Bréf Vinnuveitendasambandsins til félagsmálaráðherra vegna úthlutana Atvinnuleysistryggingasjóðs Grundvallarregla um að mismuna ekki fyrirtækjum brotin Formaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vísar gagnrýninni á bug PÉTUR Sigurðsson, formaður...

Bréf Vinnuveitendasambandsins til félagsmálaráðherra vegna úthlutana Atvinnuleysistryggingasjóðs Grundvallarregla um að mismuna ekki fyrirtækjum brotin Formaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vísar gagnrýninni á bug

PÉTUR Sigurðsson, formaður Atvinnuleysistryggingasjóðs, vísar á bug ásökunum Þórarins V. Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, að tvær nýlegar styrkveitingar sjóðsins gangi þvert á þá grundvallarreglu sjóðsins að mismuna ekki fyrirtækjum í fjárveitingum vegna atvinnuskapandi verkefna. Í bréfi framkvæmdastjórans til Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, af þessu tilefni segir: "Það eru fráleit vinnubrögð, að halda uppi skattheimtu á allan atvinnurekstur til þess síðan að niðurgreiða beint vinnuaflskostnað einstakra fyrirtækja eftir frjálsu mati meirihluta stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á hverjum tíma. Slíkt stríðir alvarlega gegn viðteknum sjónarmiðum um hlutverk og heimildir þeirra, sem ákveða, innheimta og ráðstafa skattpeningum borganna."

Í bréfinu er rakin forsaga framlaga til atvinnuskapandi verkefna í sveitarfélögum og að heimild til styrkja takmarkist við þá fjármuni sem beint spöruðust sjóðnum við ráðningu atvinnulausra til umræddra verkefna. Stjórn sjóðsins hafi lagt það til grundvallar að styrkja ekki viðfangsefni sem raskað gætu samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja eða falið í sér mismunun og þessi afstaða hafi verið áréttuð á fundi stjórnarinnar í fyrradag þar sem eftirgreint hafi verið fært til bókar: "Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs áréttar fyrri afstöðu sína, að ekki komi til álita að veita styrki úr sjóðnum til niðurgreiðslu á vinnuafli í fyrirtæki, sem er í hliðstæðum rekstri og önnur fyrirtæki í landinu, þannig að um mismunun verði að tefla. Slík röskun á samkeppnisstöðu fyrirtækja felur í sér óþolandi mismunun og getur leitt til þess að störfum fækki annars staðar."

Styrkur til fjárfestingar

Síðan segir: "Þrátt fyrir þessa afstöðu fór svo á fundinum, að meirihluti sjóðsstjórnar mælti með því, að einu sveitarfélagi yrði veittur styrkur úr sjóðnum, sem svari til atvinnuleysisbóta 100 manna í einn mánuð, vegna styrkveitingar þessa sama sveitarfélags til fiskvinnslufyrirtækis í bænum. Sá styrkur mun hafa átt að greiða fyrir hluta fjárfestingar til að auka afköst við loðnufrystingu á komandi loðnuvertíð, og þannig leggja grundvöll að rúmlega tvöföldun starfsmannafjölda í 4­6 vikur frá því sem var á síðustu vertíð. Á sama fundi var einnig samþykkt af meirihluta sjóðsstjórnar að styrkja endurnýjun fiskvinnsluhúss á Suðurnesjum, svo stunda megi þar saltfiskvinnslu.

Þessar styrkveitingar ganga báðar þvert á þá grundvallarreglu sem stjórnin hafði markað, um að mismuna ekki fyrirtækjum, nema því aðeins að sjóðurinn fylgi því eftir með almennum styrkveitingum til allra þeirra sem hyggjast auka við loðnufrystingu frá því sem var á síðustu vertíð. Sömuleiðis er vandséð, hvers aðrir saltfisksverkendur eiga að gjalda, ef þeir fá ekki stuðning til að dytta að húsum eða búnaði. Raunar kemur mjög á óvart skyndileg þörf fyrir opinberan fjárstuðning til að auka á vinnslurými í sjávarútvegi, þar sem umræðan hefur fremur snúið að mikilvægi þess að úrelda og fækka fiskvinnsluhúsum."

Engin gagnrýni

Pétur Sigurðsson sagði að í þessu fælist engin gagnrýni á úthlutanir sjóðsins og þetta væri varla svaravert. Ef farið væri yfir úthlutanir sjóðsins frá því byrjað hefði verið að úthluta til átaksverkefna mætti alltaf finna svona flöt á þeim úthlutunum. "Mér er nákvæmlega sama hvort í hlut ætti Alusuisse eða Unilever. Ef þeir fjölga mönnum í vinnu og taka þá út af atvinnuleysisskrá er nákvæmlega sama hvaða nafn er á fyrirtækinu," sagði Pétur.

Hann sagði að engin þversögn væri á ferðinni hvað varðaði þá bókun sem vísað er til í bréfi VSÍ og þá úthlutun sem væri einangruð. "Það er engin mismunun í þessu. Loðnubræðslur í Vestmannaeyjum, á Eskifirði og í Þorlákshöfn eru alveg jafn færar um að sjá um sig sjálfar og þær hafa verið," sagði Pétur. Hann sagði að með nýjum tækjabúnaði gerði Grandi, sem er annað fyrirtækjanna sem um ræðir, mögulegt að taka á móti meira magni af loðnu en áður og þar með að hægt væri að ráða miklu fleiri menn í vinnu þann stutta tíma sem hrognavinnslan stæði.

"Þetta allt saman fellur mjög vel að þeim reglum sem við höfum verið að vinna eftir. Ég vara Vinnuveitendasambandið við því að vera með eltingarleik við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs í sambandi við úthlutun til átaksverkefna. Ég hélt að það væri þeirra hagur að eyða atvinnuleysinu en ekki auka það. Annars væru þeir að sanna þá kenningu að það sé betra fyrir vinnuveitendur að hafa hér verulegt atvinnuleysi," sagði Pétur.

Pétur sagði það verðugra verkefni fyrir framkvæmdastjóra VSÍ að koma fram með einhverjar úrlausnir til að auka atvinnu hér á landi.