Hrafn fari í mál við sjálfan sig Einar Karl Haraldsson "Orðið "saurriðill" er nýyrði Hrafns og enginn leynihöfundur að því. Honum væri sæmst að fara í mál við sjálfan sig út af því að bera þetta ljóta orð á opinberan embættismann." Ekki fallast...

Hrafn fari í mál við sjálfan sig Einar Karl Haraldsson "Orðið "saurriðill" er nýyrði Hrafns og enginn leynihöfundur að því. Honum væri sæmst að fara í mál við sjálfan sig út af því að bera þetta ljóta orð á opinberan embættismann."

Ekki fallast framkvæmdastjóra sjónvarpsins orð. Nýverið hefur hann á opinberum vettvangi kallað þingmann "rógtækni" og virtan menningarfrömuð "kerlingartusku". Og nú heldur hann því fram gegn betri vitund að hann hafi verið kallaður "saurriðill".

Þessi orðvari embættismaður má ekki vamm sitt vita og stendur nú í málaferlum við Vikublaðið vegna ummæla sem hann telur ærumeiðandi í sinn garð. Hildur Jónsdóttir ritstjóri blaðsins hefur beðist afsökunar á nokkrum ummælum sem birtust í kersknisdálkum blaðsins og flokkast gætu undir kjafthátt og uppásnúninga eins og svo algengir eru í íslenskum blöðum. Slíkt heyrir til ákveðnum augnablikum og andrúmi í umræðu og væri sumt að því betur óskrifað. Ekki bara í Vikublaðinu heldur almennt í íslenskum blöðum.

Í fangelsi fyrir skoðanir?

Ritstjóri Vikublaðsins er hins vegar reiðubúin að fara í fangelsi vegna skrifa sem snerta túlkun á skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisfærslu Hrafns Gunnlaugssonar og brúkun hans á opinberum sjóðum. Þar er um að ræða réttinn til þess að hafa skoðanir, túlka og ræða opinber málefni. Sá réttur verður nú sem fyrr varinn af sérhverjum ærukærum ritstjóra enda þótt veifað sé refsivendi og fangelsishótunum.

Þegar Vikublaðið leyfði sér að impra á málum framkvæmdastjóra sjónvarps höfðu á þriðja hundrað greinar, með vömmum og skömmum, birst í fjölmiðlum út af landsþekktu aðstöðusukki Hrafns Gunnlaugssonar. Lokapunkturinn á árinu var svo áramótaskaup sjónvarpsins þar sem gengið var mun lengra í lýsingum á eðliskostum framkvæmdastjóra heldur en nokkurn tíma í Vikublaðinu. Hrafn hefur ekki haft manndóm í sér til þess að stefna þeim fjölmiðli, sem hann stjórnar, fyrir ærumeiðingar í sinn garð, en lætur nægja að hnippa í forsætisráðherra. Hann ræðst svo á garðinn þar sem hann er hæstur, og stefnir Vikublaðinu.

Meiðandi nýyrði

Í fréttum Stöðvar 2 þriðja febrúar var rætt við Hrafn þar sem hann sagði orðrétt: ". . . ég var kallaður saurriðill á síðum Þjóðviljans nýlega. Ég veit ekki hvaðan það orð er komið eða hvaða leynihöfundur lá á bak við það orð . . ." (Leturbr. höf.) Hér hefur Hrafn tapað þræðinum og látið sér fipast. Þjóðviljinn hefur ekkert sagt nýverið vegna þess að hann er löngu dauður og eigi framkvæmdastjórinn við Vikublaðið þá dró blaðið þá ályktun af þáttunum "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" að hann og Baldur Hermannsson væru "áhugamenn um sauðariðla" og hefur beðist velvirðingar á þeim svigurmælum.

Orðið "saurriðill" er nýyrði Hrafns og enginn leynihöfundur að því. Honum væri sæmst að fara í mál við sjálfan sig út af því að bera þetta ljóta orð á opinberan embættismann. Sannleikurinn er sá að hann á fyrst og fremst í stríði við sjálfan sig og sín eigin hugarfóstur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins sem er útgefandi Vikublaðsins.