SÍMTALIÐ . . . ER VIÐ ERIK BRYNJÓLFSSON Tölvuvæðing og framleiðni 901-617-2531000 MIT, góðan dag. - Já, get ég fengið samband við prófessor Erik Brynjólfsson hjá Sloan School of Management. Andartak. Halló.

SÍMTALIÐ . . . ER VIÐ ERIK BRYNJÓLFSSON Tölvuvæðing og framleiðni 901-617-2531000 MIT, góðan dag. - Já, get ég fengið samband við prófessor Erik Brynjólfsson hjá Sloan School of Management. Andartak. Halló.

- Góðan dag, ég heiti Páll Þórhallsson blaðamaður á Morgunblaðinu. Er þetta Erik Brynjólfsson?

Já.

- Ég var að lesa í The Economist um rannsóknir þínar á áhrifum tölvuvæðingar á framleiðni fyrirtækja. Nafnið vakti athygli mína, ertu af íslenskum ættum?

Já, reyndar. Faðir minn, Ari Brynjólfsson, er Akureyringur. Ég fæddist í Danmörku en ólst upp í Bandaríkjunum.

- Hefurðu komið til Íslands?

Já, nokkrum sinnum. Ég á þar ættingja eins og Áslaugu Brynjólfsdóttur fræðslustjóra.

- Gætirðu sagt mér frá rannsóknum þínum?

Tilgangurinn var að athuga hvort fyrirtæki sem fjárfesta í tölvum njóti góðs af. Með því að bera saman fjárfestingar í tölvum og aðrar fjárfestingar kom í ljós að framleiðni eykst mjög mikið. Fjárfestingin skilar sér rúmlega 50% á ári. Fjárfestingar í annarri tækni skila sér alls ekki eins vel.

- Hversu umfangsmikil var rannsóknin?

Rannsóknin tók nokkur ár og við fengum upplýsingar hjá 380 bandarískum stórfyrirtækjum bæði í framleiðslu og þjónustu.

- Skila fjárfestingar í tölvum sér jafn vel hjá öllum fyrirtækjum?

Nei, það er atriði sem ég er að byrja að athuga núna. Meðaltalið er hátt en munur milli fyrirtækja er einnig mikill og hjá sumum fyrirtækjum getur tölvuvæðing leitt til minni framleiðni. Það virðist svo sem stjórnunarhættir ráði úrslitum. Fyrirtæki sem endurskoða stjórnunarhætti um leið og tölvuvæðing á sér stað græða mikið en þau sem bæta bara tölvum við án þess að endurskoða stjórnun fá lítið fyrir sinn snúð.

- Ég þakka spjallið.

Sömuleiðis, blessaður.