Í dag, 1. júní, er öld liðin frá láti Jóns Steindórs Norðmann, kaupmanns á Akureyri. Hann var fæddur 27. janúar 1858 og lést 1. júní 1908, aðeins fimmtugur að aldri, frá Jórunni, f. 16. maí 1871, d. 11. september 1961, konu sinni og sex börnum.

Jón Steindór Norðmann var sonur séra Jóns Norðmann, f. 1820, d. 1877, prests og fræðimanns á Barði í Fljótum í Skagafirði og Katrínar Jónsdóttur, f. 1828, d. 1889. Sr. Jón var sonur Jóns Guðmundssonar, f. 1801, d. 1866, og Margrétar, f. 1796, d. 1862, dóttur sr. Jóns Þorlákssonar, f. 1744, d. 1819, prests og skálds á Bægisá. Katrín, móðir Jóns Steindórs, var frá Undirfelli í Vatnsdal, dóttir Jóns Eiríkssonar, f. 1798, d. 1859 og Bjargar Benediktsdóttur, f. 1804, d. 1845.

Jórunn Norðmann, fædd Einarsdóttir, var dóttir Einars Baldvins Guðmundssonar, f. 1841, d. 1910, og Kristínar Pálsdóttur, f. 1842, d. 1879, á Hraunum í Fljótum í Skagafirði. Kristín móðir Jórunnar var dóttir sr. Páls Jónssonar, f. 1812, d. 1889, prests og sálmaskálds í Viðvík í Skagafirði og Kristínar Þorsteinsdóttur, f. 1808, d. 1866.

Sr. Jón á Barði mun hafa lesið og skrifað ellefu tungumál og kunni einnig skil á stærðfræði, siglingafræði og landmælingum. Hann kvæntist Katrínu Jónsdóttur frá Undirfelli í Vatnsdal. Þau voru ákaflega ólík, en bættu hvort annað upp: Hún stóð fyrir búinu með skörungsskap en bóndi hennar grúskaði í þjóðlegum fróðleik. Jón Steindór hafði kosti beggja foreldra sinna, var bæði listhneigður málamaður eins og faðir hans og fésæll framkvæmdamaður eins og móðirin.

Jórunn Einarsdóttir ólst upp við góð kjör á Hraunum í Fljótum. Faðir hennar var Einar Baldvin Guðmundsson á Hraunum, bóndi, kaupmaður og alþingismaður með meiru. Móðir Jórunnar var Kristín Pálsdóttir.

Jón og Jórunn giftust árið 1893, fluttu fyrst suður og svo til Akureyrar árið 1897 og stofnuðu heimili þar. Hann græddi á verslun og þau voru örlát við fólk í kringum sig. Erfiðleikarnir voru þó ekki langt undan. Hús þeirra brann í brunanum mikla á Akureyri árið 1906.

Jón sigldi til Kaupmannahafnar og var skorinn vegna krabbameins, en lést 1. júní 1908. Jórunn syrgði mann sinn það sem hún átti ólifað, en hélt reisn og stolti til dauðadags. Hún flutti til Reykjavíkur. Það gekk hratt á arfinn þar sem hún hafði lítið peningavit og var vön rausnarskap.

Jórunn sendi öll börn sín í listnám.

Katrín, f. 1895, d. 1989, tók verslunarskólapróf í Reykjavík og lærði píanóleik í Berlín. Hún giftist Einari Viðar, f. 1887, d. 1923, og áttu þau dæturnar Jórunni Viðar tónskáld, f. f. 1918, og Drífu Viðar, f. 1920, d. 1971, rithöfund og myndlistarmann. Hann lést eftir stutt hjónaband. Seinna giftist hún Jóni Sigurðssyni skólastjóra Laugarnesskólans, f. 1895, d. 1979. Hún rak Hljóðfæraverslun Katrínar Viðar og kenndi líklega fleiri Íslendingum á píanó en nokkur önnur manneskja.

Jón, f. 1897, d. 1919, sonur Jóns og Jórunnar þótti svo efnilegur píanóleikari að hann var sendur ásamt Katrínu í nám til Berlínar. Þar fékk hann berkla, sem drógu hann til dauða árið 1919.

Kristín, f. 1899, d. 1944, fór fyrst í Kvennaskólann og sigldi svo til Kaupmannahafnar og lærði á píanó. Hún kom aftur heim og giftist Páli Ísólfssyni tónskáldi og orgelleikara. Þau áttu þrjú börn, Jón Norðmann, Þuríði Pálsdóttur söngkonu og Einar Pálsson fræðimann. Kristín lifði ekki nema til 45 ára aldurs.

Óskar, f. 1902, d. 1971, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, nam svo verslunarfræði í Kaupmannahöfn og gekk inn í fyrirtæki frænda síns Jóns Þorlákssonar, sem eftir það bar nafn beggja: Þorláksson & Norðmann. Hann kvæntist Sigríði Benediktsdóttur Benedikz og eignuðust þau börnin Unni, f. 1933, Jón, f. 1935, og Kristínu, f. 1945. Óskar nam söng og var meðal stofnenda karlakórsins Fóstbræðra og söng með honum til dauðadags.

Ásta, f. 1904, d. 1985, lærði dans í Þýskalandi, stofnaði fyrsta dansskóla Íslands og setti upp fyrstu danssýningu á Íslandi. Hún giftist Agli Árnasyni og átti með honum börnin Má, f. 1932, d. 1995, viðskiptafræðing, Árna Egilsson, f. 1939, tónlistarmann og Kristínu, f. 1940.

Jórunn, f. 1907, d. 1989, þótti fær á píanó. Hún giftist Jóni Geirssyni lækni og eignuðust þau börnin Geir lækni, f. 1929, og Sigríði, f. 1936. Þau fluttu til til Akureyrar en skildu og flutti hún þá til Reykjavíkur þar sem hún vann sem píanókennari og undirleikari. Seinni maður Jórunnar var Þorkell Gíslason.

Ótímabært fráfall þriggja gjörvilegra manna með stuttu millibili – Jóns eldra, Jóns yngra og Einars Viðar – markaði djúp spor sorgar sem seint greru. En fólk lærir að lifa með sárum þótt þau grói ekki og það varð Jórunn að gera. Hún átti fyrir börnum að sjá, og þegar hún varð ekkja varð hún að taka við sem höfuð fjölskyldunnar, sem um leið varð eiginlega matríarkísk. Það hlutverk fór henni vel og hún gegndi því til dauðadags og var afkomendum og öðrum fordæmi með sjálfstæði sínu og glæsileika.

www.mbl.is/minningar

Vésteinn Valgarðsson.