Skál fyrir lífinu Heimir Björgúlfsson er kominn á fullt stím eftir að hafa lent í lífshættulegu slysi.
Skál fyrir lífinu Heimir Björgúlfsson er kominn á fullt stím eftir að hafa lent í lífshættulegu slysi.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is HEIMIR Björgúlfsson gat sér fyrst orð í listheimum sem meðlimur í tilrauna- og óhljóðasveitinni Stilluppsteypu.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is

HEIMIR Björgúlfsson gat sér fyrst orð í listheimum sem meðlimur í tilrauna- og óhljóðasveitinni Stilluppsteypu. Sú sveit braust snemma til metorða í alþjóðlegum heimi tilraunatónlistar en Heimir sagði sig úr sveitinni árið 2002 til að geta einbeitt sér að myndlistinni. Hann hefur haldið sýningar víða um Evrópu og Ameríku en í dag er hann búsettur í Los Angeles ásamt konu sinni. Gagnrýnandi L.A. Times lýsti list Heimis sem blöndu af nostalgíu og fáránleika og hafa sýningar hans sannanlega vakið margvíslegar spurningar, jafnvel furðu. Síðustu fréttir af Heimi voru miður skemmtilegar en í apríl lenti hann í lífshættulegu bílslysi. Það er svo gott sem hending að hann er á lífi og á tíma glitti í silfurþráðinn eins og sagt er. Sprungið hafði á bíl hans og þar sem hann var að bisa við að ná í varadekkið var keyrt aftan á hann með þeim afleiðingum að báðir fótleggir brotnuðu fyrir neðan hné. Blaðamaður heyrði í bröttum Heimi frá Los Angeles þar sem hann grær sára sinna. Og batinn er góður.

Ég elska L.A.

Heimir segir að Los Angeles hafi breytt miklu í hans lífi. „Ég þrífst vel á þeim andstæðum sem eru innan borgarinnar, öll þessi mismunandi hverfi með sínum sérkennum og þjóðarbrotum. Þetta umturnaði mér og eitt fyrsta verkið sem ég gerði eftir komuna hingað var neonljósaskilti.“ Heimir segist hafa eytt miklum tíma í að skoða borgina í krók og kima og er orðinn býsna vel lesinn í sögu hennar og Kaliforníu.

„Ég finn mig alltaf best í minnihlutahverfunum, kannski vegna uppruna míns. Dínamíkin er svo miklu meiri á skuggalegum bar í East LA heldur en á yfirborðskenndum kokteilbar í Hollywood.“ Listasenan í L.A er gróskumikil og rík að mati Heimis. „Það er oft verið að líkja myndlistarheiminum hér við þann í Berlín sem er að mörgu leyti rétt, á báðum stöðum er ákveðin gróska í gangi og fólk þorir að taka áhættu sem á móti skapar vinnuvænt umhverfi fyrir framsækna myndlistarmenn.“ Það er þá ekki bara L.A. sem hefur hrært hressilega upp í Heimi, slysið hafði eðlilega ómæld áhrif. „Ég væri ómennskur ef ég segði að þetta hefði ekki haft mikil og varandi áhrif á mig. Ég tók ýmsu sem sjálfsögðu áður fyrr, en ég geri það sannarlega ekki nú. Og í raun er ég bara ánægður að ganga í burtu frá þessu í bókstaflegum skilningi, í þessari óheppni var ég mjög heppinn. Mér var sagt að ég væri með verndarengil yfir mér af predikara á spítalanum. Hann reyndist nú samt vera gamall gangster og þakkaði guði fyrir að hafa ekki verið myrtur þegar skotið var af byssu beint í andlitið á honum. Þótt sjálfur væri ég trúleysingi þá bað ég prestinn vel að lifa, enda fannst mér eins og hann þyrfti meiri sáluhjálp en ég en það er nú önnur saga.“

Um sýninguna

„Silfur er að tala er samsett úr tveimur verkum,“ útskýrir listamaðurinn. „Titilverkinu sem er hangandi skúlptúr og svo teikninga/ljósmynda/klippimyndaverkinu Þrír eru betri en tveir. Þetta kom eiginlega þannig til að ég var að hugsa um valið á verðlaunapeningunum á Ólympíuleikunum og hversvegna staðlar eru notaðir í líkingamáli við gljáandi málma. Hvað er gull og hvað er silfur og hvernig það er framsett innan vestrænnar og íslenskrar menningar, til dæmis með orðatiltækjum og slúðri.“