Reykjavík.

20. Lúðvík Jósepsson alþingismaður, áður og síðar ráðherra, fæddur 1914, og Fjóla Steinsdóttir húsfreyja, fædd 1916. Hlerað 1961 og 1968. Bjuggu þá á Miklubraut 80 í Reykjavík.

21. Magnús Kjartansson, ritstjóri og alþingismaður, síðar ráðherra, fæddur 1919, og Kristrún Ágústsdóttir húsfreyja, fædd 1920. Hlerað 1949, 1951, 1961, 1963 og 1968. Bjuggu þá á Háteigsvegi 42 í Reykjavík.

22. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og síðar veðurstofustjóri, fæddur 1923, og Hulda Baldursdóttir húsfreyja, fædd 1923. Hlerað 1968. Bjuggu þá í Skaftahlíð 8 í Reykjavík.

23. Ragnar Arnalds kennari, áður og síðar alþingismaður og ráðherra um skeið, fæddur 1938, og Hallveig Thorlacius kennari, síðar brúðuleikari, fædd 1939. Hlerað 1968. Bjuggu þá í Bólstaðarhlíð 14 í Reykjavík.

24. Sigfús A. Sigurhjartarson, bæjarfulltrúi og áður alþingismaður, fæddur 1902, og Sigríður Stefánsdóttir húsfreyja, fædd 1900. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Laugateigi 24 í Reykjavík.

25. Sigurður Guðmundsson ritstjóri, fæddur 1912, og Ásdís Þórhallsdóttir húsfreyja, fædd 1922. Hlerað 1949 og 1968. Bjuggu þá á Fálkagötu 1 í Reykjavík.

26. Sigurður Guðnason, alþingismaður og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fæddur 1888, og Kristín Guðmundsdóttir húsfreyja, fædd 1891. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Hringbraut 88 í Reykjavík.

27. Snorri Jónsson járnsmiður, lengi formaður Félags járniðnaðarmanna, síðar framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og um skeið forseti þess, fæddur 1913, og Agnes Magnúsdóttir húsfreyja, fædd 1921. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Kaplaskjólsvegi 54 í Reykjavík.

28. Stefán Bjarnason verkamaður, fæddur 1910, og Rósa S. Kristjánsdóttir húsfreyja, fædd 1912. Hlerað 1968. Bjuggu þá á Sunnuvegi 19 í Reykjavík.

29. Stefán Jakobsson múrarameistari, fæddur 1895, og Guðrún Guðjónsdóttir húsfreyja, fædd 1903. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Háteigsvegi 30 í Reykjavík.

30. Stefán Ögmundsson, prentari og prentsmiðjustjóri, fæddur 1909, og Elín Guðmundsdóttir húsfreyja, fædd 1912. Hlerað 1949. Bjuggu þá í Þingholtsstræti 27 í Reykjavík.

31. Úlfur Hjörvar, rithöfundur og þýðandi, fæddur 1935, og Helga Helgadóttir Hjörvar leikari, síðar forstjóri Norræna hússins í Þórshöfn í Færeyjum og nú forstjóri Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, fædd 1943. Hlerað 1968. Bjuggu þá á Bergþórugötu 1 í Reykjavík.

32. Þráinn Haraldsson vélvirki, fæddur 1928, og Unnur Kristjánsdóttir talsímakona, fædd 1931. Hlerað 1968. Bjuggu þá í Stóragerði 10 í Reykjavík.

Höfundur er fyrrverandi ritstjóri og fyrrverandi alþingismaður.