Vaxtalækkun fest í sessi Friðrik Sophusson "Með vaxtalækkuninni hefur einnig verið létt á greiðslubyrði heimilanna.

Vaxtalækkun fest í sessi Friðrik Sophusson "Með vaxtalækkuninni hefur einnig verið létt á greiðslubyrði heimilanna. Áætla má að hækkun á vöxtum hjá bönkum og sparisjóðum þýði um 17 þúsund króna útgjaldalækkun á ári fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu."

Eitt meginviðfangsefni ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur verið að koma á varanlegum breytingum í efnahagsmálum. Þannig hefur verið lagður grundvöllur að nýrri uppbyggingu atvinnulífsins og bættum kjörum fjölskyldna í landinu. Eitt mikilvægasta verkefnið í því sambandi hefur verið að ná niður vöxtum. Með lægri vöxtum fara atvinnufyrirtækin að fjárfesta og ráða til sín fólk, og skuldug heimili í landinu fá raunverulega kjarabót þegar dregur úr vaxtabyrðinni.

Hinn 2. nóvember sl. birtist grein eftir undirritaðan í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni "Nú er lag að lækka vexti". Þar voru tíundaðar fyrirhugaðar aðgerðir í vaxtamálum og undirstrikað að veigamesta aðgerðin í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væri sú ákvörðun fjármálaráðherra að taka ekki tilboðum í verðtryggð ríkisskuldabréf nema á svipuðum kjörum og bjóðast á erlendum lánamörkuðum. Að öðrum kosti myndi ríkissjóður afla lánsfjár á erlendum lánamarkaði.

Ótvíræður árangur

Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá því að greinin var skrifuð hefur þetta fyllilega gengið eftir. Hinn 1. febrúar fór fram fyrsta skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs á almennum markaði í Bandaríkjunum. Viðtökur ytra hafa verið mjög góðar eins og komið hefur fram í fréttum. Nú er ljóst að með þessu útboði og öðrum aðgerðum hefur m.a. tekist að veita innlenda markaðnum nægjanlegt aðhald. Vextir hafa lækkað og eru þeir nú orðnir í takt við það sem gerist í OECD-löndunum.

Það er ótvírætt merki um árangur efnahagsstefnunnar hversu góðar viðtökur útboð ríkissjóðs fékk á bandaríska markaðnum. Stöðugleiki í efnahagslífinu, lág verðbólga og ábyrg afstaða í fiskveiðimálum hafa aukið tiltrú á íslenskt efnahagslíf og stuðlað að því að bæta lánskjör íslenska ríkisins erlendis.

Betri hagur atvinnulífs og fjölskyldna

Flestir eru sammála því, að fáar ef nokkrar aðgerðir eru jafn mikilvægar til að treysta efnahagslífið og lækkun vaxta. Lægra verð á fjármagni stuðlar að nýjum fjárfestingum og hvetur fyrirtæki til að ráða fólk til nýrra starfa.

Með vaxtalækkuninni hefur einnig verið létt á greiðslubyrði heimilanna. Áætla má að hækkun á vöxtum hjá bönkum og sparisjóðum þýði um 17 þúsund króna útgjaldalækkun á ári fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þegar vaxtalækkunin hefur komið fram á öllum fjármagnsmarkaðnum munu þessi útgjöld lækka enn frekar. Þetta eru því raunverulegar kjarabætur fyrir heimilin í landinu.

Vaxtalækkun fest í sessi

Við Íslendingar erum að feta okkur út úr mesta efnahagssamdrætti sem orðið hefur í meira en hálfa öld. Við verðum þó að halda okkur við sett markmið og leggja áherslu á efnahagslegan stöðugleika og aðhald í ríkisrekstri. Ábyrg efnahagsstefna og víðtæk samvinna stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins hefur þegar skilað árangri á mörgum sviðum. Órækasti vitnisburður þess er sú vaxtalækkun, sem nú hefur verið fest í sessi.

Höfundur er fjármálaráðherra.

Friðrik Sophusson