RAGNAR Í SMÁRA 90 ÁR FRÁ FÆÐINGU HANS eftir Jóhannes Nordal MARGT minnir okkur um þessar mundir á þær ævintýralegu breytingar sem orðið hafa á kjörum, samfélagsháttum og menningu íslensku þjóðarinnar á þessari öld.

RAGNAR Í SMÁRA 90 ÁR FRÁ FÆÐINGU HANS eftir Jóhannes Nordal

MARGT minnir okkur um þessar mundir á þær ævintýralegu breytingar sem orðið hafa á kjörum, samfélagsháttum og menningu íslensku þjóðarinnar á þessari öld. Með stuttu millibili minnumst við afmælis þriggja stóráfanga í sókn Íslendinga til fulls sjálfsforræðis: 75 ára fullveldis fyrsta desember sl., 90 ára heimastjórnar fyrsta þessa mánaðar og hálfrar aldar afmælis lýðveldisins sautjánda júní í vor. En sjálfstæðisbaráttan var ekki háð á vettvangi stjórnmálanna eingöngu. Á öllum sviðum þjóðlífsins hafa Íslendingar á þessari öld eignast menn sem báru í brjósti óslökkvandi þrá til að verða þjóð sinni að liði og leggja sitt af mörkum til þess að hún gæti borið höfuð sitt hátt í samfélagi frjálsra þjóða.

ert er að minnast nú eins þessara manna, Ragnars Jónssonar, en sjöunda þessa mánaðar eru níutíu ár liðin frá fæðingu hans. Hann kom því í heiminn aðeins viku eftir að Íslendingar fengu heimastjórn og var einn besti fulltrúi þeirrar kynslóðar sem hélt úr sveitinni á fyrstu áratugum aldarinnar til að byggja frá grunni nýtt borgarsamfélag á Íslandi, þar sem sameina skyldi það dýrmætasta úr arfleifð fortíðarinnar nýjum straumum í atvinnuháttum og menningu.

Einar Ragnar Jónsson, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur í Mundakoti á Eyrarbakka, sonur Jóns Einarssonar, sem ættaður var úr Skaftafellssýslu, og Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Mundakoti. Jón faðir Ragnars var orðlagður dugnaðarmaður, útvegsbóndi og forystumaður í sveit sinni, og bar æskuheimili Ragnars vott um myndarskap foreldra hans og tryggð þeirra við forna siði og menntir sem hann bjó að æ síðan.

Eyrarbakki var snemma á öldinni mikil miðstöð mannlífs og viðskipta á þeirra tíma mælikvarða. Þangað komu bændur af öllu Suðurlandi til að versla, en hinar dönsku kaupmannafjölskyldur fluttu með sér iðkun tónlistar og önnur menningaráhrif frá hinum stóra heimi. Í barnaskóla naut Ragnar kennslu og hvatningar hins merka uppeldisfrömuðar Aðalsteins Sigmundssonar og stóð með honum að því að stofna ungmennafélag á Bakkanum.

Árið 1920 lá svo leið Ragnars í Verslunarskólann í Reykjavík, en að loknu prófi þar réðst hann til hinnar nýstofnuðu smjörlíkisgerðar, Smára, en við hana var hann síðan ætíð kenndur. Með fádæma dugnaði byggði Ragnar þetta fyrirtæki upp í samkeppni við óheftan innflutning, enda varð hann síðar annar aðaleigandi þess og mikilvirkur iðnrekandi til æviloka. Þau verkefni fullnægðu þó aldrei sköpunarþrá Ragnars, enda opnuðust honum á þessum árum nýir heimar lista og bókmennta.

Á fyrstu árum Ragnars í Reykjavík voru miklar breytingar í uppsiglingu á hinu fábreytta menningarlífi höfuðborgarinnar. Ný kynslóð íslenskra listamanna sem sótt hafði menntun sína og fyrirmyndir, ekki aðeins til Danmerkur, heldur til stórþjóða Evrópu, var að kveða sér hljóðs. Ragnar kynntist flestum þeirra og voru m.a. í þeim hópi Páll Ísólfsson, Halldór Laxness og Jóhannes Kjarval, sem verða allir vinir og örlagavaldar í lífi hans. Það líður heldur ekki á löngu áður en efling listalífs bæjarins er orðin höfuðástríða hans sem hann helgar æ meira af kröftum sínum og fjármunum.

Tónlistin var fyrsta ást Ragnars og hann var fremstur í flokki ungra áhugamanna sem komu á stofn Hljómsveit Reykjavíkur fyrir Alþingishátíðina árið 1930 og í framhaldi af því Tónlistarskólanum, en fyrsti skólastjóri hans var Páll Ísólfsson. Tveimur árum síðar gekkst Ragnar fyrir stofnun Tónlistarfélagsins, en meginhlutverk þess hefur frá upphafi verið að reka Tónlistarskólann og halda uppi fjölbreyttu tónleikahaldi. Meðal fyrstu kennara Tónlistarskólans voru Árni Kristjánsson, píanóleikari, og dr. Franz Mixa, sem nú er nýlátinn. Í skólanum ólst upp ný kynslóð tónlistarmanna, sem setur svip sinn á tónlistarlíf landsins næstu áratugi. Tónleikar þeir sem haldnir voru á vegum Tónlistarfélagsins mörkuðu einnig tímamót, Ragnari tókst að fá hingað til lands á vegum félagsins marga af fremstu hljóðfæraleikurum heims, jafnframt því að gefa íslenskum listamönnum ómetanleg tækifæri til hljómleikahalds. Líklega lagði þó Ragnar allra mest á sig til þess að efla hljómsveitina, en árið 1950 er loks markmiði hans náð, þegar stofnsett var sjálfstæð sinfóníuhljómsveit, sem starfað hefur óslitið síðan.

Ragnar sneri sér ekki að bókaútgáfu fyrr en eftir miðjan fjórða áratuginn, en á árunum 1937­1940 gaf hann Heimsljós Halldórs Laxness út í fjórum bindum í félagi við Kristin Andrésson og var Ragnar útgefandi allra verka Halldórs eftir það. Einnig hóf hann að gefa út bækur árið 1940 á nafni Víkingsútgáfunnar. Frá árinu 1942 verður Helgafell aðalútgáfufyrirtæki hans, en sama ár hefur tímaritið Helgafell einnig göngu sína. Varð Ragnar nú brátt umsvifamesti forleggjari landsins og útgefandi bóka flestra bestu rithöfunda þjóðarinnar. Markaði Helgafell á margan hátt tímamót í útgáfustarfsemi hér á landi með útgáfu stærri upplaga og greiðslu mun hærri ritlauna en áður höfðu tíðkast. Jafnframt sóttist hann eftir verkum yngri rithöfunda og var boðinn og búinn til að styrkja efnilega menn til starfa. Með fordæmi hans og útgáfustarfi voru því íslenskum rithöfundum tryggð betri skilyrði til starfa en þeir höfðu nokkru sinni áður þekkt.

Myndlistin varð ekki heldur útundan hjá Ragnari, en hann hóf snemma að safna listaverkum og átti að lokum ótvírætt besta safn íslenskra málverka og höggmynda, sem nokkurn tíma hefur verið í eins manns eign hér á landi. Eins og á öðrum sviðum voru kaup hans á listaverkum oft gerð í því skyni sérstaklega að styrkja listamenn til starfa og leysa vanda þeirra sem áttu erfitt uppdráttar eða litlum almennum skilningi að fagna. Söfnun listaverka af fordild eða í auðgunarskyni var honum fjarri. Umfram allt vildi hann stuðla að því að gera alla góða list að almenningseign. Þess vegna gerðist hann brautryðjandi í útgáfu vandaðri listaverkabóka en hér höfðu áður sést, auk þess að láta prenta stórar litprentanir af úrvalsmálverkum til upphengingar á heimilum og vinnustöðum. Þannig kynntist stór hluti þjóðarinnar í fyrsta skipti verkum sinna bestu listamanna. Loks gaf Ragnar Alþýðusambandinu meginþorrann af listaverkasafni sínu árið 1961 ásamt ríflegum fjárstyrk í því skyni að þessi stórbrotnu listaverk gætu orðið lifandi þáttur í lífi allrar alþýðu í landinu.

Ég mun ekki rekja hér frekar störf Ragnars og er þó margfalt fleira ósagt en upp talið. Sannleikurinn er reyndar sá að enginn greinargerð fyrir sýnilegum verkum hans getur nokkru sinni nægt til að gefa eftirkomandi kynslóðum nema ófullkomna hugmynd um þau áhrif sem hann hafði á íslenskt menningarlíf. Þau Grettistök sem hann lyfti til eflingar tónlistar, bókmennta og myndlistar bera vissulega vitni um einstæða atorku og þrautseigju, enda var hann löngu orðinn þjóðsagnapersóna í eigin lífi. Óteljandi sögur eru sagðar um athafnasemi hans, hugmyndaauðgi og úrræðasemi. Ekkert virtist honum óviðkomandi sem stefndi til framfara í menningarmálum og alltaf var hann fyrstur á vettvang, þegar þörf var skjótra viðbragða eða fjárhagslegs stuðnings. Áhrif hans hefðu þó aldrei orðið þau sem raun ber vitni, ef hann hefði ekki unnið öll störf sín af þeirri óeigingirni sem ekki biður um önnur laun en að sjá aðra njóta sín í sköpun og nautn fagurra lista.

Ragnar breytti ekki aðeins afkomu og starfsskilyrðum íslenskra skálda og listamanna meira en nokkur maður annar, heldur var hann einkavinur og hjálparhella flestra fremstu andans manna sem honum voru samtíða. Hann skildi, að öll listræn sköpun er eins og viðkvæmur gróður sem þarf aðhlynningar og skjóls ef hann á að dafna og ná fullum skrúða. Þetta átti ekki síst við um hinar nýju listgreinar sem þá voru að festa rætur í fyrsta skipti í íslenskri mold. Á sama hátt var Ragnar ætíð boðinn og búinn til að hlúa að þeim mönnum sem hann fann að þurftu á stuðningi að halda til að fá notið hæfileika sinna og sköpunargáfu. Hvern ávöxt allt þetta bar í blómlegra menningarlífi verður eðli málsins samkvæmt aldrei metið til fulls. Ragnar gerði sér manna best grein fyrir nauðsyn opinbers stuðnings við menningar- og listalíf með okkar fámennu þjóð og barðist af oddi og egg fyrir auknum framlögum ríkis og borgar til þeirra mála. Engu að síður bar hann ætíð nokkurn ugg í brjósti vegna vaxandi afskipta ríkisvalds og stjórnmálaafla af menningarmálum. Hann taldi mikilvægt að helstu menningarstofnanir gætu notið sjálfsforræðis í sem ríkustum mæli og byggt starf sitt sem mest á áhuga almennings og leiðsögn listamannanna sjálfra, en yrðu aldrei of háðar opinberum fjárveitingum og þeim pólitísku áhrifum sem þeim eru oftast samfara. Sjálfur fylgdi hann þessari stefnu fram með því að verja eigin fjármunum ótæpilega til að styrkja þá starfsemi sem hann bar fyrir brjósti. Þess vegna voru það helstu vonbrigði hans, einkum á síðustu árum ævinnar, að sjá hugsjónir sínar í þessu efni á undanhaldi fyrir aukinni forsjá hins opinbera í menningarmálum.

Tíminn líður hratt og nú eru bráðum tíu ár síðan Ragnar féll frá eftir langa og erfiða sjúkdómsbaráttu. Það er því nokkrum árum lengra síðan hann var enn í fullu fjöri, á sífelldum þönum um bæinn að sinna hugðarefnum sínum og hvetja menn og styrkja. Það var eins og brygði birtu og dofnaði yfir öllu sviðinu, þegar hann var horfinn. Engu að síður héldu verk hans áfram að lifa í því fjölbreytilega listalífi borgarinnar sem hann lagði öllum öðrum fremur grundvöll að. Þótt margir samtíðarmenn hans verði vafalaust fyrirferðarmeiri á spjöldum sögunnar og skilji sumir eftir sig áþreifanlegri minnismerki, hafa fáir þeirra verið jafnáhrifamiklir í samtíð sinni og Ragnar í Smára. Hann var aflgjafi flestra bestu listamanna þjóðarinnar á einu gróskumesta tímabili í sögu íslenskrar menningar og áhrif hans eru samofin því besta sem skapað var í íslenskum bókmenntum og listum um hálfrar aldar skeið.

Ragnar Jónsson í Smára.

Ragnar Jónsson og eiginkona hans, Björg Ellingsen, ásamt Hannibal Valdimarssyni við vígslu sýningarsalar Listasafns ASÍ 7. febrúar 1980.

Ragnar og Björg í sumarbústaðnum með börnunum Ernu, Jóni Óttari og Auði.

Kjarval og Ragnar.