Fjórir Akureyringar hefja veitingarekstur á Spáni Leigja þekktan Íslendingastað á Torremolinos FJÓRIR Akureyringar, flestir eigendur veitingastaðarins Greifans, munu taka við rekstri veitingastaðarins Pink Elefant á Torremolinos á Spáni, en þeir taka...

Fjórir Akureyringar hefja veitingarekstur á Spáni Leigja þekktan Íslendingastað á Torremolinos

FJÓRIR Akureyringar, flestir eigendur veitingastaðarins Greifans, munu taka við rekstri veitingastaðarins Pink Elefant á Torremolinos á Spáni, en þeir taka staðinn á leigu til eins árs frá 1. apríl næstkomandi. Þetta er þekktur Íslendingastaður", að söng Andra Gylfasonar eins fjórmenninganna, en hinir eru Hlynur Jónsson, Páll Jónsson og Sigurbjörn Sveinsson.

Pink Elefant er um 300 fermetrar að stærð og tekur um 200 til 250 manns í sæti. Þar er auk veitingaaðstöðu diskótek og stórt dansgólf, en staðurinn er þekktur meðal íslenskra gesta á þessari sólarströnd, sem sótt hafa hann í ríkum mæli, að sögn Andra.

Íslenskt

Andri sagði að ekki hefði verið lögð mikil áhersla á veitingaþáttinn upp á síðkastið, en breyting yrði þar á fljótlega eftir að þeir tækju við rekstrinum. Við byrjum á að bjóða upp á samlokur og fleira í þeim dúr, en síðan ætlum við að fikra okkur áfram hægt og rólega í matseldinni og sjá hvernig þetta þróast. Ég á von á að við munum bjóða upp á pizzur og þá ætlum við að leggja áherslu á íslenskan mat og treystum á að fá gott hráefni héðan yfir sumarmánuðina," sagði Andri, en hann mun stýra rekstrinum á Spánarströndum og flytja þangað ásamt fjölskyldu sinni.

Fjórmenningarnir taka við rekstrinum 1. apríl næstkomandi og leigja hann til eins árs til að byrja með. Reksturinn hefur að sögn Andra gengið vel og var hann bjartsýnn á að svo yrði áfram, enda væri búist við allt að 50% aukningu ferðamanna til Torremolinos í sumar miðað við það sem var í fyrra. Þessi staður er að ná sér upp úr nokkurri lægð og þeir aðilar í ferðaþjónustu sem ég ræddi við ytra spáðu sprengingu í sumar," sagði Andri.