Ragnar Böðvarsson fæddist á Langstöðum í Flóa 6. jan. 1920. Hann lést á Dvalarheimilinu Sólvöllum 21. júlí 2008. Foreldrar hans voru Böðvar Friðriksson, f. 7. mars 1878, d. 31. maí 1966, og Jónína Guðmundsdóttir, f. 18. júlí 1878, d. 13. október 1940. Systkini Ragnars eru Guðmundur, Friðsemd, Óskar, Lilja, Reynir og Guðlaug sem lifir systkini sín. Hinn 25. desember 1949 giftist Ragnar Margréti Elínu Ólafsdóttur, f. 24. júlí 1929, d. 25. febrúar 2003, foreldrar hennar voru Ólafur E. Bjarnason og Jenný D Jensdóttir. Börn Margrétar og Ragnars eru, Ólafur f. 18.10.1949, kvæntur Ásrúnu Jónsdóttur eiga þau 3 börn og 7 barnabörn, Jón Karl, kvæntur Snjólaugu Kristjánsdóttur, eiga þau 4 börn og 7 barnabörn og stúlka andvana fædd 3. sept 1962. Ragnar fluttist með foreldrum sínum til Eyrarbakka þegar hann var 3 ára og bjó þar til æviloka. Hann var til sjós, starfaði við fiskvinnslu en lengst af starfaði hann við smíðar.

Útför Ragnars fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag og hefst athöfnin kl. 14.

Nú er komið að leiðarlokum hjá Ragnari Böðvarssyni skáfrænda mínum, en Raggi eins og ég kallaði hann alltaf var giftur móðursystur minni, en hún lést fyrir nokkrum árum. Þau bjuggu alla mína bernsku í næsta húsi við mína fjölskyldu og var samgangur mikill þar á milli og var Raggi mér alla tíð mjög góður og vildi hjálpa mér sem barni og unglingi að verða fullgildur þegn. Alltaf hvetjandi þegar ég var að keppa í íþróttum og þá spurði Raggi mig alltaf hvernig hefði gengið og sagði svo: æfingin skapar meistarann. Eins átti ég margar ferðirnar í kompuna hans undir stiganum og fékk lánaðan lykil no. 15 þegar ég var að laga hjólið mitt, skilyrðið var að skila honum að notkun lokinni. Þegar ég varð eldri og fór að vinna bæði til sjós og lands var hann áhugasamur um hvernig gengi með aflabrögð og fleira og eins um brölt mitt í hestamennskunni og hvert ég hefði verið að þvælast í hestaferðum eins og hann orðaði það.

Raggi var alþýðumaður, vann alltaf hjá öðrum, tók ekki bílpróf, var trúr sinni pólitísku samfæringu, hafði ekki hátt en var fastur fyrir og lét ekki glamúr nútímans trufla sig við sín störf. Hann gerði ekki víðreist, ferðaðist eitthvað innanlands eins og aðstæður leyfðu en aldrei til útlanda. Eyrarbakki var hans staður, þangað flutti hann barn að aldri ásamt systkinum sínum, þar var hans lífshlaup við leik og störf. Raggi var afskaplega handlaginn maður, allt lék í höndunum á honum og vann hann lengi við smíðar og almennt viðhald. Snyrtimennska var honum líka í blóð borin og bar umgjörð í kringum húsið hans, Silfurtún, glöggt vitni um snyrtimennsku og áhuga hans og Möggu frænku minnar á að hafa fínt og notalegt í kringum sig.

Það var gott að fá að alast upp við að eiga annað heimili hjá Möggu og Ragga og eiga þar góða vini sem voru uppörvandi fyrir ungan dreng sem var að feta sín fyrstu spor í lífinu.

Takk Ragnar Böðvarsson.

Að lokum vil ég votta frændum mínum þeim Óla og Kalla og fjölskyldum þeirra samúð mína.

Ari Björn Thorarensen.