17. júní 2008 | 24 stundir | 229 orð | 1 mynd

Varað við notkun flipflop-sandala

Faraldur skaðlegs skófatnaðar

Samtök bandarískra fótmeinasérfræðinga sendu nýverið frá sér tilkynningu þar sem varað er við of mikilli notkun svokallaðra flipflop-sandala.
Samtök bandarískra fótmeinasérfræðinga sendu nýverið frá sér tilkynningu þar sem varað er við of mikilli notkun svokallaðra flipflop-sandala. Segja samtökin að skórnir geti til dæmis valdið sýkingum og sárum á milli tánna auk þess sem hægt sé að misstíga sig alvarlega í þeim.

Flipflop-sandalarnir eru ekki síst vinsælir á Norðurlöndum, en í Noregi sá sjúkranuddarinn Terje Haugaa ástæðu til að benda fólki á aðra skó sem líklega væru skaðlegri. Þótt sandalarnir séu ekki sem bestir þá séu aðrir vinsælir skór líklega mun verri.

„Ef þú finnur fyrir sársauka þegar þú notar sandala þá einfaldlega hættirðu að nota þá. En það eru til skór sem skapa enga vanlíðan til skamms tíma og eru þó mun varasamari. Sem dæmi má nefna Crocs-skóna. Þeir dempa of mikið og það getur verið alveg jafn slæmt og skór sem dempa of lítið. Getur það t.d. haft mjög slæm áhrif á hnén. Þeir eru kannski í lagi til húsverka og slíks en alls ekki til vinnu.“

Forstjóri Crocs í Noregi, Rikka Schuett, er ósammála þessu.

„Eins og sjá má á vefsíðunni okkar þá laga Crocs-skórnir sig að fætinum og gefa manni því góða stöðu. Auk þess eru punktar á þeim sem auka blóðflæðið.“

Haugaas segir þá að mikilvægast sé að fólk noti skynsemina og velji sér skó við hæfi. Eigi það sérstaklega við um vinnuskó enda eyði margir 60 til 70% dagsins í þeim. hj

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.