Eftir Björgu Evu Erlendsdóttur beva@24stundir.is Íbúðalánasjóður fær sífellt fleiri beiðnir um fokheldislán frá verktökum sem ekki hafa selt íbúðir sem þeir eru með í byggingu.

Eftir Björgu Evu Erlendsdóttur

beva@24stundir.is

Íbúðalánasjóður fær sífellt fleiri beiðnir um fokheldislán frá verktökum sem ekki hafa selt íbúðir sem þeir eru með í byggingu. Stjórn sjóðsins fylgist nú grannt með því hvernig verktökunum gengur að standa í skilum.

„Við höfum ekki orðið vör við teljandi vanskil en það verður vaktað á næstunni,“ segir Guðmundur Bjarnason, forstjóri sjóðsins.

Vilja breyta í leigufélög

Á stjórnarfundi sjóðsins í vikunni kom fram að ekki aðeins eykst sóknin í fokheldislánin, heldur sitja verktakarnir lengur með lánin en áður af því að íbúðirnar seljast ekki. „Þetta eru tímabundin lán, oft til einhverra mánaða, þar til kaupandi finnst. Nú er ekki gott að vita hvað verktakarnir sitja lengi uppi með lánin, en þau fara í eðlilega innheimtu og byggingafyrirtækin borga þá af þeim afborganir á sama hátt og kaupandinn hefði annars gert.“

Sumir verktakanna hafa nú gripið til þess ráðs að breyta óseldum íbúðum í leiguíbúðir og reka þær sjálfir. Íbúðalánasjóður verður líka var við slíkar óskir og íhugar hvernig komið verður til móts við þær. „Þeir sem gera þetta eiga leiguíbúðarlánarétt hjá okkur,“ segir Guðmundur. „Menn eru að láta reyna á leigumarkaðinn núna og sá markaður kann að vera fyrir hendi, en spurning er þá um leiguverðið.“ Guðmundur er ekki í vafa um að heilmikil eftirspurn hljóti að vera eftir ódýrum leiguíbúðum, en er ekki viss um að sama gildi um leiguverð sem tíðkast hafi til dæmis í Reykjavík. „Á Suðurnesjum hefur haft áhrif að þar bætast íbúðir á Vellinum við miklar byggingaframkvæmdir. Og á Austfjörðum hefur líka reynst erfitt að selja eða leigja út húsnæði og því nokkuð um að nýjar íbúðir standi auðar.“

Vanskil aukast hægt

„Vanskil hafa þó ekki aukist mikið og eru langt frá því sem var þegar verst lét, árið 2003 til 2004, í raun hafa skil verið afar góð, þótt það breytist eitthvað nú. Vissulega eru fleiri í vandræðum nú enn í fyrra,“ segir Guðmundur. Íbúðalánasjóður getur komið til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum á þrjá vegu. Hægt er að fresta greiðslum í allt að þrjú ár, eða frysta lánin eins og það er kallað. Þá má skuldbreyta vanskilum sem menn eru í við sjóðinn og veita ný lán til allt að 15 ára og þá má lengja lánstímann til að minnka greiðslubyrði.
Í hnotskurn
Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 4,8 milljörðum í maí. Leiguíbúðalán voru tæpur 1,1 milljarður en almenn útlán námu nærri 3,8 milljörðum. Meðallán almennra útlána námu tæplega 9,8 milljónum kr. Heildarútlán jukust um 15% á sama tíma og meðallán almennra útlána lækkuðu um 6%.