Útboð Skógræktarinnar Barri hf. framleiðir 800 þúsund plöntur SKÓGRÆKT ríkisins og Ríkiskaup hafa tekið tilboði Barra hf. á Egilsstöðum í ræktun 800 þúsund skógarplantna vegna Landgræðsluskóga 1995 og 1996.

Útboð Skógræktarinnar Barri hf. framleiðir 800 þúsund plöntur

SKÓGRÆKT ríkisins og Ríkiskaup hafa tekið tilboði Barra hf. á Egilsstöðum í ræktun 800 þúsund skógarplantna vegna Landgræðsluskóga 1995 og 1996. Barri átti lægsta tilboð í ræktunina, rúmar 11,5 milljónir króna.

Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt útboð fer fram hjá Skógrækt ríkisins. Um er að ræða ræktun á ýmsum skógarplöntum, s.s. birki, elri, lerki, sitkagreni, stafafuru og bergfuru. Af einstökum trjátegundum er mest af birki í útboðinu, eða 380 þúsund plöntur. Plönturnar eiga að vera tilbúnar 1995 og 1996 og fara þær til útplöntunar um allt land.

Alls bárust 9 tilboð í ræktunina og náðu þau ýmist til allrar framleiðslunnar eða hluta hennar. Þrjú lægstu tilboðin voru frá Barra hf., Gróðrarstöðinni Mörk í Reykjavík, sem bauð einnig í alla framleiðsluna og nam tilboðsupphæðin tæpum 15 milljónum, og Borgarprýði á Akranesi.