17. júní 2008 | 24 stundir | 344 orð | 1 mynd

Lada Sport

Ekkert sport að vera í Lödu Sport

Rokkhljómsveitin Lada Sport lést í gær af völdum langvarandi rokkleiða. Sveitin leystist upp í einingar sínar eftir tónleika á Organ í gærkvöldi. Liðsmenn ætla allir að halda áfram að búa til tónlist, ýmist með sólóverkefnum eða hljómsveitum.
Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@24stundir.is

Saga Lödu Sport er afskaplega týpísk í íslenskri rokksögu. Menntaskólavinir stofna hljómsveit vegna þess að þeir hafa ekkert betra að gera. Taka svo þátt í Músíktilraunum og gengur sæmilega. Spila við hvert tækifæri sem býðst, semja ný lög í hverjum mánuði og eyða öllum peningunum sínum í að hljóðrita afurðina. Stærsti sigurinn er þegar eitt laganna fær spilun á X-inu og heimsóknarfjöldi á MySpace eykst. Við þetta kemur inn nýr eldmóður í sveitina sem skilar af sér fantagóðri plötu, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fer algjörlega undir radarinn.

Það er akkúrat á þessum tímapunkti sem sveitir annaðhvort styrkjast eða brotna. Lada Sport bræddi úr sér og engum þótti nægilega vænt um kaggann til þess að fara með hann á verkstæðið.

Ætluðu að vinna plötu í sumar

Það vakti athygli að Lada Sport spilaði nokkur lög á tónleikunum í gærkvöldi, er hvergi hafa komið út.

„Við eigum ný lög sem við vorum byrjaðir að taka upp,“ segir Haraldur Leví Gunnarsson, trommuleikari Lödu Sport og annar stofnandi, sem hefur ákveðið færa sig yfir í popptónlistina. „Við tókum þessa ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum og ætluðum ekkert að halda lokatónleika. Okkur bauðst svo að spila þarna.“

Haraldur viðurkennir að dræmar móttökur á annars stórkostlegri frumraun þeirra, Time and Time Again, hafi vissulega sett strik í reikninginn.

„Okkur fannst platan okkar ekki fá eins mikla athygli og hún átti skilið. Við áttum von á meiru, og það spilar kannski töluvert inn í þessa ákvörðun. Við ætluðum að taka upp nýja plötu í sumar og vorum búnir að ráða John Goodmanson, sem hefur m.a. unnið með Death Cab for Cutie og Nada Surf, til þess að vinna með okkur. Svo bara hættum við áður en það gerðist.“

Haraldur trommar nú með poppsveitinni Lifun, Stefnir vinnur sólóplötu í rólegheitum og Jón Þór er liðsmaður í rokksveitinni Dynamo Fog.

Í hnotskurn
Stofnuð árið 2003 í bílskúrnum þar sem hún lék aðallega lög eftir Weezer. Endaði í 2. sæti Músíktilrauna 2004 með frumsamin lög og gaf út þröngskífu í 200 eintökum. 2007, gáfu fyrstu og einu breiðskífu sína.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.