Aðild Noregs að Evrópusambandinu Enn hert á kröfunum við Norðmenn Ósló. Frá Jan Gunnar Furuly, fréttaritara Morgunblaðsins. FRAKKAR munu krefjast tolla af norskum fiski jafnvel þótt Noregur fái aðild að Evrópusambandinu (áður Evrópubandalaginu, EB).

Aðild Noregs að Evrópusambandinu Enn hert á kröfunum við Norðmenn Ósló. Frá Jan Gunnar Furuly, fréttaritara Morgunblaðsins.

FRAKKAR munu krefjast tolla af norskum fiski jafnvel þótt Noregur fái aðild að Evrópusambandinu (áður Evrópubandalaginu, EB). Kom þetta fram hjá Alain Lamassoure, Evrópumálaráðherra Frakklands, í gær. Þá hafa Spánverjar einnig hert á kröfum sínum um aukna kvóta í norskri fiskveiðilögsögu.

Í viðræðunum um sjávarútvegsmálin vegna hugsanlegrar aðildar Noregs að Evrópusambandinu er sótt að norsku samningamönnunum úr mörgum áttum. Jan Henry T. Olsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, heldur hins vegar fast við, að Norðmenn eigi engan fisk aflögu fyrir aðra og hann segir, að ekki komi annað til greina en Norðmenn fái fullt markaðsfrelsi fyrir fiskinn strax og þeir gangi í Evrópusambandið.

Í viðtali við Dagbladet í Noregi leggur Lamassoure, Evrópumálaráðherra Frakklands, áherslu á, að Frakkar verði að taka tillit til kreppunnar í eigin sjávarútvegi. "Við munum ekki sætta okkur við, að aðild Noregs verði til að rýra kjör franskra sjómanna enn frekar," sagði hann og kvað það alveg ljóst, að Frakkar myndu krefjast nokkurs aðlögunartíma hvað varðaði norskan fisk í Evrópusambandinu.

Carlos Westendorp, Evrópumálaráðherra Spánar, er ekki síður ósveigjanlegur í afstöðunni til Norðmanna. "Gangi Norðmenn ekki til samninga um kvótamálin, verður ekkert af aðild þeirra að Evrópusambandinu," sagði hann í viðtali við Aftenposten.

Auk alls þessa eiga norskir fiskútflytjendur í miklu stríði á franska markaðnum. Á mánudag var norsk flutningabifreið stöðvuð á frönskum þjóðvegi og 10 tonnum af fiski hreinlega rænt úr henni að lögreglunni ásjáandi. Af þessum sökum og vegna stóraukinnar skriffinnsku í Frakklandi eru útflytjendur farnir að halda að sér höndum með fisksendingar þangað. Norsk yfirvöld mótmæltu þessum aðförum mjög harðlega í fyrradag.