Eftir Andrés Þorleifsson andresth@mbl.is ALMENNT miðaverð kvikmyndahúsanna hækkaði fyrir stuttu um 11% eða úr 900 krónum í 1.000 krónur.

Eftir Andrés Þorleifsson

andresth@mbl.is

ALMENNT miðaverð kvikmyndahúsanna hækkaði fyrir stuttu um 11% eða úr 900 krónum í 1.000 krónur. Þá hefur um nokkurt skeið tíðkast að bæta 50 krónum við miðaverð ef um er að ræða stafræna sýningu og hjá Sambíóunum einnig ef myndin er lengri en 120 mínútur. Þessi hækkun kemur í kjölfar svipaðrar hækkunar í fyrra og hefur miðaverð því hækkað um 25% á tveimur árum.

Minnihluti samninga háður gengi

Ingi Úlfar Helgason, upplýsingafulltrúi SAMfélagsins, segir það algengan misskilning að gengi krónunnar ráði miðaverði. Flestir samningar félagsins við erlend kvikmyndaver séu í íslenskum krónum og því snerti gengislækkun krónunnar kvikmyndahúsin mun minna en margir ætli. Í sama streng tekur Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu, sem segir að í miklum meirihluta tilvika séu gerðir samningar við kvikmyndaverin um að þau fái ákveðið hlutfall af miðaverði.

Rekstrarkostnaður hækkar mikið

Með nokkurri einföldun má segja að andvirði miðans samanstandi af þremur þáttum: virðisaukaskatti, leigu á mynd, sem sé oft um og yfir helmingur miðaverðs, og hlut kvikmyndahússins, sem m.a. er notaður til að greiða rekstrarkostnað. Það er síðastnefndi liðurinn sem veldur hækkuninni nú og benda forsvarsmenn kvikmyndahúsanna sérstaklega á miklar launahækkanir að undanförnu. Þannig bendir Ingi Úlfar á að launataxtar hafa hækkað um 19% frá áramótum og um 66% frá 2004 og Sigurður bætir við að kostnaður við húsnæði hafi aukist mikið. Verð á bíómiða hafi engan veginn haldið í við rekstrarkostnað.

Væri enn hærri ef ekki væri hlé

Aðspurður hvort auglýsingasala og sælgætissala í hléi ætti ekki að hafa áhrif til lækkunar miðaverðs segir Björn að ef hlésins nyti ekki við væri miðaverð um 20% hærra. Þá hafi kannanir Senu sýnt að mikill meirihluti bíógesta vilji halda í hléin, ungt fólk fari ekki síst í bíó til að sýna sig og sjá aðra og til þess séu hléin kjörin.

Þrátt fyrir hækkandi miðaverð hefur meðalmiðaverð, meðalverð að teknu tilliti til hvers konar afsláttar, lítið breyst. Árið 2002 var meðalverð í Sambíóin 718 krónur en árið 2007 hafði það hækkað um 4% eða upp í 747 krónur og segir Björn svipað uppi á teningnum hjá Senu.

Margar leiðir til að spara

* Þrátt fyrir hækkandi almennt miðaverð breytist meðalverð lítið. Það eru því æ fleiri leiðir til að spara.

* Í s.k. Sparbíó gefst fólki kostur á að mæta upp úr hádegi og borgar þá aðeins 550 krónur í bíó. Njóta slíkar sýningar mikilla vinsælda.

* Sambíóin bjóða 100 króna afslátt af miðaverði sé miðinn keyptur á vefsíðunni Midi.is. Að sögn Inga Úlfars vita fáir af þessum möguleika.

* Margir bankar og sparisjóðir veita námsmönnum afslátt af miðaverði, en sá hópur fer oftast í bíó.