Kælt og fryst Bókmenntir Sigurjón Björnsson Sveinn Þórðarson. Fæða fryst. Saga kælitækni. Safn til Iðnsögu Íslendinga, VII. bindi. Ritstjóri: Jón Böðvarsson. Hið íslenska bókmenntafélag 1993, 378 bls.

Kælt og fryst Bókmenntir Sigurjón Björnsson Sveinn Þórðarson. Fæða fryst. Saga kælitækni. Safn til Iðnsögu Íslendinga, VII. bindi. Ritstjóri: Jón Böðvarsson. Hið íslenska bókmenntafélag 1993, 378 bls.

Þó að þessi bók sé sjöunda bindið í ritröðinni Safn til Iðnsögu Íslendinga er hún samt áttunda bókin. Þriðja bindið var tvær bækur og svo er að sjá sem bæði fyrsta og fjórða bindi verði fleiri en ein bók. Það stefnir því allt í átt til þess að Iðnsagan verði feiknamikið ritverk. Er því að líkindum vel farið ef svo verður áfram sem undanfarið að engu er ofaukið sem þar er sagt.

Eins og skýrt er tekið fram í upphafi bókar er kælitækni ekki ein iðngrein í venjulegri merkingu. Hún tekur til fleiri en einnar iðngreinar, tækni og fagsviða. En þessar greinar sameinast hér í einu viðfangsefni. Sameining þessi endurspeglast í því að snemma árs 1988 var stofnað Kælitæknifélag Íslands. Félagið var ekki eldra en tvæveturt þegar samþykkt var tillaga um að skrifuð yrði saga kælitækni á Íslandi. Í sögunefnd voru skipaðir Björgvin Frederiksen, Baldur Sveinsson og Sveinn Jónsson. Ungur sagnfræðingur, Sveinn Þórðarson, var fenginn til að rita söguna og Safn til Iðnsögu Íslendinga tók að sér að gefa hana út.

Sennilega hugsa fæstir um það hversu kæling og frysting á matvælum er mikil undirstaða að nútíma lífi, atvinnu- og viðskiptaháttum. Nú er þetta talið svo sjálfsagt að ekki tekur því að tala um það. Kæliskápar og frystikistur eru á hverju heimili og í verslunum. Fiskur er ísaður og frystur um borð í skipum og frystihús eru á hverju strái. Fiskur og kjöt er flutt milli landa í kæliskipum og kældum gámum o.s.frv., o.s.frv.

Smávegis hefur mátt lesa á víð og dreif um fyrstu tilraunir til kælingar, einkum á beitu, þ.e. fyrstu ískjallarana og íshúsin skömmu eftir aldamótin. En mikið vatn hefur til sjávar runnið frá því að menn voru að brjóta ís á Reykjavíkurtjörn. Mikil þróun hefur orðið og miklu hugviti beitt. Sú saga hefur til þessa verið óskráð og mestanpart geymd í minni langminnugra manna, sem við sögu koma. Þeir menn höfðu í öðru að snúast en skrifa um athafnir sínar. Af þessum sökum hefði mikil og merkileg saga fallið í fyrnsku ef hið unga Kælitæknifélag hefði ekki haft fyrirhyggju um að láta skrá hana áður en það varð um seinan. Lán var það einnig að fá glöggan og ritfæran sagnfræðing til verksins sem hefur skilað af sér prýðilega læsilegri og efnismikilli bók.

Í sjö alllöngum köflum er þessi saga rakin frá upphafi til síðustu ára og spannar hún megnið af þessari öld. Í fyrstu köflum koma frumkvöðlarnir síra Oddur Gíslason, Ísak Jónsson og Jóhannes Nordal ásamt nokkrum öðrum allmjög við sögu. Síðar þegar véltækni kemur til skjalanna verða það Ingólfur Esphólín og í kjölfar hans Björgvin Frederiksen auk ýmissa fleiri. Bak við hina sögðu sögu skynjar maður stundum aðra sögu öllu átakameiri og á stundum ekki sársaukalausa. Varð mér hugsað til þess er ég las um Ingólf.

Eftir styrjöldina síðari fara framfarir að verða örari. Skipafloti landsmanna eykst og kröfur um vörugæði verða meiri. Virðist ekkert lát á þeirri þróun. Allt útheimti þetta aukna kælitækni, meiri mannafla og vandaðri frystihús. Um allt þetta er fróðleg og efnismikil lesning á síðum þessarar bókar. Ég er að sjálfsögðu ekki þess umkominn að ganga úr skugga um hvort eitthvað hefur skolast til um staðreyndir eða hvort eitthvað hefur gleymst sem þarna ætti að vera. Ólíklegt þykir mér þó að mikil brögð séu að því, þar sem gjörkunnugir menn voru með í ráðum.

Persónulega fannst mér einkar ánægjulegt að lesa þessa vel sögðu sögu um efni sem ég var alls ókunnugur áður. Þar fyllist í skarð þekkingar.

Bókin er að sjálfsögðu með sama sniði og önnur rit í þessu safni. Talsvert er af fróðlegum sögulegum myndum, spássíugreinum og innfeldum rammatextum. Skrár allar eru vandaðar og miklar, tæpar 60 bls., eins og vera ber um ritverk af þessu tagi.

Sveinn Þórðarson