Í notkun 2011 Nýja byggingin verður 13.500 fm en tekið er tillit til hússins á Laugavegi 41 sem verður hugsanlega friðað. Í því verður kaffihús.
Í notkun 2011 Nýja byggingin verður 13.500 fm en tekið er tillit til hússins á Laugavegi 41 sem verður hugsanlega friðað. Í því verður kaffihús.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is TILKYNNT var í gær að +Arkitektar, með Pál Hjalta Hjaltason í forsvari, hefðu borið sigur úr býtum í samkeppni um hönnun Listaháskóla Íslands á Frakkastígsreitnum svokallaða.

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

TILKYNNT var í gær að +Arkitektar, með Pál Hjalta Hjaltason í forsvari, hefðu borið sigur úr býtum í samkeppni um hönnun Listaháskóla Íslands á Frakkastígsreitnum svokallaða. Vonast er til þess að skólinn hefji starfsemi sína í byggingunni haustið 2011.

Að sögn Jóhannesar Þórðarsonar, annars fulltrúa Arkitektafélags Íslands í dómnefndinni, er um að ræða eina flóknustu hönnunarsamkeppni sem hér hefur verið haldin en þarfagreiningin var afar umfangsmikil. „Lóðin er líka á viðkvæmum stað, í hjarta Reykjavíkur. Þá er mikill landhalli á lóðinni sem gerir þetta enn flóknara auk þess sem mikill lofthæðarmunur er milli rýma.“

Laugavegur 41 helst inni

Um er að ræða 13.500 fm á reitnum sjálfum auk 2.000 fm byggingar norðan Hverfisgötu. Húsin verða tengd saman með undirgöngum.

Jóhannes segir að nú hefjist vinna við að breyta deiliskipulagi á reitnum með tilliti til vinningstillögunnar. Hefja þurfi viðræður við borgina um byggingu á reitnum sem gæti tekið um sex mánuði. Að því loknu yrði farið í jarðvegsframkvæmdir og þá uppbyggingu hússins.

Á lóð LHÍ standa byggingar við Laugaveg 41, 43 og 45. Til stendur að flytja burt húsið nr. 45, sem er bárujárnsklætt timburhús, en rífa nr. 43, þar sem Vínberið er til húsa. Fyrir liggur tillaga um friðun Laugavegar 41 og tóku +Arkitektar tillit til þess og sniðu nýbygginguna í kringum húsið. „Við gáfum keppendum frelsi til að vinna úr þessu á þessari lóð miðað við þetta. Við skipuðum ekki keppendum fyrir, að taka hús eða halda húsum. Menn áttu að koma með tillögu að úrlausn á þessu verkefni á þessum reit í samræmi við þær aðstæður sem eru í dag og í samræmi við heildarborgarmyndina. Það held ég að hafi tekist vel í vinningstillögunni.“

Inniheldur listamiðstöð

Eins og sjá má á efstu myndinni fær gaflinn á Laugavegi 41 að halda sér að mestu leyti. „+Arkitektar gera húsinu í raun hærra undir höfði með því að hopa til baka með nýbygginguna. Þeir draga nýbygginguna til baka svo það myndast smá olnbogarými fyrir framan innganginn á húsinu.“

Á horni Laugavegar og Frakkastígs verður sýningarsalur þar sem hægt verður að sýna myndlist, hönnun og arkitektúr. Suðurhlið salarins verður úr stórum gluggum sem hægt verður að opna út á götu. Á Laugavegi 41 er gert ráð fyrir kaffihúsi sem hefur hurð út úr gaflinum og á torgið sem er aðalinngangur hússins. Í aðalanddyrinu er opið rými baðað dagsbirtu og þaðan má sjá meira og minna alla starfsemi skólans á efri hæðunum. Niðri verður listamiðstöð, opin almenningi.

Er himinsæll með nýja húsnæðið

„Það eru forréttindi að komast í húsnæði sem er smíðað sérstaklega fyrir okkur,“ segir Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands (LHÍ). „Þetta er stór áfangi fyrir skólann og verður meginbygging í íslenskri menningu. Þetta er listverksmiðja í miðborginni sem á eftir að hafa gífurleg áhrif á Íslandi.“

Hjálmar segist starfsemi skólans afar fjölbreytta en þar fer fram kennsla í fjórum listgreinum. Hann viti ekki um nokkurn listaháskóla í nálægum löndum sem búi yfir jafnmikilli fjölbreytni og LHÍ. Kennsla hefur hingað til farið fram á fimm stöðum en Hjálmar segir það breyta gríðarlega miklu fyrir skólann að komast undir eitt þak. Samvinna milli listgreina muni gjörbreytast og leysa nýja orku úr læðingi. „Það verður til meiri sprengikraftur í skólanum.“

Hjálmar segir að til standi að fjölga deildum, t.d. með stofnun kvikmyndadeildar. Þá mun hefjast kennsla á meistarastigi auk þess sem í undirbúningi er þverfaglegt nám.