Lloyd's spáð enn meira tapi London, 8. febrúar. Reuter.

Lloyd's spáð enn meira tapi London, 8. febrúar. Reuter.

BREZKIR markaðssérfræðingar segja að í ljós muni koma þegar skýrslur tryggingafyrirtækisins Lloyd's fyrir árið 1991 verði lagðar fram í maí að félagið hafi orðið fyrir öðru margra milljarða punda tapi og að heildartap þess síðastliðin fjögur ár nemi alls 7,5 milljörðum punda.

Markaðsrannsóknafyrirtækið Chatset áætlar að tapið 1991 nemi 2,05 milljörðum punda og spáir líka tapi 1992. Tapið verður sérstaklega tilfinnanlegt fyrir einkafjárfesta, sem þegar hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum.

Upphaflega löðuðust einkafjárfestar að Lloyd's því að fjárfesting þeirra var undanþegin skatti, en nú eru margir þeirra slyppir og snauðir og aðrir hafa verið lýstir gjaldþrota. Hins vegar segir Chatset að ástandið sé smám saman að batna eftir mettapið 1990 er nam 2,9 milljörðum punda.

Um 60% einkafjárfesta Lloyd's hafa hafnað 900 milljóna punda skaðabótatilboði Lloyd's, sem vill komast hjá málaferlum vegna ásakana um vanrækslu að sögn Michaels Deenys, leiðtoga fjölmennustu samtaka einkafjárfesta sem vilja bæta sér upp það tap sem þeir hafa orðið fyrir.

Deeny telur Chatset-rannsóknina sýna að ekki borgi sig fyrir einkafjárfesta að ganga að tilboði Lloyd's fyrr en þeir viti gjörla hve miklu tapi þeir hafi orðið fyrir.

Chatset segir að 1993 virðist hafa verið hagstætt ár fyrir Lloyd's, ef til vill hið bezta frá 1986. Það ár var methagnaður hjá Lloyd's ­ 649,4 milljónir punda.