24. júní 2008 | Minningargreinar | 1796 orð | 1 mynd

Ágúst George

Séra Ágúst George fæddist í þorpinu Wijlre í Limburg-héraði í Hollandi 5. apríl 1928. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík að morgni 16. júní.

Sr. George var hinn fimmti í hópi sex systkina og lifir hann ein systir. Hann gekk í drengjaskóla Montfortreglunnar í Schimmert og síðar í prestaskóla reglunnar í Oirschot í Hollandi. Hann vígðist til prests 11. mars 1956.

Sr. George var sendur til Íslands þá um haustið og starfaði hér óslitið síðan, rúmlega hálfa öld. Hann fór fljótlega að kenna við Landakotsskóla og tók við stjórn skólans árið 1962 og stýrði honum í 36 ár. Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, veitti honum hina íslensku fálkaorðu árið 1994 fyrir störf að fræðslumálum. Frá árinu 1969 var séra George jafnframt staðgengill Reykjavíkurbiskups. Meðan biskupslaust var hér á landi árin 1986-1988 og 1994-1995 stýrði hann biskupsdæminu sem postullegur umsjónarmaður þess. Frá árinu 1998 var hann einnig fjármálastjóri biskupsdæmisins.

Sr. George verður sungin sálumessa í Kristskirkju í Landakoti í dag og hefst hún klukkan 14.

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi háðgjarnra, heldur hefur yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá vatnslækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki, og allt, er hann gjörir, lánast honum.

Þetta fyrsta vers úr Davíðssálmum finnst mér lýsa vel séra Ágúst George sem verður jarðsunginn í dag.

Það er erfitt að hugsa sér kaþólska söfnuðinn á Íslandi án öndvegismannsins sr. Georgs. Ungur kom hann til Íslands frá Hollandi árið 1956, nýútskrifaður úr prestaskóla Montfort-reglunnar, og segja má að það hafi orðið köllun hans að þjóna Íslendingum til dauðadags. Hann tók við skólastjórastöðu Landakotsskóla árið 1964 og í hugum allra sem til þekktu varð sr. George og Landakotsskóli eitt og hið sama. Rekstur lítils einkaskóla án ríkisstyrkja var mjög erfiður á Íslandi á þessum árum en öll skólastjóraár sr. Georgs bar engan skugga á rekstur skólans. Vegur skólans óx svo eftir var tekið. Hann naut sín vel í þessu vandasama og annasama starfi og einkunnarorð hans voru „kærleiksríkur agi“ og kristilegt hugarfar. Jafnhliða skólastjórastarfinu sá hann um rekstur á sumarbúðum kaþólskra í Riftúni í Ölfusi með dyggri aðstoð Margrétar Muller, þáverandi kennara við Landakotsskóla, en samstarf þeirra var alla tíð gæfuríkt.

Vinnutími kaþólskra presta er ekki frá 8 til 4 heldur þurfa þeir að vaka yfir velferð sóknarbarna sinna allan sólarhringinn. Sr. George sinnti nemendum sínum af sömu skyldurækni. Ævinlega þegar upp komu veikindi eða aðrir erfiðleikar hjá nemendum hans í Landakotsskóla var hann boðinn og búinn til að veita styrk og stuðning á erfiðum tímum. Í alvarlegum veikindum mínum fyrir nokkrum árum var það hughreystandi að finna hlýhug og heitar bænir sr. Georgs fyrir heilsu minni og fjölskyldu minnar.

Ég var einn þeirra fjölmörgu sem áttu því láni að fagna að njóta leiðsagnar séra Georgs sem nemandi Landakotsskóla frá upphafi skólagöngu til 12 ára aldurs. Á þessum árum dvaldist ég öll sumur í Riftúni en þar vakti séra George yfir velferð barna í áratugi með föðurlegri umhyggju. Tvö fyrstu sumrin sem ég dvaldist í Riftúni starfaði móðir mín þar. Frá dvöl minni í Riftúni á ég margar af mínum bestu bernskuminningum. Ég minnist skemmtilegra fótboltaleikja sem séra Georg tók þátt í af ótrúlegri fótafimi og í minningunni jafnast á við snilld landa hans Hollendinga í Evrópumeistaramótinu sem nú fer fram.

Líf og ævistarf séra Ágústs Georgs er einstakur vitnisburður um góðvild og fórnfýsi í þágu hans sem öllu ræður. Vitnisburður um kærleika, óeigingirni og elsku til náungans. Kaþólska kirkjan og söfnuðurinn stendur í ævarandi þakkarskuld við framlag hans til kirkju- og safnaðarstarfsins í meira en hálfa öld.

Jón Baldur Lorange.

Nú er lokið ævi eins áhrifamesta prests kaþólsku kirkjunnar á Íslandi í hálfa öld. Manns sem bað Guð um að sýna sér þann veg, sem hann ætti að ganga og hlýddi, jafnvel þegar áætlanir Guðs fóru í þveröfuga átt við það sem hann hefði helst kosið. Eftir prestvígslu í Hollandi stóð hugur hans til að starfa í Afríku. Af heilsufarsástæðum gekk það ekki eftir, en hann var sendur til Íslands. Fyrir hlýðni hans þakka margir í dag. Hér á ég við séra George. En hvað var það sem gerði hann að einum mesta áhrifamanni kaþólsku kirkjunnar seinni hluta síðustu aldar? Hann fékkst ekki við fræðistörf, skorti hreinlega áhuga á að loka sig inni frá iðandi mannlífi og skrifa fræðibækur sem fáir hefðu lesið. Hvílíkur ávinningur fyrir þjóð okkar. Í stað þess beindi hann kröftum sínum að innri störfum kirkjunnar. Hann var staðgengill biskups til margra ára. Á rúmlega 50 ára ferli sem skólamaður, þar af tæpa fjóra áratugi sem skólastjóri Landakotsskóla, sem hann stýrði með miklum myndarbrag, jók hann og varðveitti hróður skólans og hlúði að honum svo um munaði.

Hann var fljótur að skilja, átti auðvelt með að setja sig í spor náungans og þótti afburðakennari. Hann hafði gott lag á nemendum, mestu óþekktarormarnir urðu sem bráðið smjör í höndum hans og þótt hann væri bæði tilfinninganæmur og geðríkur, hafði hann mikla stjórn á skapsmunum sínum og vitsmunum.

Séra George var gæddur óbilandi starfsorku, vinnugleði og framkvæmdasemi. Draumóramaður var hann ekki, lét hendur standa fram úr ermum og kom því í framkvæmd sem hann hafði dreymt meðan aðrir sátu hjá og gerðu sig ánægða með draumana. Séra George hafði góð tengsl út í þjóðfélagið, átti vini alls staðar. Einn aðall skapgerðar hans, var fordómaleysið og víðsýnin.

Hann var laus við allt sem kallað er helgislepja. Hann trúði á það góða í fólki, tók öllum vel sem til hans leituðu, hver svo sem lífsskoðun þeirra var, og afstaða til kristindómsins. Hann var einlægur trúmaður og svo gagntekinn af trú sinni að hún mótaði allt hans líf og gerðir. Hann hafði áhrif á marga með trú sinni, án þess að tala mikið um hana. Fórnfýsi hans og ósérhlífni var mikil. Hann breytti eftir kjörorðinu: „Öðrum fyrst, síðan sjálfur.“ En þannig var séra George. Hann þurfti ekki að tala til að láta í ljós skoðun sína, gat gert það með því að vera, horfa eða brosa, gat látið hlýða sér án þess að segja orð. Vistarverur gátu breyst þegar hann gekk inn, mannfjöldinn varð annar þegar hann kom. Slíkt er fáum gefið. Þessi falslausa mannúð og persónutöfrar gerðu séra George að óvanalegum manni og áttu stóran þátt í þeirri almennu hylli sem hann naut meðal fólks.

Og eflaust hefðu margir oft hugsað annað og gert annað og verra ef þeir hefðu aldrei kynnst séra George. Mest hefur þó þýðing hans verið fyrir líf þess mikla fjölda, sem kynntist honum og naut góðvildar hans og hjartahlýju.

Ég átti því láni að fagna að eiga vináttu hans. Það var stór gjöf. Ég var sóknarbarn hans og hann skýrði drenginn minn. Ég sat með honum í stjórn Caritas til margra ára og kynntist því vel mannkostum hans. Margir hafa haft áhrif á líf mitt og mótað það. Fyrsta tel ég foreldra mína sem gróðursettu barnatrúna sem mun aldrei visna. Einhvers staðar á lífsleiðinni lærði ég að elska Bach og hans tónlist. En fáir hafa haft djúpstæðari áhrif á trúhneigð mína en séra George, sem þó aldrei talaði við mig um trúmál.

Ég lýt höfði. Ég þakka Guði. Það gera þúsundir í dag.

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður Caritas á Íslandi.

Genginn er góður maður sem skilur eftir sig margar bjartar og góðar minningar í hugum þeirra sem eftir lifa. Séra Georg kom hingað til lands laust fyrir 1960 og gerðist fljótlega skólastjóri við Landakotsskóla sem hann stýrði af skörungsskap næstu áratugina. Hann var eitt sinn spurður að því í blaðaviðtali í hverju hann teldi aga vera fólginn. Hann svaraði því til að agi væri fólginn í því að neita sér um eitthvað til þess að ná settu marki. Landakotsskóli blómstraði undir stjórn hans og ríkar og merkilegar hefðir settu mark sitt á metnaðargjarnt skólastarfið. Presturinn og skólastjórinn bar hingað með sér sameiginlegan evrópskan menningararf sem nemendur höfðu gott af að kynnast og reyndist þeim ómetanlegt veganesti út í lífið.

Séra Georg sá lengi um kórstjórn í Landakotskirkju og gerði það eins og annað með myndarbrag.

Hann æfði líka messuþjónana og kenndi þeim siði og venjur við kaþólskt messuhald. Þar lærðum við aga og reglufestu.

Séra Georg var einstaklega ljúfur maður í allri viðkynningu, ákveðinn og fastur fyrir en átti líka auðvelt með að sjá hinar skoplegu hliðar tilverunnar.

Andlát hans bar brátt að en það lýsir hug hans að hann blessaði tugi lítilla krossa með ósk um að börnunum í skólanum yrðu gefnir þeir. Dóttursonur minn var svo heppinn að fá slíkan kross síðasta skóladaginn sinn á þessu skólaári. Þessi fallega gjöf verður vel varðveitt.

Að leiðarlokum vil ég þakka vini mínum hálfrar aldar kynni og allt sem hann hefur verið mér og mínum þennan tíma. Þakka skilning, þolinmæði og væntumþykju.

Fjölskyldu hans í Hollandi og öllum þeim sem honum tengdust sendi ég samúðarkveðjur og bið þeim guðs blessunar.

Hann hvíli í friði.

Einar Magnússon.

Í dag kveðjum við merkilegan mann með mjög stórt hjarta.

Séra Georg kenndi okkur stærðfræði og kristinfræði í Landakotsskóla og var á þeim tíma einnig skólastjóri. Nemendum skólans stóð til boða að fara í sumarbúðir á vegum skólans, þ.e. Riftún. Sumarbúðunum stýrði Séra Georg í mörg sumur ásamt Margréti Müller og gerðu þau það sérstaklega vel, af miklum áhuga og heilindum. Í því fólst mjög mikið óeigingjarnt starf og fórnfýsi þó svo að maður hafi ekki hugsað út í það sem krakki. Þetta var algjörlega ómetanlegur tími og við vorum gríðarlega heppin að fá að fara í Riftún í mörg sumur og eiga nú allar góðu minningarnar þaðan, borða ótrúlega góða matinn hennar Renate, leikir í búðunum, messur á sunnudögum, böll, að spila, vera í tjaldinu, kofanum eða á róluvellinum, drekka Kool-Aid í sólinni, vera við lækinn, leika sér í heyinu og síðast en ekki síst súkkulaðileikurinn vinsæli.

Mér þykir vænt um að George gat verið viðstaddur útför föður míns í haust. Það hafa eflaust verið fagnaðarfundir þegar þið hittust, þið sem höfðuð oft hist yfir kaffi og rætt um lífið, dauðann og hvað tæki við. Það var oft mikil stemning þegar horft var á heimsmeistara- eða Evrópukeppnir í sjónvarpinu í Riftúni og séra George hélt æstur með löndum sínum Hollendingunum.

Einnig þykir mér vænt um að þú, George, hafir alltaf spurt um það hvernig Erlingur yngri hefði það þegar þú hittir móður mína og að þið Margrét gáfuð honum gjöf þegar hann fæddist.

Bestu þakkir fyrir mig og mína, séra George, guð geymi þig.

Katrín Erlingsdóttir.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að

kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Hjördís Halldóra Benónýsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.