Rætt við loðnuskipstjóra á Neskaupstað Um að gera að moka þessu upp meðan hægt er Neskaupstað, frá Guðmundi Guðjónssyni, blaðamanni Morgunblaðsins. ENN er mikil loðnuveiði á miðunum fyrir austan land þrátt fyrir að bræla hafi verið þar í fyrrinótt.

Rætt við loðnuskipstjóra á Neskaupstað Um að gera að moka þessu upp meðan hægt er Neskaupstað, frá Guðmundi Guðjónssyni, blaðamanni Morgunblaðsins.

ENN er mikil loðnuveiði á miðunum fyrir austan land þrátt fyrir að bræla hafi verið þar í fyrrinótt. Skipverjar á Guðrúnu Þorkelsdóttur SU 211, sem var að landa 300 tonnum á Eskifirði, sögðu mikið af loðnu á miðunum.

Aflann fékk Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 á Lónsbugt sem er 4­5 tíma stím með aflann. Höfðu skipverjar áhyggjur af slæmri veðurspá, en sunnan- og suðvestanáttir væru nánast samnefnari fyrir brælu. "Loðnan getur dreift sér og horfið hvenær sem er og þegar við bætist slæm spá, er um að gera að moka þessu upp á meðan hægt er.

Úrvals hráefni

Loðnan sem skipað er upp úr skipum í Austfjarðarhöfnum þessar stundirnar fer að í frystingu og að sögn sjómanna og verkenda sem blaðamaður ræddi við fyrir austan í gær er hún úrvalshráefni til þess arna.

Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki NK 122 sagði að skipið hefði verið að veiðum sunnan við Hvalsnes og þar hefði verið mokveiði, lélegt að vísu í fyrrinótt en mokstur um kvöldið og aftur undir morgun. Verið var að landa 1.270 tonnum úr Berki og fór mikið af því í frystingu um borð í frystitogarann Barða sem liggur í höfninni á Neskaupstað. Sturla taldi að það tæki u.þ.b. 6 klst. að landa úr skipinu og yrði þá óvinsamleg veðurspá tekin til skoðunar.

Kærkomið aukaverkefni

Sveinn Benediktsson skipstjóri á frystitogaranum Barða NK 120, sem liggur þessa dagana við bryggju í Neskaupstað, sagði það kærkomið aukaverkefni að komast í loðnufrystingu þar sem kvóti væri svo lítill. Þeir ynnu á 2 átta manna vöktum og myndu frysta svo lengi sem hráefni bærist til þeirra. "Þetta er í fyrsta sinn sem við fáum svona verkefni og mér sýnist það vera forsmekkurinn af því sem koma skal", sagði Sveinn, en á þriðja tug tonna höfðu um hádegi í gær verið fryst í Barða síðan kl. 4.30 á þriðjudagsmorgunn.

Morgunblaðið/Sverrir

Horft úr brúnni

STURLA Þórðarson skipstjóri á Berki NK 122 fylgist athugull með úr brúnni um leið og hann talar í símann.

Í lestinni

SVEINN Benediktsson skipstjóri á Barða NK 120 fylgist með vinnslunni um borð.