Erfðaefnisskrá Lögreglan væntir mikils af notkuninni.
Erfðaefnisskrá Lögreglan væntir mikils af notkuninni. — 24stundir/Júlíus
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@24stundir.is Íslenska lögreglan tók í júlí síðastliðnum í notkun erfðaefnagagnagrunn og var hugbúnaðurinn byggður upp af bandarísku alríkislögreglunni.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@24stundir.is

Íslenska lögreglan tók í júlí síðastliðnum í notkun erfðaefnagagnagrunn og var hugbúnaðurinn byggður upp af bandarísku alríkislögreglunni.

Gagnagrunnurinn nýtist við rannsókn sakamála, bæði til að sanna sekt og sýknu, að sögn Bjarna J. Bogasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóraembættinu.

Heimilað hefur verið samkvæmt lögum frá 2001 að nota erfðaefnisskrá við lögreglurannsókn en nú fyrst hefur slík skrá verið tekin í notkun.

„Við vorum ekki komin með hugbúnaðinn sem við þurftum á að halda til að hleypa þessu af stokkunum fyrr en nú,“ segir Bjarni sem ásamt starfsfélaga sínum fór til Bandaríkjanna til að læra á búnaðinn.

Lögreglan væntir mikils af notkun gagnagrunnsins við rannsókn sakamála, að sögn Bjarna sem enn sem komið er er annar þeirra sem hafa aðgang að honum. „Það hefur sýnt sig alls staðar í löndunum í kringum okkur að þetta hefur verið mikið hjálpartæki fyrir lögregluna.“

Sporaskrá og kennslaskrá

Erfðaefnisskráin skiptist í sporaskrá og kennslaskrá. „Í sporaskrá fara allar niðurstöður rannsókna á erfðaefnum sem finnast á vettvangi og ekki er vitað frá hverjum stafa.

Í kennslaskrá fara upplýsingar um erfðaefni manna sem vitað er hverjir eru, það er að segja úr þeim sem hlotið hafa refsidóma fyrir tiltekin brot almennra hegningarlaga.“ Hægt er að krossleita í skránum, að því er Bjarni greinir frá. „Við getum jafnframt sent upplýsingar til alþjóðalögreglunnar eða einhvers tiltekins lands og spurt hvort gögn um viðkomandi sé að finna hjá þeim.“

Yfirheyrslan styttast

Auk gagnagrunnsins hefur lögreglan í rúmt ár verið að innleiða mynd- og hljóðupptökur við yfirheyrslur, bæði í Reykjavík og úti á landi. „Menn eru náttúrlega mjög ánægðir með þetta en þetta kallar líka á mikinn undirbúning hjá þeim sem yfirheyra. Yfirheyrslutíminn styttist. Yfirheyrsla, sem með gamla laginu gat tekið 3 til 4 klukkustundir, tekur nú kannski bara hálfa klukkustund. Að auki getur saksóknari eða dómari, sem horfir síðar á yfirheyrsluna, séð hvernig viðkomandi bregst við spurningunum. Maður gat til dæmis ekki með góðum hætti skýrt frá því í rituðu máli þegar viðkomandi brást við með þögn.“

Í hnotskurn
Lífsýni tekin við rannsókn máls eru ekki sett í gagnagrunn fyrr en búið er að dæma menn. Lögreglustjórum, ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytinu má veita aðgang að upplýsingum úr skránni.