Fjallaskáli Skálinn hefur fóstrað kynslóðir fjallafólks og aldrei brugðist.
Fjallaskáli Skálinn hefur fóstrað kynslóðir fjallafólks og aldrei brugðist. — Morgunblaðið/Kristinnn
HINN fornfrægi Tindfjallaskáli í eigu Íslenska alpaklúbbsins, ÍSALP, hefur nú verið fjarlægður úr fjallasal Tindfjalla upp af Fljótshlíð vegna viðgerða sem munu fara fram á höfuðborgarsvæðinu næstu misserin.

HINN fornfrægi Tindfjallaskáli í eigu Íslenska alpaklúbbsins, ÍSALP, hefur nú verið fjarlægður úr fjallasal Tindfjalla upp af Fljótshlíð vegna viðgerða sem munu fara fram á höfuðborgarsvæðinu næstu misserin. Segja má að skálinn sé kominn í „slipp“ og ráðgert er að flytja hann aftur upp í Tindfjöll í ágúst 2009.

Skálinn á sér merkilega sögu og var reistur á fimmta áratugnum af félagsskap sem nefndist Fjallamenn en þar var fremstur í flokki Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Félagsskapurinn lagðist af en í framhaldinu tók Alpaklúbburinn sem stofnaður var 1977 við skálanum. Í vetur sem leið fóru fram miklar umræður meða klúbbfélaga um ástand skálans og framtíð hans. Varð niðurstaðan sú að gera hann upp og hefur mikilvægum áfanga verið náð á þeirri braut með því að koma honum niður á láglendið.

Þrátt fyrir að vegslóði frá Fljótsdal, innsta bænum í í Fljótshlíð upp í Tindfjallaskála sé ekki fljótfarinn, gekk ferðin vel og sat skálinn hinn virðulegasti á vörubílspalli við flutninginn niður í Fljótshlíð. Höfðu menn á orði að burðarvirki hans væri augsýnilega hið vandaðasta þar sem húsið haggaðist lítt í hristingnum. Skálinn er nú geymdur í Mosfellsbæ en næstu verkefni eru að ljúka viðræðum um varanlegri stað, afla styrkja og hefja sjálfar smíðarnar. orsi@mbl.is

Í hnotskurn
» Tindfjallaskáli hefur í gegnum áratugina staðið af sér margt fárviðrið og veitt mörgu fjallafjólkinu skjól. Skálinn er orðinn vígamóður eins og skilja má og þarfnast aðhlynningar.
» ÍSALP hefur á að skipa fagmönnum sem munu vinna í sjálfboðastarfi að viðgerðum á skálanum.