28. ágúst 2008 | Minningargreinar | 3557 orð | 1 mynd

Ágústa Þorsteinsdóttir

Ágústa Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 17. apríl 1942. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut aðfaranótt 21. ágúst síðastliðins. Hún var dóttir hjónanna Þorsteins Kristjánssonar og Sigríðar Finnbogadóttur.

Eiginmaður Ágústu er Guðjón Þór Ólafsson. Börn þeirra eru Guðný Björk og Þorsteinn Þór.

Ágústa verður jarðsungin frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Hver maður finnur hvar hann er velkominn og hvar gott er að stinga niður fæti sé hann ekki uppfullur af sjálfum sér. Sjaldan hef ég fundið slíkan frið sem þann er var í kringum Ágústu á Kambsvegi allt frá því að ég kom þangað fyrst inn, né fundist ég annars staðar meira velkominn. Margar sögur og brandarar hafa fengið að hljóma um tengdamæður en enga þeirra hef ég skilið sökum þess að engin mannlýsing sem þar kom fram átti við Ágústu. Í henni kristölluðust mannkostir sem hver maður óskar sér að bera, hógværð samfara keppnisskapi, styrkur og þor, ásamt mikilli manngæsku, heiðarleiki, elja og dugnaður.

Svo mikill var dugnaðurinn að fullorðnir karlmenn áttu fullt í fangi með að hafa við henni í vinnu, þótt „karlmannsverk“ þætti, hvort heldur sem hún sauð pílára í hringstiga eða slípaði járn. Hún hafði gaman af því að koma til vinnu, klára verkið á tíma sem hver maður hefði verið stoltur af og tilkynna svo hlæjandi að þar sem hún hefði nú gelt hina væri hún farin. Ekkert að hanga yfir því litla sem eftir var, þeir hlytu að geta bjargað sér.

Hún var ekki eins og eldfjall, sem gýs oft og óvænt, heldur eins og lygn á sem rennur og þú finnur ekki hvaða kraft hefur að bera fyrr en út í er komið.

Varfærin var hún í skrefum sínum og stundum svo að mönnum þótti nóg um. Jafnlyndi hennar lýsir sér kannski best í veiðiaðferð þeirri er hún beitti í veiðivötnum og lét sér fátt finnast um glósur okkar Guðjóns. Þar sameinaði hún alla sína ástríðu í einu: Úti í íslenskri náttúru, í faðmi fjölskyldunnar, var stöng kastað með floti, stóll settur út og svo setið við með kaffi sér við hönd og stundarinnar notið, meðan flotið dormaði fyrir utan. Skipti engu hvernig veður var, svo lengi sem ekki pusaði. Oftar en ekki dugði þessi aðferð mun betur en okkar hinna sem börðum vatnið án afláts í óþolinmæði og óðum út og suður í leit að fiski.

Hún var hvers manns hugljúfi og stutt var í hláturinn enda undirliggjandi góðlátleg stríðni, sem menn fengu að kenna á þegar sá gállinn var á henni, og létti mönum lífið kæmu þeir þungir á brún í heimsókn.

Fjölskyldunni er mikill missir að Ágústu en í sorginni kristallast styrkur og samheldni sem hún hafði byggt upp með sínu jafnaðargeði.

Þó líði ár og dagar

mun styrkur þinn

bera okkur hin

til endurfundar

ein fjölskylda

handan fjallsins

sem speglast í skýjunum

Kristján Logason.

Okkur systurnar langar til að minnast Gústu, móðursystur okkar, með örfáum orðum. Það sem kemur fyrst upp er hvað hún var alltaf glöð, brosandi, jákvæð og heilsaði okkur alltaf fagnandi. Gústa var stór hluti af barnæsku okkar og við vorum hreyknar af henni frænku sem var þekkt sundkona og var kölluð „sunddrottningin“. Löngum stundum sátum við og skoðuðum úrklippubækurnar um afrek hennar og dáðumst að öllum verðlaunabikurunum og verðlaunapeningunum sem hún hafði fengið. Eins eigum við systurnar góðar minningar t.d. um ferðir í sveitina, sundlaugar og hjálp við enskulærdóminn. Margar ógleymanlegar gjafir fengum við frá Gústu og Guðjóni þegar þau komu frá útlöndum eins og t.d. dúkkurnar sem fengu nöfnin Gústa og Gauja eða leðurtöskurnar sem þau höfðu látið merkja með upphafsstöfum okkar.

Skorradalurinn var staður fjölskyldunnar og þar áttum við yndislegar stundir í vinnu og gleði með stórfjölskyldunni. Í mörg ár komu Gústa, Guðjón og afi á hestum í Skorradalinn þar sem við biðum spennt eftir komu þeirra því það var alltaf svo mikið líf og fjör í kringum þau. Á jóladag var venjan að hittast í Efstasundinu hjá afa og borða hangikjöt, spila eða bara lesa og spjalla saman.

Síðustu mánuði var Gústa mikið veik en samt heilsaði hún alltaf með bros á vör, kvartaði aldrei og vildi láta hafa sem minnst fyrir sér en þannig var hún, alltaf svo jákvæð.

Gústu verður sárt saknað en við eigum ógleymanlegar minningar um frænku sem var sönn hetja í hjarta okkar. Guð blessi minninguna um elsku Gústu.

Elsku Guðjón, Guðný, Stjáni, Steini, Lilja og fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur.

Sigríður Ásta og

Ágústa Lárusdætur.

Við kynntumst í Sundhöllinni, við Ágústa. Hún var þá orðin bezta sundkona landsins. Hún var Ármenningur og ég byrjaði minn æfingaferil þar, hjá Ernst Backman, sundþjálfara félagsins.

Næstu fjögur árin vorum við æfingafélagar og saman í íslenzka sundlandsliðinu. Árið 1960 náði hún ólympíulágmarki ásamt Guðmundi Gíslasyni og kepptu þau á Ólympíuleikunum í Róm það ár.

Við vorum vinkonur alla ævi, þrátt fyrir að hún hætti ung að æfa og keppa í sundi og að við værum búsettar fjarri hvor annarri alla tíð.

Fyrir þá vináttu vil ég þakka og sendi fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.

Hrafnhildur.

Nú stöndum við frammi fyrir því að kveðja hana Ágústu eða Gústu eins og við kölluðum hana. Við hjónin kynntumst henni – og í raun er ekki hægt að tala um hana án þess að tala um Gauja en þau eru gjarnan nefnd í sama orði – fyrir 20 árum þegar við tókum þátt í okkar fyrsta hjónamóti hjá Keilufélagi Reykjavíkur. Auðvitað vissum við hver hún var því að hún var mikil og fræg sundkona sem síðar fór að stunda keilu og gerði það svo vel að hún var sú sem maður leitaði til með fyrstu skrefin í okkar íþrótt. Hún var margfaldur Íslandsmeistari með liði sínu KFR-Afturgöngum og einnig margfaldur Íslandsmeistari einstaklinga. Nokkrar landsliðsferðir fórum við í saman og var það unun að vinna með henni því að hún var svo mikil keppnismanneskja og gafst aldrei upp. Eitt það sem ég kunni svo vel að meta í hennar fari var hversu vel hún gat miðlað til hinna í liðinu. Ekki ætla ég að tala um hennar veikindi hér heldur ætla ég að minnast allra góðu stundanna sem við áttum saman í gegnum árin en þær eru þó nokkrar.

Elsku Gaui, Guðný, Steini og fjölskyldur, Guð gefi ykkur styrk á þessari erfiðu stundu.

Theódóra og Þórir

(Dóra og Tóti).

Mig langar að kveðja samstarfskonu mína Ágústu Þorsteinsdóttur með nokkrum orðum.

Ágústa kom til starfa í dagþjónustuna við Lækjarás í byrjun árs 2004. Ágústa var einstök og vorum við heppin að fá hana í okkar góða starfsmannahóp. Ágústa hafði umsjón með eldhúsinu og má segja að það sé hjarta staðarins þar sem allir mætast og borða saman. Alltaf var gott að koma til Ágústu í eldhúsið, hún var mikill húmoristi og vel að sér í öllum málum og gaman að ræða við hana um öll heimsins mál. Hún var nú ekki að segja okkur samstarfsmönnum sínum frá eigin afrekum í íþróttum, því hófsemin var ríkjandi þegar kom að henni sjálfri. Ef Ágústa tók að sér verkefni kláraði hún það óaðfinnanlega. Ofarlega er í huga mínum keilumót sem Ás styrktarfélag hélt í byrjun sumars. Ágústa, sem náð hafði frábærum árangri í keilu, tók að sér að skipuleggja mótið en þá var Ágústa orðin veik en að biðjast undan eða hætta við var ekki til í hennar huga. Hún sá um mótið og fékk vinkonu sína sér til aðstoðar. Einnig var Guðjón eiginmaður hennar mættur til að aðstoða eiginkonu sína. Mótið heppnaðist vel og fóru þátttakendur ánægðir heim að loknu móti.

Ég votta Guðjóni, eiginmanni hennar, börnum og fjölskyldunni allri samúð mína um leið og ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast og vinna með Ágústu þessi ár. Góðar minningar eru bestu eftirmælin.

Laufey Elísabet Gissurardóttir, fyrrverandi forstöðuþroskaþjálfi í Lækjarási.

Erfitt er að setjast niður og skrifa um hana Gústu. Hún var ein af þeim fyrstu sem ég kynntist þegar ég byrjaði að stunda keilu í ársbyrjun 1988. Um haustið byrjaði ég ásamt fleirum í deildinni og stofnuðum við lið. Gústa var mjög ljúf og var fljót að koma og bjóða okkur velkomna og var alla tíð ein sú besta keppnismanneskja sem ég þekki. Ekki var Gaui langt undan en hann fylgdi Gústu sinni alltaf í keilusalinn þó svo hann hafi minnkað að spila sjálfur. Einnig var Gústa iðulega í keilusalnum þó svo hún væri ekki að keppa og fylgdist með. Hún gafst aldrei upp og var alltaf ákveðin í því að gera sitt besta og oft stappaði hún stálinu í mann ef illa gekk.

Þegar ég varð veik í haust þá var Gústa fljót að koma til mín og bjóða mér hjálp og aðstoð í mínum veikindum. Gústa var ein af föstu punktunum í keilusamfélaginu og verður erfitt að byrja tímabilið nú í haust án þess að Gústa sé með okkur. Takk fyrir góða viðkynningu, Gústa mín, og nú veit ég að þér líður betur þar sem þú ert og kannski takið þið leik þú, Solla og Birna.

Bið ég Guð að veita Gauja og fjölskyldu styrk á þessari stundu.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Unnur.

Venjulega fylgir tilhlökkun því að mæta í keilusalinn að hausti, hitta alla góðu vinina og félagana eftir sumarfrí og hefja nýtt keppnistímabil. Þetta haust verður frábrugðið – hún Gústa okkar er fallin frá og missirinn er mikill. Hún var afrekskona í keilu sem og öðrum íþróttagreinum sem hún lagði fyrir sig. Hún var kletturinn í liðinu okkar, sama hvað gekk á, róleg og yfirveguð og alltaf tilbúin til að leiðbeina ef hún sá að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Hún kláraði síðasta tímabil með okkur í vor með reisn og var alltaf tilbúin til að spila, þó svo að hún hefði kannski alls ekki heilsu til þess. Harkan var slík að aldrei mátti láta bera á því að eitthvað bjátaði á. Þannig var það fram á síðustu stundu – ef maður spurði hvernig hún hefði það var viðkvæðið: „Ég hef það bara gott“ eða „Þetta er allt að koma, ég er miklu betri í dag“.

Elsku Gústa, þín verður sárt saknað og erfitt verður að spila án þín í vetur. Þú varst hins vegar aldrei neitt fyrir vol og væl og við sem eftir erum reynum að taka þig til fyrirmyndar, harka af okkur og gera þig stolta af okkur. Við trúum því að þú komir við öðru hvoru og laumir góðum ráðum að okkur.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Gaui, Guðný, Steini og aðrir aðstandendur. Ykkar missir er mikill og við biðjum Guð að vaka yfir ykkur. Blessuð sé minning Gústu. Hvíl í friði, kæra vinkona.

Ragna, Jóna, Helga,

Ragna Guðrún og Heiðrún.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins

degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist

eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast

þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Með þessu fallega ljóði langar okkur að kveðja góða vinkonu. Okkur er orða vant, við höfum í áratugi ferðast saman vítt og breitt um landið. Við höfum veitt saman fiska og fugla, farið í ótaldar fjallaferðir og átt saman ógleymanlegar stundir. Við töldum okkur eiga svo mikið eftir að gera saman – en enginn veit sína ævi fyrr en öll er, hann er seigur þessi með ljáinn, hann er óútreiknanlegur. Kannski er þess vegna svo miklu erfiðara að sætta sig við það sem orðið er. Að mæra Gústu vinkonu, ég held við gerum það ekki, ef maður hældi henni þá leit hún venjulega niður og heyrði hvorki né sá. Hún hafði aldrei mörg orð um hlutina, en það sem hún sagði, það stóð. Hún hafði mikla og skemmtilega kímnigáfu, stundum kannski fullgráa að sumum fannst, en allt var það þó vel meint! Kannski við hittumst einhvern tíma hinum megin. Hver veit, þá yrði eflaust glatt á hjalla, en þangað til, allar góðar vættir lýsi veginn þinn eins og þar stendur. Við þekkjum ekki alla slóða, en þeir enda oftast í einum vegi. Upp hrannast óteljandi skemmtilegar minningar og þær getur enginn tekið frá okkur. Elsku Gaui, Guðný, Steini og aðrir aðstandendur, megi Guð gefa ykkur styrk í sorginni.

Minningin um Gústu lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Bjarni og Ragna.

Ágústa Þorsteinsdóttir, Gústa, var ein af mínum bestu og kærustu vinkonum og hún skilur eftir sig djúpt skarð sem seint verður fyllt. Hún var sérlega heilsteypt manneskja og bjó yfir miklum styrk. Hin löngu og góðu kynni okkar hófust í Ljósheimum 6 þar sem við Guðmundur bjuggum við hliðina á Gústu og Gauja manni hennar. Það var náinn samgangur milli heimilanna þar sem börnin léku sér saman og fullorðnir sameinuðust í gegnum áhugamálin, skíðin og síðar hestamennskuna. Það var stundum erfitt að sameina þessi áhugamál en við Gústa hugsuðum okkur í gamni að það væri hægt að fara á skíði fyrir hádegi, fara heim og elda sunnudagssteikina og fara svo á hestbak eftir hádegi. Þannig áttu bæði skíðamennskan og hestamennskan hug okkar allan og fjölskyldurnar fóru saman í Kerlingarfjöll þar sem við nutum útverunnar í faðmi fjallanna. Við áttum góðar stundir á hestbaki, bæði í nágrenni Reykjavíkur og í fallegri náttúru landsins þar sem við upplifðum mörg ævintýrin í óbyggðum. Margt var brallað í þessum ferðum sem og við önnur tækifæri og eru minningarnar ljúfar. Er þá einnig að minnast ógleymanlegra utanlandsferða fjölskyldnanna. Fjölskyldurnar héldu góðu sambandi þótt báðar flyttu úr Ljósheimunum. Við vorum í staðinn nágrannar í hesthúsunum, þar sem gott var að eiga þau að, ekki síst Gústu sem var mikið hörkutól og alltaf gott að leita til.

Ég minnist Gústu ekki síst fyrir styrk, jafnaðargeð og ljúfa lund. Hún kvartaði aldrei, gekk heldur til allra verka með jafnaðargeði og allir þessir kostir hennar birtust ekki síst í umhyggju hennar fyrir Þorsteini föður sínum. Í veikindum hennar sýndi hún mikið æðruleysi og tíminn sem henni var gefinn var því miður of stuttur. Með þessum orðum viljum við Guðmundur og strákarnir þakka allar yndislegu samverustundirnar á liðnum árum og við vottum Gauja, Guðnýju, Steina og öðrum fjölskyldumeðlimum innilega samúð. Mikill söknuður fyllir hug okkar og hjörtu nú, en við yljum okkur við minninguna um þessa góðu vinkonu og samverustundirnar með henni.

Megi góður Guð gefa ykkur styrk til að takast á við sorg ykkar og missi.

Katrín Stella Briem.

Kveðja frá Keilusambandi Íslands

Ágústa Þorsteinsdóttir lést í Reykjavík 21. ágúst sl. Með þessum línum kveðjum við góða vinkonu og keppniskonu fram í fingurgóma en Gústa hefur leikið keilu allt frá upphafi hennar hér á landi. Hún hefur leikið fyrir hönd Íslands í mörgum landskeppnum og verið okkar reyndasta kona í þeim efnum.

Margar minningar eigum við frá ótalmörgum mótum og félagssamkomum þar sem Gústu verður nú sárt saknað. Keilusamband Íslands sér nú á eftir einum sínum fremsta leikmanni.

Elsku Gaui og aðrir aðstandendur, megi Guð styrkja ykkur.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson.)

Hvíl þú í friði.

Fyrir hönd Keilusambands Íslands.

Valgeir Guðbjartsson.

Kveðja frá Keilufélagi Reykjavíkur

Margs er að minnast nú þegar við kveðjum Ágústu Þorsteinsdóttur eða Gústu eins og við kölluðum hana alltaf. Gústa var ein af okkar bestu kvenkeilurum síðustu 20 árin. Hún lék alla tíð undir merkjum Keilufélags Reykjavíkur og var mjög mikill keppnisandi í henni alla tíð. Hún spilaði alltaf með sama keiluliðinu, það er KFR Afturgöngunum.

Gústa og Guðjón maður hennar voru mjög virk og mættu yfirleitt í hjónamótin sem hafa verið fastur liður í mörg ár. Gústa lék líka með landsliðinu til fjölda ára og fór á mörg mót erlendis. Mikill er missir keilunnar að henni en hún hefur verið mörgu ungmenninu til fyrirmyndar og miðlað af reynslu sinni til allra sem til hennar leituðu.

Keilufélag Reykjavíkur sendir Guðjóni og fjölskyldu innlegar samúðarkveðjur og megi Guð vera með ykkur.

Við þökkum fyrir ástúð alla,

indæl minning lifir kær.

Núna mátt þú höfði halla,

við herrans brjóst er hvíldin vær.

Í sölum himins sólin skín,

við sendum kveðju upp til þín.

(H.J.)

F.h. KFR,

Þórir Ingvarsson.

Kveðja frá keiluliðinu Skutlunum

Takk fyrir tímann, sem við með þér áttum

tímann sem veitti birtu og frið.

Ljós þitt mun loga og leiðbeina áfram,

lýsa upp veg okkar fram á við.

Gefi þér guð og góðar vættir

góða tíð eftir kveðjuna hér.

Þinn orðstír mun lifa um ókomna daga

indælar minningar hjarta okkar ber.

(P.Ó.T.)

F.h. Skutlanna,

Ólafía Sigurbjörnsdóttir.

Minningarnar streyma fram þegar við fréttum af láti vinkonu okkar, afrekskonunnar Ágústu Þorsteinsdóttur.

Leiðir okkar hjóna lágu saman í gegnum keiluna fyrir rúmum 20 árum. Það var ekki stór hópur í byrjun en fór ört stækkandi. Keilan var að byrja að feta sig áfram hér á landi og tóku þau hjónin, Ágústa og Guðjón, þátt í því af heilum hug, bæði með því að keppa og svo einnig í ýmsum störfum fyrir keiluna. Ágústa var ekki lengi að ná mjög góðum tökum á íþróttinni og varð mjög áberandi í fremstu röð keilara. Hún setti fjölmörg Íslandsmet og átti marga meistaratitla og eflaust er verðlaunasafnið hennar með þeim stærri hér á landi, enda keppti hún einnig mikið í sundi á sínum yngri árum.

Ágústa var ein af stjörnunum okkar í keilunni, hún varð oft Íslandsmeistari, bæði í einstaklingsmótum, parakeppnum og í flokkagreinum. Á Norðurlandamótinu 1992 lék Ágústa best allra íslenskra keilara og náði þá betri árangri en nokkur íslenskur keilari hafði áður gert á Norðurlandamóti.

Erfitt er að hugsa til Ágústu án þess að Guðjón væri einhvers staðar nálægur því alltaf var hann viðstaddur þegar hún keppti í keilunni og studdi hana í bak og fyrir. Það var varla til það keilumót sem hún mætti ekki í og þar að auki tók hún að sér að þjálfa einstaklinga og lið. Ágústa var sannkölluð heiðurskona fram í fingurgóma. Hún var jákvæð í hugsun og var ávallt létt yfir henni. Þrátt fyrir að Ágústa veiktist af alvarlegum sjúkdómi árið 2001 hélt hún áfram að keppa af fullum krafti og sýndi ótrúlegan viljastyrk sem við hjónin dáðumst mjög að.

Við minnumst hennar með hlýhug og þakklæti fyrir allar samverustundirnar.

Elsku Guðjón og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu stundum.

Erla og Haraldur.

Þá er kallið komið. Var það fyrr en okkur óraði fyrir, þó að við vissum að þú værir ekki heil heilsu.

Lífsvilji þinn og kraftur var mjög sterkur og kom það best í ljós þegar við fórum saman í náms- og skemmtiferð til Bristol og London í apríl síðastliðnum. Þú gast notið lífsins með okkur og fylgt okkur eftir allan daginn frá morgni til kvölds án þess að láta deigan síga. Þú gast einnig skipulagt og stjórnað keilumóti í vor fyrir Ás styrktarfélag.

Alltaf var notalegt að leita til þín í eldhúsið, sama hver í hlut átti og hvert erindið var þá fékk maður alltaf bros og notalegheit. Að ekki sé minnst á hrekkina, t.d. gastu látið okkur flest hlaupa 1. apríl. Þegar Gaui þinn kom að sækja þig var alltaf tími í spjall og spaug.

Elsku Ágústa, takk fyrir samveruna. Þín verður sárt saknað.

Við sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og þá sérstaklega Gauja sem nú á um sárt að binda að sjá á eftir henni Gústu sinni.

Kveðja frá öllum í Lækjarási og Húsinu.

Margrét Kristjánsdóttir og

Jóna H. Kristmannsdóttir.

Elsku Gústa, okkur systur langar að kveðja þig með þessu fallega ljóði:

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Guðjón, Guðný, Steini og fjölskyldur, við biðjum góðan guð að styrkja ykkur á þessum erfiða tíma.

Elva, Ásta María og Sunna.

Kallið er komið en það er eins og maður sé aldrei reiðubúinn að taka þeirri staðreynd jafnvel þótt allt bendi til lokadagsins, löng sjúkdómssaga og barátta. Í þessu tilfelli er um að ræða baráttu sterkrar konu með feril sem einkenndist af sigrum og metum. En eitt er öruggt að dauðinn er yfirsterkari lífinu. Þá er gott að gera sér grein fyrir að lífið heldur áfram, glætt góðum minningum um þann sem er að yfirgefa.

Sunddrottningin, eins og Gústa gjarnan var kölluð vegna allra sinna afreka, kjarks og krafts, varð að lúta þessari staðreynd lífs og dauða. Aldrei kvartaði hún eða kveinkaði sér en var alltaf hress og jákvæð jafnvel þótt maður vissi að góð heilsa var henni ekki gefin síðustu árin. Hún var ekki bara sunddrottning, hún var alþýðudrottning gædd þeim krafti og dug sem einkennir slíkan Íslending. Hún stóð ekki ein, sterk fjölskylda stóð að henni, ástríkur eiginmaður og börn.

Um leið og við hjónin þökkum samfylgdina sendum við öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þeim guðsblessunar.

Jón og Birna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.