26. júní 2008 | Daglegt líf | 1143 orð | 8 myndir

Eplið og eikin

— Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Foreldrar nokkurra stúlknanna í íslenska landsliðinu í knattspyrnu voru afreksmenn í íþróttum.
Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir máltækið. Það kom upp í hugann þegar litið var á nöfn stúlknanna í landsliðinu í knattspyrnu, en foreldrar margra þeirra gerðu garðinn frægan sem afreksmenn í íþróttum á árum áður.

Margrét Lára Viðarsdóttir, íþróttamaður ársins 2007, ein skærasta stjarna landsliðsins og markadrottning á Evrópumælikvarða, er dóttir Viðars Elíassonar og Guðmundu Bjarnadóttur. Viðar lék í mörg ár með Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og fagnaði Íslandsmeistaratitli með liðinu árið 1979 og varð bikarmeistari 1981. Hann lék einnig með Víkingi um tíma. Guðmunda var liðtækur handboltamaður með Þór í Vestmannaeyjum. Bjarni Geir og Sindri, eldri bræður Margrétar, léku báðir knattspyrnu með ÍBV og Elísa Viðarsdóttir er í handboltanum og á leið á Norðurlandamót í Svíþjóð. Hún var 15 ára þegar hún lék fyrst með meistaraflokki ÍBV.

Dóra María Lárusdóttir, sem var „ógnandi á hægri kantinum“, svo vitnað sé í umsögn Morgunblaðsins um landsleikinn gegn Slóvenum síðasta laugardag, er dóttir Hildigunnar Sigurðardóttur og Lárusar Ögmundssonar, lögfræðings og skrifstofustjóra hjá Ríkisendurskoðun. Lárus lék um 60 leiki með meistaraflokki Vals í knattspyrnu og varð bikarmeistari með liðinu árið 1974.

Í KR eins og hún á kyn til

Guðrún Sóley Gunnarsdóttir leikur í hjarta varnarinnar með kvennalandsliðinu og þess utan með KR eins og hún á kyn til. Foreldrar hennar eru Sigrún Elísabet Einarsdóttir og Gunnar Guðmundsson, lögfræðingur. Gunnar lék með 18 ára landsliðinu í knattspyrnu á sínum tíma og síðan um 50 leiki með KR. Hann náði ekki að hampa Íslandsmeistaratitli frekar en aðrir knattspyrnu-KR-ingar á árunum frá 1968 til 1999. Bróðir Guðrúnar Sóleyjar er Guðmundur Reynir, sem leikur með meistaraflokki KR um leið og hann býr sig undir Ólympíuleika í stærðfræði.

Greta Mjöll Samúelsdóttir, Breiðabliki, á ekki langt að sækja hæfileika í íþróttum. Hún er dóttir Ástu B. Gunnlaugsdóttur, rekstrarstjóra Smárans og Fífunnar í Kópavogi, sem um árabil var ein mesta markadrottning íslenskrar knattspyrnu. Ásta lék 26 landsleiki og skoraði í þeim átta mörk. Faðir Gretu er Samúel Örn Erlingsson, sjónvarpsmaður með meiru, sem lék blak af krafti í mörg ár og varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari með Þrótti og HK.

Sif Atladóttir, leikmaður Vals, er dóttir Steinunnar Guðnadóttur og Atla Eðvaldssonar þess margreynda knattspyrnukappa með Val, KR og Dusseldorf svo aðeins þrjú liða hans séu nefnd. Ekki skal gleyma landsliðsferli Atla, en hann lék 70 landsleiki og skoraði í þeim átta mörk. Þá tók við þjálfun félagsliða og landsliða. Sonur Atla er Egill, sem leikur nú með Víkingi en áður m.a. með KR, Fram og Sindra. Þá hefur Sara Atladóttir leikið með yngri landsliðunum.

Tekið skal fram að um óvísindalega könnun er að ræða og ekki útilokað að fleiri afreksmenn sé að finna í foreldrahópnum. Því verður þó ekki á móti mælt að í kvennalandsliðinu eru afrekskonur sem mæta Grikkjum á Laugardalsvelli í dag, fimmtudag, klukkan 16:30.

Meiri líkur en minni

„ÞAÐ eru tvímælalaust meiri líkur en minni á að börn afreksmanna í íþróttum reyni fyrir sér á sömu braut,“ segir Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur aðspurður um hvort líkur séu á að börn feti í fótspor foreldra sinna í íþróttum.

„Góð fyrirmynd er ekki hvað maður segir, heldur hvað maður gerir og hvernig maður tekur á hlutunum. Ef foreldrarnir hafa verið í íþróttum og fengið mikið út úr því og þú alltaf haft það fyrir þér þá eykur það líkurnar á að viðkomandi feti í fótsporin,“ segir Jóhann Ingi.

„Við sjáum þetta í öðrum starfsstéttum. Ef foreldri er flugmaður eða flugfreyja þá heillast börnin oft af fluginu. Við getum eins nefnt lækna, lögfræðinga og viðskiptafræðinga. Við sjáum þetta alls staðar.

Hin hliðin er svo sú þegar foreldrarnir fara of langt og ætla sér að stýra og stjórna of mikið. Þannig geta börnin orðið fráhverf greininni. Ég tala nú ekki um ef foreldrarnir ætla að upplifa drauminn í gegnum börnin af hliðarlínunni. Það eru allar útfærslur til af þessu.

Hvað varðar afreksmennina þá er það klárlega þannig að góðar og sterkar fyrirmyndir, eins og íþróttafólkið, móta unga einstaklinga á jákvæðan hátt,“ segir Jóhann Ingi Gunnarsson.

Hollt og gott að alast upp í íþróttum

„ÞAÐ lifðu allir og hrærðust í íþróttunum hjá okkur,“ segir Viðar Elíasson fiskverkandi og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Hann og kona hans, Guðmunda Bjarnadóttir, eiga fjögur börn, sem öll eru eða voru virk í íþróttum. Þeirra á meðal er Margrét Lára, sem kosin var íþróttamaður ársins í fyrra.

„Þegar strákarnir og Margrét Lára voru að fara á þessi mót þá var fjölskyldan með. Það var hluti af okkar sumarleyfi að fara á völlinn, elta mót og leiki víða um land. Það segir sig sjálft að þetta smitar frá eldri krökkunum til þeirra yngri. Síðan voru strákarnir báðir og Margrét öll í meistaraflokki á sama tíma.

Við höfum alltaf rekið áróður fyrir því að það er mjög hollt og gott að alast upp í íþróttum. Agi frá þjálfara og að þurfa að taka tillit til annarra sem maður er að æfa og spila með er mikið uppeldislegt atriði að okkar mati. Ég hrósaði þegar vel gekk, en var líka gagnrýninn þegar mér fannst þau ekki standa sig,“ segir Viðar Elíasson.

Styðjandi en ekki stýrandi

„VIÐ sjáum það mjög víða að börn feta í fótspor foreldra sinna, en auk þess tökum við alveg sérstaklega eftir því ef börn fræga fólksins ná árangri á sama sviði,“ segir Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur aðspurður hvort algengt sé að börn afreksfólks í íþróttum nái sömuleiðis eftirtektarverðum árangri á íþróttasviðinu.

„Við sjáum þetta í knattspyrnunni í Englandi, við sjáum þetta í Danmörku þar sem Laudrup-bræður fetuðu í spor föður síns. Þetta er úti um allt,“ segir Einar Gylfi.

„Hér heima höfum við Arnar, Davíð og Bjarna, syni Viðars Halldórssonar í Hafnarfirði. Við höfum þá Sigurvinssyni frá Vestmannaeyjum og syni þeirra, þá Sigurvin og Ásgeir Aron. Af Akranesi koma Þórður, Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónssynir Þórðarsonar. Það væri lengi hægt að telja og væri sannarlega gaman að kanna hvort hægt sé að búa til tölfræðilega mælistiku sem sýndi þessi tengsl svart á hvítu,“ segir Einar Gylfi.

Á forsendum barnanna

Hann var spurður hvort umræðuefni og viðfangsefni á heimili hefðu ekki mótandi áhrif á börn.

„Viðar Halldórsson, alnafni FH-ingsins, gerði fyrir nokkrum árum rannsókn á afreksmönnum þar sem m.a. var spurt um hvatningu foreldra. Í svörunum var áberandi rauður þráður að foreldrar höfðu verið styðjandi, en alls ekki stýrandi. Áhuginn var samkvæmt því algerlega á forsendum barnanna. Á íþróttaheimilum er eflaust mikið talað um íþróttir frá barnæsku og það smitar út frá sér.

Mér finnst athyglisvert að a.m.k. fimm stúlkur í landsliðinu eigi afreksmenn sem foreldra. Ef það er haft í huga að fyrir 10-15 árum var ekki eins sjálfsagt og nú að stelpur færu í fótbolta. Þá spyr maður sig hvort eitthvað hafi verið í aðstæðum þeirra sem jók líkurnar á þessari þróun. Svo er það erfðafræðilegi þátturinn, en mjög margt af þessu afreksfólki er með fullkomna líkamsbyggingu og með metnað og skapgerð til þess að ná árangri í íþróttum,“ segir Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.