Fagnaðarfundir Paul Ramses var ekki lengi að faðma að sér konu sína og barn í Leifsstöð í gær.
Fagnaðarfundir Paul Ramses var ekki lengi að faðma að sér konu sína og barn í Leifsstöð í gær. — Ljósmynd/Víkurfréttir
Eftir Andrés Þorleifsson andresth@mbl.is „FRIÐUR og að ég sé kominn aftur heim,“ sagði Paul Ramses aðspurður hvað hafi verið það fyrsta sem honum kom til hugar við komuna til Íslands í gær.
Eftir Andrés Þorleifsson andresth@mbl.is
„FRIÐUR og að ég sé kominn aftur heim,“ sagði Paul Ramses aðspurður hvað hafi verið það fyrsta sem honum kom til hugar við komuna til Íslands í gær. Fjölskyldumeðlimir og vinir biðu komu hans í Leifsstöð og ríkti mikil eftirvænting meðal þeirra. Paul felldi gleðitár við komuna til landsins og kyssti hælisleitandinn frá Kenýa konu sína. Að því loknu féll hann á kné og kyssti íslenska grund. Endurkomuna telur hann sigur fyrir íslenskt réttarkerfi, en viðurkennir að í fyrstu hafi hann verið fullur örvæntingar.

Hann lét illa af dvölinni á Ítalíu og sagðist hafa búið í 300 manna flóttamannabúðum við bágar aðstæður. Þá vandaði hann ekki sambýlingum sínum söguna. „Sumir þeirra voru frá löndum sem kunna illa við vestrænan lífsmáta. Þeir töluðu sífellt um hluti á borð við að sprengja sjálfa sig í loft upp. Það er almennt erfitt að búa með þeim sem setja það ekki fyrir sig að deyða aðra,“ sagði Paul, sem staðhæfði að hann hefði deilt herbergi með slíkum manni. Þá fannst hælisleitandanum ítölsk lögregluyfirvöld sýna sér hörku og fullyrti að ítölskum almenningi stæði almennt á sama um útlendinga og flóttamenn. Hann sagðist þakklátur Guði og öllum þeim sem studdu hann.

Í hnotskurn
» Paul Ramses er hælisleitandi frá Kenýa.
» Paul var sendur í flóttamannabúðir á Ítalíu í júlí eftir að Útlendingastofnun hafnaði því að taka mál hans til efnislegrar meðferðar.
» Í síðustu viku úrskurðaði dómsmálaráðherra aftur á móti að beiðni hans um hæli skyldi tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi.