Hallgrímur Helgason
Hallgrímur Helgason
Hallgrímur Helgason vill að stjórnvöld komi til móts við kröfur ljósmæðra: "Við erum auðvitað til í að borga hvað sem er fyrir að fæðandi móðir og barn hennar séu í traustum höndum."

ÞJÓÐFÉLAG okkar hefur fengið þungan dóm. Ljósmæður eru komnar í verkfall. Við höfum kallað yfir okkur bölvun sem ekki verður auðvelt að losa sig við. Hvernig gátum við látið þetta gerast? Að láta mæður ljóssins þurfa að biðja feður landsins um sanngjörn laun? Hvernig getur ein ríkisstjórn boðið verðandi foreldrum upp á óvissuferð á fæðingardeildina? „Gangi ykkur vel! Vonandi verður einhver á vakt! Ha ha.“ Kaldur er hásætishlátur.

Hvað værum við tilbúin að borga fyrir góða fæðingarþjónustu á frjálsum markaði? Hundrað þúsund, þrjú hundruð þúsund, milljón? Peningar eru afstæðir þegar lífið er annars vegar. Við erum auðvitað til í að borga HVAÐ SEM ER fyrir að fæðandi móðir og barn hennar séu í traustum höndum. Hættum því að karpa við ljósmæður um krónur og aura. Borgum þeim sanngjörn laun og gott betur en það. Höfum þær ánægðar. Styggjum ekki sjálfa lífsverðina.

Á meðan dagblöðin birta myndir af forystukonum ljósmæðra á leið í Karphúsið til fundar við sjálfan stofnfjáreigandann í efnahagsbyr undanfarinna ára, standa reffilegir karlmenn á kjólfötum neðar á síðunni, í daglegum auglýsingum útfararþjónustanna. Og við vitum öll hvað þeir taka fyrir þjónustu sína. Um það bil mánaðarlaun ljósmóður fyrir kistu, kistulagningu, líksnyrtingu, líkgeymslu, líkkeyrslu og litla vélgröfu með manni. Við borgum það sama fyrir að fá tuttugu börn í heiminn og að pota einum gamlingja í gröfina. Það er í þessu sem öðru. Gildismat okkar er allt á haus.

Ástæðan er auðvitað sú að ríkið sér um fæðingar en einkaframtakið um jarðarfarir. Lífið er krati en dauðinn er kapítalisti.

En einmitt vegna þess að fæðingin er í boði okkar skattgreiðenda krefjumst við þess að hún sé hafin yfir karp um launakjör. Eða er okkur virkilega ekkert heilagt lengur?

Setjum ekki verðmiða á lífið. Í guðanna bænum drífið í því að semja við ljósmæður. Ég vil ekki búa í þjóðfélagi sem neyðir ljósmæður í kjarabaráttu.

Höfundur er rithöfundur.