jkjkjkjkjkkjk
jkjkjkjkjkkjk — Ljósmynd/Odd Stefan
Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is UNDANFARIN ár hefur færst í vöxt að þýsk pör láti gefa sig saman hérlendis og í gær voru Christian og Anke Wiesner gefin saman undir Seljalandsfossi.

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

UNDANFARIN ár hefur færst í vöxt að þýsk pör láti gefa sig saman hérlendis og í gær voru Christian og Anke Wiesner gefin saman undir Seljalandsfossi. Athöfnina framkvæmdi fulltrúi sýslumanns á Hvolsvelli, Kristín Þórðardóttir.

„Í flestum tilfellum er þetta fólk sem hefur af einhverri ástæðu fallið fyrir Íslandi,“ segir Pétur Óskarsson, annar eigandi Kötlu Travel í München í Þýskalandi. Eftir að mynd af brúðhjónum sem giftu sig á Vatnajökli birtist í bæklingi Kötlu fyrir 10 árum fór að gæta áhuga fólks fyrir giftingum hér á landi. Pétur segir þó eftirspurnina hafa tekið snöggan kipp fyrir nokkrum árum þegar vinsælt varð hjá þýskum brúðkaupstímaritum og -bloggsíðum að skrifa um brúðkaup á Íslandi. „Það hefur aldrei verið svona mikil eftirspurn áður, ætli við höfum ekki komið að um 30 brúðkaupum síðastliðin fjögur ár,“ segir Pétur.

„Við finnum fyrir því að það er mikið spurt um þetta núna. Fólk er að koma til baka eftir sumarið og miðla af reynslu sinni, þá spyrst þetta út. Þetta á að vera sérstakt fyrir alla, fólkið sem er að koma til Íslands til að gifta sig kemur af því það vill eitthvað sérstakt og ógleymanlegt og það eru ótrúlega miklir möguleikar á Íslandi og í íslenskri náttúru á að ganga í hjónaband við sérstakar aðstæður.“

Í sumar skipulagði Katla Travel brúðkaup fyrir tíu þýsk pör og segir Pétur nokkur brúðkaup þegar vera í undirbúningi fyrir næsta sumar. „Við búumst við að það verði fleiri brúðkaup á næsta ári.“