MEÐAL ANNARRA ORÐA Jakobína Njörð P. Njarðvík "Áfangastaður þinn, upphaf þitt, hvar er það nú? Það sem gerðist í gærkvöldi, í fyrrakvöld, eða kvöldið þar áður, einhversstaðar á það upptök.

MEÐAL ANNARRA ORÐA Jakobína Njörð P. Njarðvík "Áfangastaður þinn, upphaf þitt, hvar er það nú? Það sem gerðist í gærkvöldi, í fyrrakvöld, eða kvöldið þar áður, einhversstaðar á það upptök. Ef til vill var það ekkert sérstakt, og þó eitthvað sérstakt, áframhald eða endurtekning einhvers, sem upphófst í liðinni tíð, kannski langt að baki. Ef til vill að baki þess upphafs sem þú þekkir, sem þig grunar, sem enginn stafur er fyrir, sem var í öndverðu . . ."

Lifandi vatnið.

Sá sem lítur dagsins ljós á þröngum skika milli brattra fjalla og úthafsöldunnar, hann sér fyrir sér frá upphafi smæð manneskjunnar og reisn hennar í senn. Nyrst á Hornströndum þar sem fjöllin standa lóðrétt í köldum sjó er ekki mikið olnbogarými fyrir mannlega tilveru: klettar að baki og brim fyrir framan. Á slíkri syllu er manninum ætlað að lifa, og það gerði hann um aldir. Forsendan í raun tvöföld lífshætta við öflun viðurværis: fiskur í sjó og fugl í bjargi. Og svo fáein strá handa litlum bústofni.

Sá sem er settur til lífs við slík skilyrði, hann skynjar líkt og ósjálfrátt hversu naumt líf okkur er skammtað í raun og veru, þegar allt kemur til alls. Á slíkum stað hefur manneskjunni verið stjakað út á jaðar tilverunnar. Lengra verður henni ekki ýtt án þess að hún falli fyrir lífsbjörg sín. Þarna er lífið í daglegu návígi. Því verður tæpast lifað án þess að storka dauðanum í sífellu.

Sá sem fer frá slíkum fæðingarstað, hlýtur að færa hann með sér, hlýtur að taka með sér upphaf sitt. Því að upphafið verður ekki tekið frá neinum, þótt hann geti að vísu glatað því sjálfur. Því mun hann trúlega horfa á lífið með þessa útsýn: kletta að baki og brimið fyrir framan. Þetta er áþreifanlegt líf, tignarlegt og skelfilegt í einfaldleik sínum, - og tæpast rúm fyrir mikinn hégóma.

Hvaðan ertu kominn?

Þegar ég hugsa um Jakobínu Sigurðardóttur, sem nú hefur kvatt okkur, þá gríp ég bækur hennar úr skápnum og fletti, - og mér finnst upphaf hennar skýra hógværan en þó hvassan tón hennar. Og mér finnst að æviverk hennar snúist í raun um upphafið. Sífellt otar hún að þjóð sinni, lesanda sínum, sömu áleitnu spurningunni: hvaðan ertu kominn? Og henni fylgir áminning: eins lengi og þú manst hvaðan þú ert kominn þá veistu hver þú ert. Þegar þú hefur gleymt því, þá hefur þú um leið gleymt sjálfsvitund þinni.

Með þessu móti má sjá ritverk Jakobínu sem eina samfellu, eina heild. Þau snúast um alþýðufólk sem ræður litlu um örlög sín og gengur misjafnlega að læra að mæta því sem þau örlög leggja fyrir þau. Þeirri baráttu er lýst af innlifaðri samúð, oftast nær.

Jakobína skilur vel mannlegan breyskleika og ætlast ekki til þess að menn leysa allar þrautir með hetjuskap. Lífsbaráttan verður sumum ofjarl og aðrir hvorki sigra né eru sigraðir, heldur taka því sem að höndum ber með ófullkomleika sinn einan að vopni.

En samúðin hverfur þegar vikið er að einni tegund breyskleika, ef nota má það orð um þetta fyrirbæri. Jakobína sýnist ekki vilja fyrirgefa svik manna við uppruna sinn. Í því ljósi held ég að okkur beri að lesa þau verk hennar sem hafa þótt pólitískust.

Ef til vill má fyrst nefna söguna Í sama klefa (1981), af því að í henni ef teflt fram tveimur konum af tveimur kynslóðum sem verða samferða af tilviljun, önnur segir frá og hin hlustar og reynir að skilja. Grundvallarmunurinn á þessum konum er sá, að hin eldri átti tæpast nokkra valkosti. Hún varð að bera það hlutskipti sem henni var skammtað. Uppreisn hennar fólst í bönnuðum tilfinningum sem hún lét brjótast fram í áþreifanlegum veruleika. Og bar þess aldrei bætur. Sú sem hlustar á valkosti nútímans. Skilur hún (og lesandinn) það sem sagt er? Þessar konur hittast á ytra borði tilverunnar, en hafa þær forsendur til að hittast í raun og veru? Erum við búin að missa skilning á því lífi forfeðra okkar, sem við höfum sagt skilið við? Og ef við höfum misst þann skilning, hvað erum við þá?

Að týnast sjálfum sér

Kannski má tengja þessa spurningu tveimur bókum sem heita Snaran (1968) og Lifandi vatnið (1974). Í Snörunni er sagt frá manni sem er orðinn vinnu- og hugsanaþræll í þjónustu erlendrar stóriðju. Hér er þemað íslenskt þjóðerni andspænis alþjóðlegri auðhyggju. Við vitum að Jakobína fann sárt til með íslensku þjóðerni, sem hún taldi í hættu vegna erlendrar herstöðvar og ásælni erlendrar stóriðju. Hún þótti þess vegna mjög pólitískur höfundur. En sannast að segja hóf hún verk sín hátt yfir hið svokallaða pólitíska plan og þau eru ekki síður tilvistarlegs eðlis, snúast einmitt um tengsl manns við uppruna sinn.

Í Snörunni er firring mannsins orðin slík að hann réttlætir allt sem þó snýst gegn honum sjálfum. Þetta er maður sem stendur á haus án þess að gera sér grein fyrir því. Með því að týna uppruna sínum hefur hann glatað sjálfum sér. Snaran var gagnrýnd fyrir að birta óraunsæja lausn, því að afturhvarf til fyrra lífs væri enginn valkostur. Það er rétt eins langt og það nær. En þá held ég að menn hafi skilið boðskapinn of bókstaflegum skilningi. Við flytjumst ekki aftur norður í Hælavík til að síga í bjarg og afla fisks með handfæri í árabát. Mikil ósköp. En þar er uppruna okkar að finna. Við erum komin af bændum og fiskimönnum, og ef við gleymum því, þá missum við fótfestuna í viðleitni okkar til sjálfsskilnings.

Í Lifandi vatninu týnist maður öðrum, af því að hann fer að leita uppruna síns. Hann finnur auðvitað ekki sjálfan sig í æsku sinni, af því að æskan er horfin inn í hann sjálfan. En þessari sjálfsleit er lýst af næmum skilningi. Það er betra að týnast öðrum en sjálfum sér. Þegar þessi maður er kominn á upprunastað sinn og stendur við brú þar sem hann áður fyrr upplifði dauðann í lifandi vatni árinnar, þá finnur hann sárt til þess að hafa orðið viðskila við sjálfan sig. Þar finnum við hina sífelldu aðvörun Jakobínu:

"Þú horfir á þessa brú og finnst að allt hafi verið tekið frá þér. Upphaf þitt. Og þér er ljóst að upphaf þitt hefur horfið frá þér án vitundar þinnar. Þér er ljóst að hægt, en án afláts, hverfur upphaf manns frá honum, svo hægt að hann verður þess varla var, fyrr en hann stendur einn í nýrri, ókunnri veröld, við vegarkant, við brú, við týnda götu."

Lifandi vatnið.

Höfundur er rithöfundur og prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.