Verslun Skatti á bílageymslur Kringlunnar mótmælt VERSLUNARRÁÐ Íslands hefur sent erindi til félagsmálaráðherra þar sem lýst er áhyggjum ráðsins af því að lagður sé á bílageymslur Kringlunnar sérstakur skattur af verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Verslun Skatti á bílageymslur Kringlunnar mótmælt

VERSLUNARRÁÐ Íslands hefur sent erindi til félagsmálaráðherra þar sem lýst er áhyggjum ráðsins af því að lagður sé á bílageymslur Kringlunnar sérstakur skattur af verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Telur ráðið bæði óeðlilegt að ósanngjarnt að greiða skatt þennan af bílageymslum sem byggðar hafi verið sérstaklega við húsið. Eigendur húsnæðis eða verslana annarsstaðar í borginni þurfi ekki að greiða þennan skatt þar sem Reykjavíkurborg sjái þeim fyrir bílageymsluhúsum þeim að kostnaðarlausu.

Í erindi ráðsins er á það bent að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi sent frá sér leiðbeiningar um framkvæmd þessa skatts. Með hliðsjón af efnisinnihaldi þessara leiðbeininga og deilumála sem upp hafi risið vegna þessa skatts á liðnum árum sé við því að búast að jafnræðisreglan við framkvæmd skattsins verði ekki í heiðri höfð. Í þessu sambandi er sérstaklega bent á það misræmi við ríki milli fyrirtækja í Kringlunni og fyrirtækja annarsstaðar í borginni gagnvart skattinum. Yfirskattanefnd hafi úrskurðað sérstaklega að þær myndi skattstofn.

Þá segir í bréfi ráðsins að sama megi segja um sameiginleg svæði innanhúss í kringlunni þ.e. göngugötur, torg o.fl. Annarsstaðar í borginni þurfi eigendur verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ekki að greiða slíkan skatt þar sem borgaryfirvöld sjái þeim fyrir gangstígum og torgum án innheimtu þessa skatts.

"Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði mismunar atvinnugreinum í landinu og virkar eins og aðstöðugjaldið sáluga með tilliti til þess að hér er um kostnaðarskatt að ræða sem tekur ekki mið af afkomu einstakra aðila. Jafnframt hefur hann þau áhrif að verð er hærra en ella hér á landi," segir ennfremur," segir ennfremur í erindinu. Óskar Verslunarráðið eftir að fá tækifæri til að veita umsögn um væntanlega reglugerð sem Félagsmálaráðuneytið mun gefa út innan tíðar um álagningu sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.