Fjórir márar Minnismerkið sem séra Ólafur sá í Livorno. Myndin er gerð nokkrum árum eftir að hann kom þar.
Fjórir márar Minnismerkið sem séra Ólafur sá í Livorno. Myndin er gerð nokkrum árum eftir að hann kom þar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reisubók séra Ólafs Egilssonar er komin út í enskri þýðingu hjá bókaútgáfunni Fjölva. The Travels of Reverend Ólafur Egilsson – Captuerd by Pirates in 1627 . Þýðendur eru Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols.
Reisubók séra Ólafs Egilssonar er komin út í enskri þýðingu hjá bókaútgáfunni Fjölva. The Travels of Reverend Ólafur Egilsson – Captuerd by Pirates in 1627 . Þýðendur eru Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols. Hér er fjallað um verkið og höggmyndaverkið sem Ólafur sá í Livorno á Ítalíu og skrifaði sennilega fyrstur manna lýsingu á. 17.–19. október n.k. verður í Vestmannaeyjum haldin ráðstefna um Tyrkjaránið þar sem nokkrir þekktir erlendir fræðimenn verða meðal þátttakenda.

Eftir Steinunni Jóhannesdóttur

steinjoh@akademia.is

Það mega kallast tíðindi að höfundur sem hóf ritun verks síns harmþrunginn og „hugsjúkur“ í rústum þorpsins í Vestmannaeyjum þegar ár var liðið frá Tyrkjaráninu skuli nú vera metinn verðugur þess að lesast á tungu stórþjóða. Textinn og söguefnið sem hefur heillað íslenska lesendur í bráðum fjórar aldir tekur nú fyrstu skrefin til móts við nýjan og óþekktan lesendahóp.

Útgáfunni fylgja einnig frásögn Kláusar Eyjólfssonar af ráninu og bréf Jóns Jónssonar frá Grindavík og Guttorms Hallssonar frá Djúpavogi skrifuð úr herleiðingunni í Alsír. Þar er fylgt fordæmi Almenna bókafélagsins sem gaf út Reisubók séra Ólafs 1969. Að auki er í ensku útgáfunni fyrri hluti bréfs Guðríðar Símonardóttur, en það hálfa bréf er hið eina ritað af konu úr hópi hinna herteknu sem varðveist hefur. Þetta er ekki vísindaleg útgáfa, segja þýðendur í stuttum formála, markmið þeirra er fyrst og fremst að koma innihaldinu til skila á læsilegu máli og ná til erlendra áhugamanna um íslenskar bókmenntir og sögu.

Bókin er prýdd fjölda mynda frá tíma sögunnar, sem auðveldar lesturinn.

Frumkvöðull í bókmenntasögunni

Reisubók séra Ólafs Egilssonar hefur mikla sérstöðu í íslenskum bókmenntum. Hún er undanfari Reisubókar Jóns Ólafssonar Indíafara og fyrsta rit eftir norrænan höfund sem lýsir „lífi og háttum fólks í ríki sjóræningja í Alsír, Barbaríinu, svo sem það var kallað á Evrópumálum,“ eins og Sverrir Kristjánsson komst að orði í formála fyrir útgáfu AB. Bókin segir frá tilefnislausri innrás lítt þekkts óvinar um hásumar á fólk í strandbyggðum Íslands, morðum, húsbrennum og herleiðingu tæplega fjögur hundruð karla, kvenna og barna í fjarlæga heimsálfu og sölu þeirra á þrælamarkaði eftir fastmótuðum viðskiptareglum. Bókin veitir innsýn í atburðinn frá fyrstu hendi sem og persónulegar raunir höfundar. En hún einkennist jafnframt af viðleitni hans til að lýsa því sem gerðist og fyrir augu bar af hlutlægni. Hún er saga þess sem fyrstur losnaði úr fangavistinni því séra Ólafur var fljótlega skipaður í stöðu sendimanns mannræningjanna og gerður út með „diplómatapassa“ á konungsfund í Danmörku að leita lausnargjalds. Hann varð þó að bjarga sér þangað auralaus og illa klæddur um ókunn lönd, en væntanlega kunnandi hrafl í dönsku, þýsku og latínu. Í bókarlok hafði hann skilað af sér erindinu án þess að útlit væri fyrir að hann hefði haft erindi sem erfiði. Það fór þó svo tíu árum frá ráninu að nokkrir fanganna náðu aftur til Íslands, þar á meðal Ásta Þorsteinsdóttir, kona Ólafs. Börn þeirra þrjú og tvö fósturbörn sá hann hins vegar ekki framar.

Áhugamaður um tækni og vísindi

Stíll séra Ólafs er knappur og látlaus og einkennist af umtalsverðri nákvæmni. Hann er t.d. skemmtilega glöggskyggn á vígbúnað og tækninýjungar samtíma síns. Í borginni Genúa eru fallbyssurnar á varnarvirkjunum svo stórar, „að maður mátti smjúga inn í þeirra kjaft“. „Og þar sá eg og svo fyrst vindmýlurnar, á hvað mér varð starsýnt.“ Hann lýsir víggirtri innsiglingunni í Marseille þannig að hún kemur í einu og öllu heim við fræga koparstungu frá svipuðum tíma og hann sigldi þar í gegn. Og hann lýsir smíði hafskips og steypu akkera í sömu borg, þar sem orka frá vindmyllum knýr stóra slaghamra við verkið. En hvergi gegna vindmyllurnar stórfenglegra hlutverki en í Hollandi, þar sem segja má að landið sjálft og líf landsmanna sé undir þeim komið. Hann lýsir því hvernig Hollendingar vinna land úr sjó með varnargörðum og að baki þeim landfyllingum úr leir og grjóti en vindmyllurnar „draga aftur vatnið af landinu, sem inn sígur úr sjónum, og það gengur nótt og dag“. Og hann bætir við að þar sé það mál manna, „að ef vindurinn kæmi ekki í mánuð, þá væri landið í kafi.“

Listrýnir í Livorno

Reisubók Ólafs borin saman við verk evrópskra samtímamanna hans um skylt efni þá stenst hún fyllilega samanburð um áreiðanleika. Það sýna jafnt bækur sem fornar minjar og myndverk. Nú í sumar rakst ég á lifandi dæmi þessa þegar ég heimsótti ítölsku hafnarborgina Livorno.

Livorno gegndi mikilvægu hlutverki í uppgangi Medici-ættarinnar og borgarinnar Flórens á tíma endurreisnarinnar. Og Livorno var fyrsti áfangastaður séra Ólafs frá því hann lét úr höfn í Algeirsborg 20. september 1627 réttum mánuði eftir að föngunum íslensku var hrundið þar upp á þrælatorgið. Hann kom til Livorno „á þann 11. Octobris“ segir hann og dvelst nokkra daga í borginni og reyndar í tvígang. Hann lýsir því sem fyrir augu ber, virkinu mikla við höfnina og djúpu síkinu, kirknafjöld og munka, glæsilegum klæðaburði fólksins „með silki, sameth og flugiel“, og telur að hvergi í heiminum sé fólk betur búið. Hann sér einnig fjötraða og klæðlitla menn rekna um strætin, furðuleg sirkusdýr og dráttardýr og svo kemur þetta: „Þessu framar sá eg þar það meistaraverk, sem eg sá hvergi slíkt, hvað að voru iiij (4) mannsmyndir steyptar af eiri, sem að svo sátu við einn stólpa af hvítum marmarasteini. Þær myndir voru í fjötrum af eiri. Stólpinn var ferskeyttur, og sat sinn við hvern flöt, og sáu því nær út sem lifandi menn, eftirmynd eins Tyrkja og þriggja hans sona, hverir eð kristninni höfðu stóran skaða gert, þeir er voru að vexti sem risar, en sá hertogi sem þann stað byggði, vann þá í stríði, og lét svo steypa þeirra myndir til minningar, og hans mynd stendur upp yfir þeim með stóru sverði í hendi.“

Quattro Mori

Þetta minnismerki stendur enn niðri við Medici-höfnina þar sem séra Ólafur féll í stafi yfir því fyrir um 380 árum. Við fundum það eftir að hafa spurt til vegar með Reisubók séra Ólafs í ensku þýðingunni að leiðarljósi. Því þar er birt gömul teikning af þessu fræga verki á blaðsíðu 55. Það stóð ekki á svari. „Quattro Mori! Það þekkja allir!“ Svo lýsti maðurinn leiðinni niður að gömlu höfninni þar sem Márarnir fjórir sátu fjötraðir við fótstall hertogans alveg eins og séra Ólafur lýsti. Á skilti við verkið er saga þess rakin á ítölsku og ensku í stuttu máli sem hér segir:

Fjórir Márar eru elsta og þekktasta minnismerki í Livorno og táknmynd fyrir sigur stórhertoga Medici-ættarinnar í Toscana yfir sjóræningjum sem herjuðu á Miðjarðarhafinu. Verkið er samansett úr tveim hlutum, annar úr marmara, hinn úr bronzi.

Eldri hlutinn er höggvinn í marmara frá Carrara og sýnir Ferdinand I af Medici klæddan einkennisbúningi stórmeistara af Riddarareglu heilags Stefáns, herflota sem stofnaður var til varnar sjóránum sem ógnuðu frjálsri verslun og viðskiptum hinnar vaxandi hafnarborgar Medici-veldisins.

Höfundur verksins er Giovanni Brandini myndhöggvari frá Florens sem lauk við styttuna 1595 meðan Ferdinand var enn á lífi. En það var ekki fyrr en 1617, þegar Cosimo II var við völd, sem styttan var sett á fótstall sinn.

Márarnir fjórir komu seinna til og lofa meistara sinn, myndhöggvarann Pietro Tacca frá Carrara. Márarnir voru settir við hornin á stallinum í tveim áföngum á árabilinu 1623–1626 í stjórnartíð Ferdinands II.“

Á Ólafur fyrstu lýsinguna?

Það vakti athygli mína að þetta verk sem er unnið af tveim listamönnum á nokkrum áratugum er fullgert og komið á sinn stað aðeins einu ári áður en séra Ólafur Egilsson átti leið um þessa mikilvægu hafnarborg. Þannig að í íslenskum bókmenntum verður til lýsing á þessu þá spánnýja verki, skráð af manni sem einmitt hafði orðið fórnarlamb þeirra átaka sem það er tákn um. Hugsanlega er lýsing séra Ólafs elsta lýsing á Márunum fjórum í evrópskum bókmenntum og listasögu.

Íslensk-alsírsk samræða

Ég tel þá þýðingu sem nú er komin út á Reisubók séra Ólafs og fleiri frásögnum um Tyrkjaránið bæði merkilega og löngu tímabæra. Ríkulegar heimildir okkar um þennan atburð og eftirmál hans hafa verið óþýddar á alþjóðamál og því lítt þekktar meðal erlendra sérfræðinga á sviði mannrána og þrælaverslunar fyrr á öldum. Þýðingin er að mínu mati prýðilega af hendi leyst og læsileg og myndirnar gera bókina aðgengilegri en ella, jafnvel nothæfa sem leiðarvísi fyrir nútíma ferðalanga eins og að framan er lýst. Nokkrar neðanmálsgreinar auðvelda einnig skilning á því sem átti sér stað.

Helsti galli útgáfunnar er þó skortur á sagnfræðilegri ritstjórn og nákvæmari yfirlestri og samanburði við frumtextann og þær góðu heimildir sem safnritið um Tyrkjaránið geymir. Ónákvæmni eða misskilnings gætir á stöku stað. Og þar sem erlendir fræðimenn munu væntanlega taka bókinni sem happafeng er slíkt til baga. Þess er reyndar skammt að bíða að bókin komist í hendur sérfræðinga á sviðinu, því 17.–19. október n.k. verður í Vestmannaeyjum haldin ráðstefna um Tyrkjaránið þar sem nokkrir þekktir erlendir fræðimenn verða meðal þátttakenda. M.a. er von á rithöfundi frá Alsír, Mohamed Magani, og verður það í fyrsta skipti hér á landi sem íslenskir og alsírskir fræðimenn skiptast á upplýsingum um Tyrkjaránið og eftirmál þess. The Travels of Reverend Ólafur Egilsson mun gegna stóru hlutverki á umræddri ráðstefnu. Og ég spái því að með útgáfunni á ensku muni séra Ólafur hefja síðbúna sigurgöngu til móts við fróðleiksfúsa lesendur í mörgum löndum.

D´Aranda, Emanuel. Relation de la Captivité & Liberté du sieur Emanuel D´Aranda jadis Esclave a Alger, Bruxelles 1662. Édition Jean-Paul Rocher, Paris 1997.

Davis, Robert C. Christan Slaves, Muslim Masters . White Slavery in the Mediterranean, the Barbary Coast, and Italy, 1500-1800. Early Modern History. Palgrave Macmillan 2003.

Milton, Giles. White Gold. The Extraordinary Story of Thomas Pellow and Islam's One Million White Slaves. Hodder & Stoughton 2004.

Ólafur Egilsson. Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Sverrir Kristjánsson sá um útgáfuna. Almenna bókafélagið, Rvík 1969.

Tyrkjaránið á Íslandi 1627 . Ritstj. Jón Þorkelsson. Sögurit IV, Rvík 1906-1909.

Þorsteinn Helgason. Historical Narratives as Collective Therapy: the Case of the Turkish Raid in Iceland , Scandinavian Journal of History 1997. (Greinar Þorsteins er getið í bók Davis, Christian Slaves, Muslim Masters ).

Höfundur er rithöfundur.