15. júní 2008 | Innlent - greinar | 2933 orð | 2 myndir

Systkinin samhentu

Sólskinsbörn Manstu þegar...? Lísa, Ilmur og Sverrir spekúlera á bernskutöppunum Óðinsgötu 6.
Sólskinsbörn Manstu þegar...? Lísa, Ilmur og Sverrir spekúlera á bernskutöppunum Óðinsgötu 6. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TENGSL Þau eru ólík í útliti og segjast líka vera ólík hið innra.
TENGSL Þau eru ólík í útliti og segjast líka vera ólík hið innra. En þegar grannt er skoðað eiga Lísa, Ilmur og Sverrir Kristjánsbörn margt sameiginlegt; ekki bara væntumþykjuna og vináttuna hvert í annars garð heldur vinna þau líka á sama sviði, þótt hlutverkin séu ekki þau sömu; aðstoðarleikstjóri, leikari, klippari. Freysteinn Jóhannsson talaði við þau.

Lísa

Lísa var að fara út í Flatey daginn eftir að við töluðum saman. Þar var hún aðstoðarleikstjóri við kvikmyndina Brúðgumann í fyrrasumar. Núna ætlar hún hins vegar að hlaða batteríin, vinna á hótelinu og anda að sér breiðfirzkri náttúru.

„Ég man vel þegar Ilmur fæddist. Við eigum afmæli 18. og 19. marz og mamma fór beint úr afmælisveizlunni minni upp á spítala. Svo finnst mér ég muna eftir henni í vöggu en það er svo skrýtið að ég man lítið sem ekkert eftir okkur Ilmi tveimur. Það hafa alltaf verið við þrjú; ég, Ilmur og Sverrir. Ilmur og Sverrir voru miklir vinir en rifust líka endrum og eins. Ilmur var einstaklega uppátektasöm og stríðin. Ég hafði takmarkaðan húmor fyrir því þá og gat látið hana fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Hún las mig eins og opna bók, sem hún gerir sem betur fer enn, og vissi svo vel hvaða takka hún átti að ýta á til þess að hleypa mér upp. Sverrir var öðru vísi. Hann var rólegur og mikill grúskari. En hann er líka gefinn fyrir gott partí og gat átt það til að fara í kompaní með Ilmi og hleypa mér upp í geðvonzkukast, sem yfirleitt stóð þó stutt yfir. Þau voru bara tveir krakkarassar að skemmta sér.

Við ólumst upp í Þingholtunum í sama húsi og systir pabba og dóttir hennar. Það var alltaf einhver heima og við lékum okkur mikið saman.

Ilmur kunni reglurnar. Hún mátti til dæmis ekki koma inn í herbergið mitt. Þá stóð hún bara í gættinni, geiflaði sig alla í framan og sagði: nanananana, ég má alveg standa hér. Svona hélt hún áfram þangað til ég snappaði og rauk í hana. En hún var líka bæði fyndin og skemmtileg. Það var Sverrir líka, en hann var meira fyrir sig, dáði Presley og lærði alla textana hans utan að. Svo söng hann Presely og bjó til músagildrur.

Aldursmunur er bara eitthvað sem maður finnur fyrir sem barn. Þá eru himinn og haf milli þess að vera 10 ára og sex. Núna er hins vegar ekkert haf á milli okkar og ekki himinn heldur. Bara dásamleg og falleg vinátta og mikið traust.

Mér finnst þau Ilmur og Sverrir ótrúlega vel lukkuð, þau eru heilsteypt og réttlát, fallegar manneskjur, fyndin og skemmtileg.

Það er svo skrýtið að þótt leið okkar í leiklistina, leikstjórnina og klippingarnar virðist hafa legið eftir tiltölulega breiðum vegi, þá er engan veginn hægt að segja að við höfum verið samferða. Foreldrar okkar hvöttu okkur til þess að gera það sem við vildum og það voru jólaleikrit í Austurbæjarskóla, við fórum öll í gegnum það prógramm. Veit ekki hvort það er eitthvað. Hver veit?

Sjálf vissi ég ekkert hvað ég ætlaði að verða eftir stúdentspróf, var svona að máta mig við hagfræði og sagnfræði, er meira að segja sagnfræðidroppát. Heyrði svo af Kvikmyndaskóla Íslands yfir bjórglasi á bar og skellti mér í hann. Ilmur held ég að hafi ætlað að verða jarðfræðingur eða hótelstjóri, en svo var hún eitthvað að leika í MH og þar með vissi hún hvað hún vildi verða. Sverrir fór til Danmerkur eftir stúdentinn en var þá eitthvað byrjaður að klippa minnir mig og hann er við það heygarðshornið enn þann dag í dag. Hann hefur þó brugðið fyrir sig betri fætinum og tekið beygjur, var til dæmis að pródúsera í vetur og gerði það með miklum ágætum.

Milli okkar ríkir mikil vinátta og samkennd. Þau eru oft mínar hjálparhellur, eiga auðvelt með að setja sig inn í það sem ég er að braska og hafa skilning á því. Við ræðum auðvitað margt sem viðkemur starfinu, en erum ekki beint að biðja um gagnrýni, heldur meira skilning. Og það á líka við um okkar persónulega líf. Það er mikill samgangur á milli okkar og börnin eru samrýnd. Ég sæki líka afskaplega mikið í nánd og kærleika frá systkinum mínum. Þegar Ilmur kom í Flatey í fyrra, þar sem við vorum að taka upp Brúðgumann, hljóp ég til hennar þegar hún kom niður götuskarðið og sótti til hennar mikið og langdregið knús. Og þegar Sverrir kom vestur í heimsókn á Dagvaktina, þá fékk hann alveg sömu meðferð.

Ilmur getur verið sjúklega fyndin á opinskáan máta og kemur manni alltaf á óvart. Hún getur algerlega drepið mann úr hlátri. Sverrir er meira útpældur. Hann er með svo beittan og svartan húmor, góðar tímasetningar líka. Ég held bara að hann sé fyndnasti maðurinn á landinu án þess að hann sé nokkuð að leggja á sig til þess.

Sverrir gerði sína stuttmynd í fyrra, skrifaði handrit og leikstýrði og er nú að klippa. Ilmur lék í henni og ég náði seinni helginni til þess að aðstoðarleikstýra. En við höfum ekki unnið saman í stóru verkefni. Það kemur.

Ég á afskaplega fallega bernskumynd af Ilmi og Sverri sitjandi í tröppunum á Óðinsgötu 6, þar sem við ólumst upp. Þau sátu mikið þarna og spekúleruðu. Það er eins og allar myndir af þeim hafi verið teknar í sól, því þau eru alltaf grettin, stundum tannlaus, stundum skítug og stundum fín, en alltaf grettin og sæt. Ég verð alltaf svo glöð í hjartanu þegar þessar myndir koma upp í hugann.

Við erum sögð mjög ólík í útliti; ég er í mömmu ætt, Ilmur eins og snýtt út úr nefinu á pabba og svo er Sverrir með allt það bezta frá báðum.“

Ilmur

Ilmur var nýkomin í frí frá æfingum á söngleik um Janis Joplin sem sýndur verður í Íslensku óperunni í haust. „Janis er æðisleg,“ segir Ilmur sem fer með hlutverk Janis á móti Bryndísi Ásmundsdóttur, skólasystur sinni úr leiklistarskólanum.

„Ég man mjög vel eftir Lísu, stutthærðri og í fótboltagalla að banna mér að vera með sér og vinum sínum. Hún var svona svolítill stelpustrákur í sér, nagli og alltaf í fótbolta. Hún hataði bleikt! Stundum varð hún að taka mig með í eina krónu, fallna spýtu, og hún var ekki hrifin. Hún var svona tíu, ég sex og Sverrir fjögurra ára. Ég man líka vel eftir Sverri að dunda sér eitthvað: Það fór afskaplega í taugarnar á mér hvað hann gat dundað með bílabrautina sína. Auðvitað öfundaði ég hann bara af því hvað hann var sjálfum sér nógur. Ég stillti mér oft upp í dyragættinni og reyndi að trufla hann. Stundum dró ég hann með mér til að stríða Lísu, kenndi honum hvað hann ætti að segja og svoleiðis. Mér fannst við alltaf góð saman, þótt efalaust hafi ég stundum verið honum erfið stórasystir eins og Lísa var mér.

En hún var alltaf góð við mig og passaði upp á mig. Einu sinni í Danmörku var einhver stelpa að stríða mér í skólanum. Ég sagði Lísu frá þessu og daginn eftir mætti hún í öllu sínu veldi, ég benti á stelpuna og Lísa kinkaði kolli með ógurlegum svip. Eftir það var ég látin í friði.

Við Sverrir vorum á sama skóladagheimili, þegar við bjuggum í Danmörku. Einu sinni missti hann tönn í skólanum og það var stórmál fyrir hann að segja frá þessu þegar heim kom. Þá stríddi ég honum á því alla leiðina heim að ég myndi kjafta þessu í mömmu og pabba og svo tók ég sprettinn síðasta spölinn og öskraði í dyrunum: Sverrir missti tönn! Sverrir missti tönn!

Þegar ég hugsa um það þá kann Lísa örugglega margar sögur af því að ég hafi opinberað leyndarmál hennar við matarborðið. Það er sennilega rétt hjá þér. Ég hef verið svolítil bestía í mér á þessum árum. En nú er ég vaxin upp úr öllu svonalöguðu – skyldi maður ætla.

Við Sverrir vorum góðir vinir og lékum okkur mikið saman. Svo rifumst við eins og systkinum einum er lagið. Það er annars merkilegt hvað systkini geta rifizt. Maður rífst ekki við neinn eins og systkini sitt, þetta eru miklu heiftugri deilur en annars. Þegar ég var 16 ára og Sverrir 14 rifumst við alveg heiftarlega og ég henti fötunum hans út um gluggann. Ég skammaðist mín svolítið fyrir og eftir þetta man ég ekki eftir rifrildi okkar í millum.

Við vorum komin yfir gelgjuna og í MH. Þar var ekkert bekkjarkerfi svo við Sverrir vorum saman í tímum. Sigurður Hjartarson talaði mikið um systkinakærleik í Suðurlöndum og einu sinni þegar ég var veik og Sverrir skrópaði, þá gaf Sverrir þá skýringu á fjarveru sinni að hann hefði verið að hugsa um mig. Það féll náttúrlega fullkomlega inn í myndina um systkinakærleikinn.

Það má eiginlega segja að Lísa hafi komið aftur inn í hópinn eftir tvítugt. Hún var á undan okkur í MH, en eftir menntaskólann urðum við einhvern veginn öll jafnaldrar aftur og systkinakærleikurinn blómstraði.

Það var náttúrlega talsverður aldursmunur á okkur þegar hún sagði mér að hún hefði kysst einhvern strák. Ætlarðu þér að vera gleðikona eða hvað? spurði ég sárhneyksluð. Svo fór ég að kyssa stráka líka og þá breyttust nú viðhorfin örlítið.

Við erum mjög náin í dag, eigum hreinskilið og hlýtt samband. Í raun er það tilviljun hvað störf okkar liggja nálægt hvert öðru. Það er eins og einhver sé að benda okkur systkinunum á að stofna fyrirtæki. Það má vel vera að við gerum það einn góðan veðurdag.

Við vorum mikið að vesenast í félagsmálunum í MH. Við systurnar vorum frammí, en hann meira baksviðs, sá um allar græjurnar. Leiklistin tók svo mikið af tíma mínum að ég var spurð hvort ég ætlaði að slá öll kæruleysismörk við námið. Lísa og Sverrir höfðu betri stjórn á hlutunum. En við höfum öll ríkan vilja til þess að vera með, en erum mismunandi opinská í því eins og öðru. Eins og til dæmis þetta viðtal. Ég sagði strax jájá. Lísa hefur viljað vita eitthvað um það sem stóð til. Og Sverrir hefur spurt: Eru þær búnar að samþykkja þetta systurnar? Var það? Gekk það akkúrat svona fyrir sig? Ég vissi það!

Okkur finnst mjög þægilegt að vera saman þótt við komum kannski á eitthvað ólíkum forsendum. Okkur finnst gott að vera öll þrjú og notalegt að vera í einni hrúgu með krökkunum.

Hérna áður fyrr gerði ég nokkur jólagrín, sem ylja mér ennþá þegar ég rifja þau upp. Einu sinni sendi ég jólakort á nöfn okkar systkinanna með jólakveðjum og þökkum frá Elínu og Guðmundi. Ég skemmti mér alveg konunglega þegar fjölskyldan fór að ræða hvaða fólk þetta væri og smám saman þóttust allir þekkja eitthvað til þeirra. Það lá við að Elín og Guðmundur væru orðin heimilisvinir þegar jólunum lauk.“

Sverrir

Samtal okkar Sverris frestaðist vegna fæðingar dóttur hans. Daginn eftir mæltum við okkur mót á Mokka. „Það er bezt að hitta þig á sama stað og systurnar,“ sagði hann.

„Ég man bezt eftir Ilmi sem leikfélaga, hún var nær mér í aldri og mikill systkinarígur með okkur. Lísu man ég eftir meira sem fyrirmynd. Við Ilmur vorum meira í hárinu hvort á öðru og hún þá meira í mínu en ég í hennar. Hún var líka svo stríðin. Hún var mest í þeim pakka að stríða okkur Lísu á víxl.

Við ólumst upp á Óðinsgötu 6, fluttum til Danmerkur í tvö ár, komum heim aftur á Kjartansgötuna, fluttum aftur á Óðinsgötuna, þar sem við teljum okkar æskuheimili. Lindargatan var svo meira tengd unglingsárunum.

Hér í hverfinu lékum við okkur á götunni. Við vorum mikið í því að finna leiðir um Þingholtin. Svo klifruðum við upp á húsþök, lékum okkur á þakinu á Hótel Holti og kölluðum til fólksins fyrir neðan. Lísa var ekkert í þessum heimi með okkur, hún var alltaf svo mikil stóra systir. En einhvern veginn tókst henni alltaf að vita af okkur og rétta okkur hjálparhönd þegar við þurftum á henni að halda.

Ég átti auðvelt með að vera sjálfum mér nógur, en Ilmur vildi alltaf vera þar sem fólkið var. Hún fór seint að sofa á meðan ég fór upp í herbergi og dundaði mér fram að háttatíma. Og þegar ég var að leika mér að einhverju og Ilmi leiddist þá linnti hún ekki látum fyrr en hún hafði haft leikfangið af mér. Hún var ákaflega brögðótt og útsjónarsöm við að fá sitt fram og ég var alltof gjarn á að láta undan henni.

Við gerðum samninga þegar við vorum lítil. Einn gekk út á það að ég ætti að klæða hana í sokkana það sem eftir væri ævinnar og hún lét mig gera þetta nokkrum sinnum. Hins vegar man ég ekki hennar hlut. Hann hefur ekki verið upp á marga fiska og ég man ekki til þess að hún efndi neitt. En hún var frábær félagi og fyndin og það var svo miklu, miklu oftar gaman hjá okkur en hitt.

Við Ilmur vorum saman í menntaskóla og þekktum þá meira og minna sama fólkið, en Lísa var það langt á undan okkur að það var eiginlega ekki fyrr en eftir menntaskólann að við urðum vinir á jafnréttisgrundvelli.

Eina sögu um okkur Lísu læt ég flakka hér: Ég var c.a. 13 ára, nýbyrjaður að glamra á gítar og Lísa var að halda partý á neðri hæðinni á Lindargötunni. Ég veit ekki alveg hvort hún var svona stolt af mér eða hvort hana langaði bara að gera grín að mér, en hún kallaði mig niður og lét mig spila Stairway To Heaven fyrir allt partýið, sem var eina lagið sem ég kunni á gítar. Ég gerði það samvizkusamlega, allar 7 mínuturnar, án þess að syngja orð á meðan vinir mínir hlógu að mér á hæðinni fyrir ofan. Það er ennþá talað um þetta í mínum vinahópi. Það má kannski bæta því við að ég var frekar bólugrafinn á þessum tíma.

Jafnréttisvináttan byrjaði hjá stelpunum og svo bættist ég í hópinn. Þetta er ákaflega gott samband og gjöfult þegar bernskuhamurinn er fallinn af því. Þær tengdust líka enn betur gegnum börnin og nú hef ég náð þeim á því sviði líka.

Ég á svolítið bágt með að gera mér grein fyrir því, hvort systur mínar hafi haft einhver áhrif á starfsval mitt. Ilmur var mjög virk í leiklistarlífinu í MH og fyrir hennar orð gerði ég eina tilraun á sviðinu, það var í Macbeth. Ég fann strax að leikurinn átti ekki við mig, en ég var í stjórn leikfélagsins og fann mig betur í reddingunum baksviðs. Svo vann ég sem ljósamaður í Loftkastalanum með menntaskólanum og eftir það þangað til ég fór út í kvikmyndanám. Það má vel vera að Lísa hafi haft einhver áhrif þar, en þegar ég lít um öxl finnst mér satt að segja ég hafa verið sjálfs mín herra, þótt við höfum öll endað í störfum ekki ýkja fjarri hvert öðru. Þetta hefur verið einhver tilviljanakennd keðjuverkun.

Nú erum við eins konar kollegar og höfum verið vinir eftir að við fórum að standa á eigin fótum. Það er svo bara bónus að við skulum vera systkini.

Jú, ég sé stundum litlu stelpurnar í systrum mínum. Ilmur er alltaf jafnlúmsk við að ná sínu fram og Lísa er alltaf stóra systirin, sem tekur umsvifalaust að sér umsjónarhlutverkið þegar eitthvað stendur til.

Þær lögðu mér báðar lið við fyrstu stuttmyndina mína. Það var ótrúlega gaman þegar við vorum öll þrjú í settinu. Ég bar svolítinn kvíðborga fyrir þeim hlutverkaskiptum okkar Ilmar að ég ætti að leikstýra henni, en hún er svo mikil fagmaður að það gekk glimrandi. Og það var mjög eðlilegt að Lísa kæmi inn sem aðstoðarleikstjóri og héldi utan um allt saman. Reyndar var allt okkar samstarf fyrst og fremst fagmennska, en það fylgdi því notaleg tilfinning að vera líka að vinna með systrum mínum.

Ég er búinn að klippa myndina og er að byrja á hljóðvinnu núna. Þær eru drjúgar eftirsleikjurnar en ég vona að myndin komi fyrir augu fólks í sumar. Hún heitir Reyndu aftur.

Við systkinin? Við reynum örugglega aftur. Við höfum oft talað um að það væri gaman að gera eitthvað saman og eftir þetta er ég viss um að við látum verða af því.

Við erum góð í því að gefa hvert öðru jákvæða orku þegar á þarf að halda. Þess vegna er það svo gefandi þegar við erum saman. Ég sæki mikið til þeirra í mismunandi aðstæðum. Þær umvefja mig kærleika, en svo tekur Ilmur af skarið, hristir mig og segir mér að taka mig saman í andlitinu og halda áfram.“

Lísa Kristjánsdóttir fæddist 18. marz 1974. Hún varð stúdent frá MH 1994 og eftir námskeið við Kvikmyndaskóla Íslands 1997 hefur hún unnið við kvikmyndagerð og umsjón með kvikmyndatökum. Hún hefur unnið mikið með Baltasar Kormáki, síðast sem aðstoðarleikstjóri við kvikmyndirnar Mýrina, Reykjavík-Rotterdam og Brúðgumann. Hún skipaði 7. sætið á lista Vinstri grænna í Reykjavík norður við alþingiskosningarnar í fyrra. Hún er tveggja barna móðir.

Ilmur Kristjánsdóttir fæddist 19. marz 1978. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1998 og fékk BFA-gráðu frá leiklistardeild LHÍ 2003. Strax að loknu námi fékk Ilmur hlutverk Línu Langsokks í Borgarleikhúsinu og hefur síðan leikið á sviði; m.a. í Belgísku Kongó, Ausu Steinberg, Sölku Völku, Ófögru veröld og Ivanov, í sjónvarpsþáttum; m.a. Stelpunum, og kvikmyndum; m.a. Dís og Brúðgumanum. Ilmur á eina dóttur.

Sverrir Kristjánsson fæddist 25. apríl 1980. Hann varð stúdent frá MH 2000 og stundaði kvikmyndanám í Danmörku, sem hann lauk 2003. Hann hefur síðan unnið við að klippa kvikmyndir; m.a. Börn, Foreldra, Kalda slóð og Astrópíu, og sjónvarpsþætti; m.a. Stelpurnar og Næturvaktina og er að klippa Dagvaktina núna. Sverrir er kvæntur Dimitru Drakopoulou og eiga þau eina dóttur.

Foreldrar þeirra Lísu, Ilmar og Sverris eru Margrét Sigurðardóttir ferðamálafræðingur og Kristján Guðmundsson framhaldsskólakennari.

freysteinn@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.