Nefnd skoði ákveðin atriði nýju skaðabótalaganna Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn einhvern næstu daga ALLSHERJARNEFND Alþingis hefur farið fram á við dómsmálaráðherra að hann skipi þriggja manna nefnd til að skoða ákveðin atriði í skaðabótalögunum sem...

Nefnd skoði ákveðin atriði nýju skaðabótalaganna Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn einhvern næstu daga

ALLSHERJARNEFND Alþingis hefur farið fram á við dómsmálaráðherra að hann skipi þriggja manna nefnd til að skoða ákveðin atriði í skaðabótalögunum sem tóku gildi 1. júlí á síðasta ári. Að sögn Ara Edwalds, aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, verður nefndin skipuð einhvern næstu daga og henni falið að taka afstöðu til þeirra viðfangsefna sem allsherjarnefnd leggur til.

Í bréfi sem allsherjarnefnd ritaði Þorsteini Pálssyni dómsmálaráðherra segir að nefndin hafi tekið skaðabótalögin til umræðu, m.a. í kjölfar rökstuddrar ábendingar nokkurra lögmanna um þörf hugsanlegra lagabreytinga, og að nefndin hafi jafnframt fengið rökstudd svör við þessum ábendingum frá þeim sem á sínum tíma samdi frumvarpið til laganna. Þá segir í bréfinu að til þess að taka afstöðu til þessara ábendinga og svara við þeim fari allsherjarnefnd þess á leit við dómsmálaráðherra að hann skipi þriggja manna nefnd sem verði falið að taka afstöðu til þess hvort efni séu til að breyta lögunum. Nefndin gerir að tillögu sinni að Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Skaftason, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður verði skipaðir í nefndina.

Börnin á gula ljósinu

Eitt viðfangsefna þriggja manna nefndarinnar er til komið vegna erindis Auðar Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðings til allsherjarnefndar um ungmenni sem urðu fyrir líkamstjóni áður en lögin gengu í gildi en áttu óuppgerð skaðabótamál við gildistöku þeirra. Auður ritaði nefndinni bréf í október sl. um málið og aftur 20. janúar sl. þar sem hún óskaði svara við því hvort erindi hennar hefði fengið umfjöllun hjá nefndinni.

Sólveig Pétursdóttir, formaður allsherjarnefndar, segir að erindi Auðar hafi verið tekið fyrir á fundi allsherjarnefndar fyrir nokkrum dögum og þá hefði verið ákveðið að eitt af viðfangsefnum áðurnefndrar þriggja manna nefndar yrði að leggja mat á hvort lagalega sé unnt að breyta skaðabótalögunum til að bæta stöðu fólks sem orðið hefði fyrir líkamstjóni fyrir gildistöku laganna og sé í ýmsum tilvikum verr sett um bætur heldur en verið hefði ef lögin hefðu tekið til þeirra, án þess að um leið yrðu gerðar aðrar breytingar sem yrðu öðrum í óhag.

Nefndinni er gert að ljúka störfum eigi síðar en um miðjan mars.