Norska kirkjan gagnrýnir setningu Lillehammer-leikanna Óguðlegt að lofsyngja Seif Ósló. Reuter.

Norska kirkjan gagnrýnir setningu Lillehammer-leikanna Óguðlegt að lofsyngja Seif Ósló. Reuter.

NORSKIR kirkjuleiðtogar gagnrýndu fyrirhugaða setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Lillehammer harðlega í gær, sögðu hana óguðlega og ekkert annað en lofgjörð til fornra grískra guða.

Sextán æðstu menn norsku kirkjunnar, þar á meðal þrír biskupar, skrifuðu framkvæmdaraðilum leikanna í Lillehammer og hvöttu til þess að Ólympíuóðurinn yrði ekki leikinn við setningarathöfnina næstkomandi laugardag þar sem hann stangaðist á við kristinn boðskap.

Óðurinn var saminn fyrir einni öld og er bæn til Seifs, Ólympíuguðsins, þar sem hann er beðinn að blessa leikana. Stór kór sem í verða bæði fullorðnir og börn munu syngja lofsönginn við setningarathöfnina. Talsmaður framkvæmdaraðila leikanna sagði að ósk klerkanna yrði ekki tekin til greina og óðurinn hefði ekki valdið vanda til þessa á fyrri leikum.

Vinsælasti íþróttamaður Noregs, skíðagöngumaðurinn Vegard Ulvang, gagnrýndi Juan Antonio Samaranch, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), í fyrradag, sagði slæmt fyrir íþróttirnar að hann stýrði nefndinni en Samaranch var ráðherra í einræðisstjórn Francos á Spáni á sínum tíma. Ummælin þóttu koma á óvart þar sem Ulvang hafði verið útnefndur til að sverja Ólympíueið fyrir hönd keppenda við setningarathöfnina. Framkvæmdastjóri IOC gagnrýndi ummælin í gær en ekki er gert ráð fyrir öðru en Ulvang sverji eiðinn.