Pálína Freygerður Þorsteinsdóttir fæddist í Hellugerði á Árskógsströnd 12. apríl 1927. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 1. ágúst síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Þorsteins Þorvaldssonar frá Krossum á Árskógsströnd, síðar bónda í Hellugerði og Önnu Vigfúsínu Þorvaldsdóttur frá Hellu í sömu sveit. Pálína fluttist með foreldrum sínum og systkinum að fossi í Grímsnesi árið 1927, síðar fluttu þau að Gíslastöðum í Grímsnesi og er Pálína þar til heimilis uns foreldrar hennar bregða búi 1944 og flytja til Reykjavíkur. Pálína var yngst átta systkina, en þau eru öll látin. Elst var Snjólaug Björg, síðan Soffía Þóra, þá Vilhjálmur, Sigurþór, Garðar, Gunnlaugur og Þórgunnur.

Þegar Pálína flutti til Reykjavíkur vann hún við fiskvinnslustörf, en fluttist fljótlega aftur í sveitina og var þá hjá bróður sínum Garðari á Mosfelli, en gerðist síðan ráðskona á Seli í sömu sveit.

Árið 1952, 1. júní, giftist Pálína Óskari Ögmundssyni bónda í Kaldárhöfða í Grímsnesi, f. 2.6. 1923, d. 6.4. 1997, og bjuggu þau þar. Pálína átti sjö börn og eitt fósturbarn. Þau eru Guðlaug Birgisdóttir f. 1945, Lilja Kristín Kristinsdóttir f. 1950, Anna Soffía Óskardóttir f. 1953, Elísabet Óskarsdóttir f. 1955, Ragnheiður Óskardóttir f. 1957, Þorvaldur Óskarsson f. 1958, d. 2006, Snjólaug Halldóra Óskarsdóttir f. 1962 og fósturbarn Gunnlaugur Jónsson f. 1975.

Útför Pálínu fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan14.

Mamma mín, þar kom að leiðarlokum, lífsbókin upplesin og ævintýrið mikla úti. Ég fletti í huganum og fram streyma minningarnar, atburðir smáir og stórir.

Þú varst sérstæð kona, sterk með afbrigðum og leitaðir frekar lausna á vandamálum en að dvelja við vandann sjálfan. Þú varst á margan hátt á undan þinni samtíð, stolt og lést engan beygja þig, hreinlynd og heil. Vinnusöm varstu og veitti ekki af, því í mörg horn var að líta á stóru sveitaheimili. Þú varst jafnvíg að hreinsa úr murtunetum á ísköldum haustdegi og að hjálpa ám við burð, taka til hendinni í girðingarvinnu eða sauma föt á okkur krakkana. Víst voru dagarnir langir og annasamir, en samt fannst þú tíma til að skemmta smáfólki með þululestri og munnhörpuspili og ekkert var mikilvægara en að sinna gestum og gangandi.

Svo sem tíðkaðist naust þú ekki langrar skólagöngu og hefðir viljað hafa hana lengri. Fróðleiksfýsn þín fékk útrás við bóklestur og áttuð þið pabbi gott bókasafn. Þú áttir létt með skrif og varst hagmælt, eftir liggja ljóð og stökur sem bera listamannshuga fagurt vitni. Þú réðir krossgátur á dönsku og á sextugsaldri lærðir þú ensku, „bara til að halda heilanum starfandi“.

Í Kaldárhöfða voru efni oft lítil en þar var mikið líf, stórt og gestrisið heimili. Þú varst hestamaður og áttir margar góðar stundir með honum Sokka þínum sem þú fékkst í morgungjöf frá pabba, og síðar með Nökkva og Fána. Þú varst mikið náttúrubarn og naust útiveru og náttúrufegurðar. Þegar þið pabbi lögðuð niður búskap fékkst þú tíma fyrir draum þinn um trjárækt i Kaldárhöfðalandi. Trjáræktinni sinntuð þið saman, þú og pabbi, og voruð að réttu stolt af árangrinum. Annað áhugamál var ferðalög, bæði innanlands og utan. Við systkinin vorum þá oft með í för og þetta eru okkur minnistæðar stundir. Samt fannst ykkur alltaf best heima i Kaldárhöfða þar sem pabbi átti sitt æskuheimili og þú festir rætur sem ekkert fékk slitið upp.

Við andlát pabba sástu þig neydda til að flytja til Reykjavíkur yfir vetrartímann. Það voru sjálfsagt þung spor, „heima“ var alltaf í Kaldárhöfða. Síðar fluttir þú á Dvalarheimilið Ás í Hveragerði. Þar leið þér vel, blessaðir starfsfólkið fyrir nærgætni og sagðir okkur sögur af því hvað þú skemmtir þér vel. Þetta voru góð elliár sem þú áttir svo sannarlega skilið.

Á Ási eignaðist þú góðan vin og félaga, Þórhall Friðbjörnsson, og ákváðuð þið að létta ykkur ellina saman. Þórhallur reyndist þér með afbrigðum vel þegar heilsan fór að bila. Guð launi Þórhalli þínum fyrir alla hans umhyggju sem við systkinin fáum seint fullþakkað.

Þótt ferðum í Kaldárhöfða fækkaði þegar heilsan tók að bila og stigar urðu vandamál, áttir þú nokkrar góðar stundir þar í sumar. Síðast sast þú á stéttinni við húsið skömmu fyrir andlátið ásamt Þórhalli. Þú gerðir að gamni þínu, horfðir yfir blómagarðinn og skóginn og borðaðir silung.

Vertu sæl, mamma mín. Ég legg frá mér lífsbókina þína, hér hefur verið stiklað á stóru og margt er ósagt. Hvíl í friði.

Fyrir hönd systkinanna,

Elísabet Óskarsdóttir.

Þegar skörð eru höggvin í hjörtu manna, virðist ógjörningur að fylla upp í þau á nýjan leik. Þegar hún amma mín lést um daginn var stórt skarð höggvið í mitt eigið hjarta. Þetta skarð verður hins vegar fyllt af minningum. Minningum sem munu lifa og halda áfram að vera órjúfanlegur hluti af mér.

Ég og hún amma mín á Kaldárhöfða áttum margar yndislegar stundir saman. Alla tíð, frá því ég var lítill gutti, sóttist ég eftir því að vera í sveitinni hvenær sem mögulegt var. Kaldárhöfðinn var ævintýraheimur þar sem afi var kóngur og amma var drottningin. Sjálfum leið mér alltaf eins og algjörum prinsi, enda var farið með mig þar sem slíkan.

Ég fékk einhvernveginn alltaf áhuga á því sem bæði afi og amma voru að dunda við í sveitinni. Þegar ég var búinn að horfa á ömmu skera út hin og þessi meistaraverk í tré, fékk ég hana til að kenna mér örlítið í útskurði. Þegar ég var búinn að dunda með henni í garðinum og læra sem flest plöntunöfnin, fékk ég minn eigin pínulitla garð til að rækta. Svona gæti ég þulið upp flest sem amma tók sér fyrir hendur, alltaf vildi ég vera að gera það sama og hún. Þegar ég hugsa til baka sé ég auðvitað að ég hafði ekki svona mikinn áhuga á útskurði og blómarækt. Það var einfaldlega svo notalegt að dunda sér með henni ömmu, sem og skemmtilegt!.

Eftir að afi féll frá breyttist ævintýraheimurinn í sveitinni talsvert, en amma breyttist sem betur fer ekki neitt. Þær hafa verið ófáar heimsóknirnar til hennar síðan hún fluttist af Kaldárhöfðanum. Þannig fór ég að skilja að það var ekki bara ævintýraheimur sveitarinnar sem fékk mig til að líða svona vel heldur var það að stórum hluta félagsskapurinn sem yljaði mér. Ég gat setið tímunum saman með henni ömmu og notið samverunnar, oft ekki einu sinni að gera neitt sérstakt eða tala um eitthvað merkilegt. Við einfaldlega nutum þess að brosa saman og gleðja hvort annað.

Núna þegar hún amma er ekki lengur með mér á ég eftir að sakna þessa félagsskapar. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki lengur kíkt í heimsókn til hennar, vitandi það að ég fer hamingjusamur aftur heim. Ég á eftir að sakna þess að fá steikta klatta í sveitinni og soðinn silung. Ég á eftir að sakna kímninnar, stundanna sem við þögðum bara og brostum og þegar við ferðuðumst saman. Ég á eftir að sakna ömmu minnar alveg ógurlega. En í hvert skipti sem ég sakna einhvers af þessum fjölmörgu hlutum, þá veit ég að ég á alltaf minningar til að hugsa um og varðveita. Ég veit líka að þegar ég sakna ömmu sjálfrar, þá get ég hugsað til hennar hvar sem ég er staddur. Í hjarta mér er núna skarð sem er fullt af einstaklega dýrmætum minningum sem mér þykir afskaplega vænt um. Minningum um hana ömmu.

Óskar Páll Elfarsson.