Fyrirtæki Skipulagsbreytingar hjá Eimskip Hjörleifur Jakobsson ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarsviðs NOKKRAR breytingar á skipulagi Eimskips munu taka gildi um næstu mánaðamót, þann 1. mars.

Fyrirtæki Skipulagsbreytingar hjá Eimskip Hjörleifur Jakobsson ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

NOKKRAR breytingar á skipulagi Eimskips munu taka gildi um næstu mánaðamót, þann 1. mars. Ákveðið hefur verið að skipulagið skiptist í fjögur svið í stað þriggja áður með framkvæmdastjóra fyrir hverju sviði. Sett hefur verið á stofn rekstrarsvið í skipulaginu og verður Hjörleifur Jakobsson, framkvæmdastjóri þess en hann var áður forstöðumaður áætlanaflutninga. Hið nýja svið mun bera ábyrgð á rekstri flutningamiðstöðvar, skipa, gáma og annarra tækja félagsins. Markmiðið er að tryggja stöðuga þróun og hagkvæman rekstur þeirra tækja og búnaðar sem þarf til að annast flutningaþjónustu félagsins. Til viðbótar er um að ræða flutningasvið, fjármálasvið og þróunarsvið.

Markmiðið með þeim breytingum sem ákveðnar hafa verið hjá Eimskip er að leggja aukna áherslu á tengsl við viðskiptavini félagsins og þjónustu við þá, efla starfsemi félagsins erlendis og auka enn frekar hagkvæmni í rekstri og lækka kostnað. Með þessum breytingum er verið að aðgreina betur flutningaþjónustu og sölustarfsemi annarsvegar og rekstur flutningamiðstöðvar, skipa, gáma og annarra tækja hins vegar, að því er segir í frétt frá Eimskip.

Þórður Sverrisson er framkvæmdastjóri flutningasviðs og er hann jafnframt staðgengill forstjóra í fjarveru hans. Meginhlutverk þess er að annast flutningaþjónustu á íslenska markaðnum annarsvegar og erlendis hinsvegar. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs er Þórður Magnússon en helstu verkefni þess er fjármálastjórnun og fjármagnsstýring, starfsmanna- og starfsþróunarmál, aðalbókhald og áætlanagerð, tryggingar og tjónamál auk stjórnunar upplýsingavinnslu. Framkvæmdastjóri þróunarsviðs er Þorkell Sigurlaugsson en það mun áfram annast yfirumsjón stefnumarkandi áætlana og markmiðsáætlana félagsins auk ýmissa þróunarverkefna.

Auk ofangreindra breytinga verða ýmsar tilfærslur milli einstakra deilda og nýjar deildir verða stofnaðar. Þá verða sömuleiðis nokkrar tilfærslur á forstöðumönnum á skrifstofum félagsins erlendis þann 1. mars.