Reglugerðum um vatnsog holræsagjöld breytt Umboðsmaður Alþingis ályktaði að innheimta vatns- og holræsagjalds í Hafnarfirði væri andstæð lögum REGLUGERÐ um vatnsveitu sveitarfélaga verður breytt til samræmis við lög að sögn Sesselju Árnadóttur lögfræðings...

Reglugerðum um vatnsog holræsagjöld breytt Umboðsmaður Alþingis ályktaði að innheimta vatns- og holræsagjalds í Hafnarfirði væri andstæð lögum

REGLUGERÐ um vatnsveitu sveitarfélaga verður breytt til samræmis við lög að sögn Sesselju Árnadóttur lögfræðings í félagsmálaráðuneyti. Hún segir einnig að breyta þurfi ákvæðum í reglugerðum um holræsi til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis en hann taldi innheimtu vatns- og holræsagjalds í Hafnarfjarðarbæ andstæða lögum á þeim forsendum sem sveitarfélagið taldi heimilt að leggja til grundvallar gjaldheimtunni.

Við ákvörðun vatnsgjalds er 0,2% af endanlegu fasteignamatsverði lagt til grundvallar en sveitarstjórn taldi sig hafa heimild til gjaldlagningar með hliðsjón af líklegum álagningarstofni og að sama gilti um holræsagjaldið. Tók umboðsmaður fyrir kvörtun eigenda tiltekinnar fasteignar í Hafnarfirði yfir álagningu vatnsog holræsagjalds fyrir árið 1992. Sesselja Árnadóttir segir að tekin hafi verið ákvörðun um að lagfæra reglugerðir um vatnsveitu sveitarfélaga í kjölfar álitsins og þau ákvæði sem þyrfti að breyta í reglugerð um holræsi. Vatnalög gilda fyrir öll sveitarfélög á landinu og segir Sesselja að fyrst um sinn verði reglugerðin lagfærð en lögin sjálf endurskoðuð í vetur. Guðmundur Benediktsson bæjarlögmaður í Hafnarfirði segir að eigendur umræddrar fasteignar geti farið í mál við sveitarfélagið og krafist skaðabóta en ekki þurfi endilega til þess að koma.

Í áliti umboðsmanns segir að tekjuöflun opinberra aðila verði að byggjast á heimild í lögum óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu sem í té er látin. Einnig segir að það grundvallarsjónarmið gildi um skatta að þeir séu lagðir á og innheimtir óháð þeirri þjónustu sem ríkið veiti einstökum skattgreiðanda. Við ákvörðun þjónustugjalda skuli gæta þess að fjárhæðin verði ekki hærri en sá kostnaður sem almennt sé af þeirri þjónustu. Í greinargerð frumvarps til vatnalaga segi að ekki sé ætlast til þess að holræsi verði nokkurn tíma skattstofn og sé ætlunin að fjárhæð þjónustugjalda taki mið af kostnaði við annað en þjónustu verði að koma fram í lögum við hvaða gjaldstofn eigi að miða og hvernig eigi að reikna út gjaldið. Fram kemur í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1992 að fleiri kvartanir út af gjaldtöku og skattheimtu hafi borist embættinu en árin á undan og því sé ljóst að árétta þurfi grundvallarreglur um skatta og gjöld.