Bollu- og sprengidagur Fyrsta uppskrift af bolludagsbollum hérlendis er í matreiðslubók Nikolínu frá 1858, en þar heita bollurnar langaföstusnúðar (Fastelavnsboller).

Bollu- og sprengidagur Fyrsta uppskrift af bolludagsbollum hérlendis er í matreiðslubók Nikolínu frá 1858, en þar heita bollurnar langaföstusnúðar (Fastelavnsboller). Bollur þessar eru í meginatriðum eins og þær bollur, sem við borðum í dag og í þær notað lifandi ger, sem var búið til á heimilunum. Í það var notaður humall og kartöflur. Nú notum við pressuger eða þurrger. Það var svo ekki fyrr en árið 1911 að í Kvennafræðara Elínar Briem birtist uppskrift af kökusnúðum (Fastelanvsboller). Sú uppskrift er ekki í fyrri útgáfum Kvennafræðarans. Þær bollur eru með lyftidufti og hjartarsalti. Nú eru öll blöð full af bolluuppskriftum enda enginn vafi á að bollubakstur hefur færst í vöxt á heimilum og vertíð mikil hjá bökurum, sem baka myrkranna á milli og engin kvótatakmörkun á þeim bakstri. Einn ungur vinur minn borðaði 17 bollur á bolludaginn í fyrra. Ég veit ekki hvort hann borðaði baunir og saltkjöt daginn eftir - á sprengidaginn - öllu líklegra að hann hafi bara sprengt sig á bolluáti daginn áður í staðinn.

Að borða baunir og saltkjöt á sprengidag mun vera síðari tíma siður. Er sá siður vel til fundinn, þar sem þetta er þungt í maga og fátt betra til að sprengja sig á. Hér birtist uppskrift að þeim baunum, sem ég er vön að elda á sprengidag.

Saltkjöt og baunir

6 dl gular hálfbaunir

1 lítri kalt vatn til að leggja baunirnar í bleyti í

1 lítri vatn til að sjóða baunirnar og kjötið í

1 kg saltkjöt, sem er ekki mjög salt

1 meðalstór laukur

1. Yfirleitt er betra að afvatna saltkjötið í nokkrar klukkustundir.

2. Leggið baunirnar í bleyti í kalt vatn og látið standa í um 12 klst. Hellið þá á sigti og látið renna af þeim.

3. Hitið 1 lítra af vatni, setjið baunirnar í, látið sjóða. Þá kemur mikil froða ofan á, fleytið hana af.

4. Setjið saltkjötið út í, afhýðið lauk, skerið í fernt og setjið í ásamt lárviðarlaufi. Sjóðið við hægan hita í 1 klst. Fleytið froðuna sem myndast ofan af.

Kökusnúðar (bollur úr Kvennafræðaranum).

Í þessari uppskrift eru notaðar mælieiningarnar kvint og pund, einnig er notað smjör. Hér er notað smjörlíki og mælieiningarnar færðar í nútímabúning.

Í uppskriftinni er 1 peli af mjólk. Það er of mikið, enda hugsanlegt að hveitið sem þá var notað hafi verið öðru vísi.

50 g sykur

150 g smjörlíki

2 dl (1 peli) mjólk

500 g hveiti

tsk. steyttar kardimommur eða tsk. dropar

2 tsk. lyftiduft

1 tsk. hjartarsalt

1 eggjarauða til að pensla með

1. Hrærið sykur og hveiti vel saman.

2. Blandið saman hveiti, lyftidufti og hjartarsalti. Setjið saman við ásamt mjólk og kardimommum (dropum).

3. Búið til 20 bollur, mótið með höndunum. Penslið með eggjarauðunni.

4. Hitið bakaraofn í 190C, blástursofn í 170, setjið í miðjan ofninn og bakið í 30 mínútur.

Vatnsdeigsbollur

150 g smjörlíki

2 dl vatn

150 g hveiti

6 egg

1. Setjið smjörlíki og vatn í lítinn pott og látið sjóða.

2. Setjið allt hveitið saman við og hrærið fljótt saman. Setjið í skál og látið kólna.

3. Setjið í hrærivélarskál. Setjið eitt egg í senn út í og hrærið mjög vel. Hrærið nokkra stund eftir að síðasta eggið er komið í.

4. Setjið á bökunarpappír á bökunarplötu með skeið eða sprautið úr poka. Þetta stækkar og blæs út.

5. Hitið bakaraofninn í 200C, blástursofn í 180. Setjið í miðjan ofninn og bakið í um 20 mínútur. Ekki má opna ofninn fyrstu mínúturnar.

6. Smyrjið bollurnar með bræddu súkkulaði eða flórsykur/kakóblöndu. Setjið síðan rjóma og sultu eða búðing inn í.

Athugið: Auðveld aðferð við að bræða súkkulaði: Hitið bakaraofn í 70C, setjið súkkulaðið á eldfastan disk inn í ofninn. Það bráðnar á nokkrum mínútum og helst lengi mjúkt og heitt á diskinum og auðvelt að smyrja því á.